Uppgjör Landsbankans fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins 2019
Hreinar vaxtatekjur voru 10,2 milljarðar króna og hækkuðu um 6,3% á milli tímabila. Hreinar þjónustutekjur námu 2,1 milljarði króna og hækkuðu um 21,8% frá sama tímabili árið áður. Virðisrýrnun útlána nam 1 milljarði króna á tímabilinu, samanborið við jákvæðar virðisbreytingar upp á 1 milljarð króna á sama tímabili í fyrra. Í lok mars 2019 var vanskilahlutfallið 0,7%, samanborið við 0,6% á sama tíma 2018.
Rekstrartekjur bankans á fyrstu þremur mánuðum ársins 2019 námu 15 milljörðum króna, samanborið við 16,8 milljarða króna á sama tímabili árið áður. Aðrar rekstrartekjur námu 3,7 milljörðum króna samanborið við 4,5 milljarða króna á sama tímabili árið áður.
Vaxtamunur eigna og skulda nam 2,5% á fyrstu þremur mánuðum ársins 2019 en var 2,7% á sama tímabili árið áður.
Rekstrarkostnaður bankans fyrstu þrjá mánuði ársins 2019 nam 6,2 milljörðum króna, samanborið við 6 milljarða króna á sama tímabili árið áður, sem er hækkun um 3,4%.
Kostnaðarhlutfall fyrstu þrjá mánuði ársins var 38,7%, samanborið við 37,9% á sama tímabili árið 2018.
Útlán jukust um 2,9% frá áramótum, eða um tæpan 31 milljarð króna. Útlánaaukning tímabilsins er bæði hjá einstaklingum og fyrirtækjum. Innlán hjá Landsbankanum jukust um 2 milljarða frá áramótum.
Eigið fé Landsbankans var 246,2 milljarðar króna þann 31. mars sl. og eiginfjárhlutfallið var 23,8%. Á aðalfundi bankans, sem haldinn var þann 4. apríl 2019, var samþykkt tillaga bankaráðs um að greiða arð til hluthafa vegna rekstrarársins 2018 að fjárhæð 9.922 milljónir króna. Arðgreiðslan kemur til lækkunar á eigin fé á öðrum ársfjórðungi 2019.
Árshlutareikningur samstæðu 1F 2019
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir:
„Rekstur og efnahagur Landsbankans er traustur og arðsemi bankans góð, eins og gott uppgjör bankans fyrir fyrsta ársfjórðung 2019 ber með sér. Útlán héldu áfram að aukast, bæði til fyrirtækja og einstaklinga, og útlánasafn bankans er sterkt. Þá hækkuðu þjónustutekjur samhliða auknum umsvifum.
Þeim fjölmörgu stafrænu lausnum sem bankinn hefur kynnt undanfarið hefur verið mjög vel tekið af viðskiptavinum og þær hafa þegar leitt til meiri skilvirkni í rekstri bankans. Landsbankinn hefur undanfarið fjárfest töluvert í innleiðingu nýrra grunnkerfa og byggir áframhaldandi nýsköpun og þróun á bankaþjónustu á sterkum stoðum. Um leið og fjárfest hefur verið í nýrri tækni hefur aðhalds verið gætt í rekstri og þannig tekist að halda rekstrarkostnaði í skefjum. Kostnaðarhlutfall bankans á fyrsta ársfjórðungi var 38,7% sem er umtalsvert lægra en markmið bankans segir til um.
Uppgjörið fyrir fyrsta ársfjórðung 2019 er því gott veganesti fyrir árið. Undanfarið hafa sviptingar í ferðaþjónustu og óvissa á vinnumarkaði sett mikinn svip á efnahagslífið. Áhrifanna gætir í uppgjörinu þar sem IFRS 9 staðallinn gerir ráð fyrir að horft sé til framtíðar við mat á væntu útlánatapi. Á hinn bóginn verður að hafa í huga að áhrifin á efnahagslífið hafa almennt ekki komið fram enn. Landsbankinn mun áfram leggja ríka áherslu á að veita viðskiptavinum frábæra þjónustu og jafnframt tryggja að rekstur bankans sé traustur til lengri og skemmri tíma."
Helstu atriði úr rekstri á fyrsta ársfjórðungi (1F) 2019
Rekstur:
- Hagnaður Landsbankans á 1F 2019 nam 6,8 milljörðum króna, samanborið við 8,1 milljarðs króna hagnað á sama fjórðungi 2018.
- Arðsemi eigin fjár eftir skatta nam 11,2%, samanborið við 13,7% fyrir sama tímabil árið 2018.
- Hreinar vaxtatekjur námu 10,2 milljörðum króna, samanborið við 9,6 milljarða króna á sama ársfjórðungi árið 2018.
- Virðisbreytingar útlána voru neikvæðar um 994 milljónir á 1F 2019, samanborið við jákvæðar virðisbreytingar upp á 1.024 milljónir á sama ársfjórðungi 2018.
- Hreinar þjónustutekjur námu 2,1 milljarði króna en þær voru 1,7 milljarður króna á 1F 2018.
- Vaxtamunur eigna og skulda var 2,5%, samanborið við 2,7% á 1F 2018.
- Rekstrarkostnaður bankans fyrstu þrjá mánuði ársins 2019 nam 6,2 milljörðum króna, samanborið við 6 milljarða króna á sama tímabili árið áður, sem er hækkun um 3,4%.
- Kostnaðarhlutfall á fyrsta ársfjórðungi 2019 var 38,7%, samanborið við 37,9% á sama tíma árið áður.
- Stöðugildi hjá Landsbankanum þann 31. mars 2019 voru 922 en voru 998 á sama tíma fyrir ári.
Efnahagur:
- Eigið fé Landsbankans nam í lok mars 246,2 milljörðum króna og hefur hækkað um 2,8% frá áramótum. Á aðalfundi bankans, sem haldinn var þann 4. apríl 2019, var samþykkt tillaga bankaráðs um að greiða arð til hluthafa vegna rekstrarársins 2018 að fjárhæð 9.922 milljónir króna, sem samsvarar 0,42 krónu á hlut. Skal arðurinn greiðast út í tveimur jafnháum greiðslum, þann 10. apríl 2019 og 2. október 2019. Fyrri afborgunin var greidd til hluthafa þann 10. apríl 2019.
- Eiginfjárhlutfall alls (e. total capital ratio) þann 31. mars 2019 var 23,8% en var 24,7% í lok mars 2018. Það er vel umfram 20,5% lágmarkseiginfjárkröfu Fjármálaeftirlitsins.
- Heildareignir bankans námu 1.379 milljörðum króna í lok mars 2019.
- Innlán viðskiptavina námu 694,8 milljörðum króna í lok mars 2019, samanborið við 693 milljarða króna í lok árs 2018.
- Útlán jukust um 2,9% á fyrstu þremur mánuðum ársins, eða um 30,8 milljarða króna. Útlán til fyrirtækja jukust um 17 milljarða króna og útlán til einstaklinga jukust um 13 milljarða króna.
- Á grundvelli trausts ársuppgjörs gaf Landsbankinn í febrúar út skuldabréf með breytilegum vöxtum til þriggja ára að fjárhæð 1.000 milljónir norskra króna og 500 milljónir sænskra króna. Skuldabréfin voru seld á kjörum sem jafngilda 175 punkta álagi á þriggja mánaða millibankavexti í norskum og sænskum krónum. Heildareftirspurn nam yfir 1.800 milljónum norskra króna.
- Lausafjárstaða bankans er sem fyrr sterk og vel umfram lágmarkskröfur eftirlitsaðila. Lausafjárhlutfall bankans (e. liquidity coverage ratio) var 243% í lok mars 2019.
- Heildarvanskil fyrirtækja og heimila námu 0,7% í lok mars 2019, samanborið við 0,8% í lok árs 2018.
Helstu niðurstöður (fjárhæðir í milljónum króna)
1F 2019 | 1F 2018 | 2018 | 2017 | |
---|---|---|---|---|
Hagnaður eftir skatta | 6.784 | 8.102 | 19.260 | 19.766 |
Arðsemi eigin fjár eftir skatta | 11,2% | 13,7% | 8,2% | 8,2% |
Vaxtamunur eigna og skulda * | 2,5% | 2,7% | 2,7% | 2,5% |
Kostnaðarhlutfall ** | 38,7% | 37,9% | 45,5% | 46,1% |
31.03 2019 | 31.03 2018 | 31.12 2018 | 31.12 2017 | |
Heildareignir | 1.379.298 | 1.206.148 | 1.326.041 | 1.192.870 |
Útlán til viðskiptavina | 1.095.376 | 936.636 | 1.064.532 | 925.636 |
Innlán frá viðskiptavinum | 694.820 | 622.021 | 693.043 | 605.158 |
Eigið fé | 246.206 | 228.601 | 239.610 | 246.057 |
Eiginfjárhlutfall alls | 23,8% | 24,7% | 24,9% | 26,7% |
Fjármögnunarþekja erlendra mynta | 165% | 168% | 166% | 179% |
Heildar lausafjárþekja | 243% | 171% | 158% | 157% |
Lausafjárþekja erlendra mynta | 434% | 751% | 534% | 931% |
Vanskilahlutfall (>90 daga) | 0,7% | 0,6% | 0,8% | 0,9% |
Stöðugildi | 922 | 998 | 919 | 997 |
* Vaxtamunur eigna og skulda = (Vaxtatekjur / meðalstaða heildareigna) – (vaxtagjöld / meðalstaða heildarskulda).
** Kostnaðarhlutfall = Rekstrargjöld alls / (Hreinar rekstrartekjur – virðisbreytingar útlána)