Samkeppniseftirlitið hefur samþykkt kaup Landsbankans á öllu hlutafé í TM tryggingum hf. með gerð sáttar milli bankans og eftirlitsins.
Með sáttinni fellst bankinn á að sérstök kjör á tryggingum TM verði ekki háð því að laun viðskiptavinar verði greidd inn á reikning hjá bankanum. Þar með hefur skilyrðum í kaupsamningi um samþykki eftirlitsaðila verið fullnægt. Áætlað er að bankinn fái TM afhent að loknu uppgjöri við Kviku banka hf. 28. febrúar nk.
Umsamið kaupverð samkvæmt kaupsamningi, sem undirritaður var í maí 2024, var 28,6 ma.kr. og miðast það við efnahagsreikning TM í upphafi árs 2024. Endanlegt kaupverð verður aðlagað miðað við breytingar á efnislegu eigin fé TM frá upphafi árs 2024 til afhendingardags.









