Viðbrögð við svikum

Viðbrögð við svikum

Hvað á ég að gera ef mig grunar að ég hafi orðið fyrir svikum?

Hafðu samband

Ef þú hefur orðið fyrir fjársvikum hvetjum við þig til að láta okkur vita sem fyrst og eftir atvikum kæra málið til lögreglu.

Þú getur alltaf hringt í okkur í síma 410 4000 eða sent tölvupóst á netfangið svikavakt@landsbankinn.is.

Starfsfólk Landsbankans er á vaktinni frá kl. 9 til 23 alla daga vikunnar og aðstoðar við að leysa úr svikamálum. Utan þess tíma færast símtöl sjálfkrafa yfir á neyðarnúmer vegna Visa-korta.

Varnir gegn svikum

Netsvik hafa aukist verulega. Hér að neðan eru aðgengilegar upplýsingar um hvernig hægt er að þekkja netsvik og verjast þeim.

Farðu varlega og lestu skilaboð vandlega

Innskráning

Ekki samþykkja innskráningu eða staðfesta aðgerðir með rafrænum skilríkjum nema þú sért í raun og veru að nota þau til að skrá þig inn.

Kortaupplýsingar

Aldrei senda frá þér kortaupplýsingar eða mynd af greiðslukortum, jafnvel þótt þú þekkir (eða heldur að þú þekkir) þann sem þú ert að senda til.

Hlekkir

Farðu mjög varlega þegar þú færð tölvupóst, SMS eða skilaboð á samfélagsmiðlum sem innihalda hlekki, sérstaklega ef þú áttir ekki von á skilaboðum frá viðkomandi.

Tilboð

Passaðu þig á tilboðum um ýmis konar „fjárfestingartækifæri“ þar sem lofað er skjótum og öruggum gróða.

Fjartenging

Aldrei leyfa ókunnugum að taka yfir tölvuna þína með forritum á borð við AnyDesk, Teamviewer og Iperius Remote. Það er þekkt aðferð hjá svikurum.

Notandaupplýsingar

Passaðu vel upp á notandanafn og lykilorð fyrir netbankann og appið og aldrei deila þeim með öðrum. Þú skalt ekki heldur hleypa öðrum inn í netbankann þinn.

Lesa skilaboð vel

Ein besta leiðin til að verjast netsvikum er að lesa og skoða skilaboð/tölvupósta mjög vel. Algengt er að sendir séu tölvupóstar eða SMS sem líta út fyrir að koma frá t.d. bönkum, flutningsfyrirtækjum eða streymisveitum. Ef smellt er á hlekkinn opnast fölsk síða sem lítur út fyrir að vera vefsíða viðkomandi fyrirtækis en er í raun svikasíða.

Leikir

Ekki falla fyrir fölskum leikjum á samfélagsmiðlum, s.s. á Facebook. Ef þú tekur þátt máttu búast við að fá skilaboð (t.d. á Messenger) um að þú hafir „unnið“ og síðan er óskað eftir kortaupplýsingum til að hægt sé að leggja „vinninginn“ inn á kortið. Svikararnir geta þá notað upplýsingarnar til að taka út af kortinu þínu. Upplýsingar um leikina gætu jafnvel komið frá einhverjum sem þú telur þig þekkja – en það er alltaf möguleiki á að reikningur viðkomandi hafi verið tekinn yfir af svikurum.

Netgreiðslur

Lestu SMS um staðfestingu á netgreiðslum vel og vandlega. Þegar þú notar VISA-kortið hjá vefverslunum sem eru með merkið „Verified by Visa“ færð þú sent SMS með einnota lykilorði (e. secure code). Þar koma líka fram upplýsingar um upphæð greiðslunnar, gjaldmiðil og nafn söluaðila. Það er algjört lykilatriði að lesa SMSið vel og ganga úr skugga um að allar upplýsingar, þ.m.t. um upphæð og gjaldmiðil, séu réttar.

Netslóðir

Lestu vel lénið (netslóðina). Ef þú ætlar inn í netbankann hjá okkur, er slóðin þá örugglega landsbankinn.is en ekki t.d. landsbankinnis.co? Innskráning í bankaapp/eða netbanka á bara að fara fram í gegnum bankaappið sjálft eða með því að fara beint á vefsíðu banka, eins og landsbankinn.is. Skráðu þig aldrei inn í gegnum aðrar innskráningarsíður (t.d. island.is) eða með því að fylgja hlekk yfir á skráningarsíðu. Þetta á líka við um önnur fyrirtæki. Við mælum með að þú farir beint inn á vef viðkomandi fyrirtækis eða stofnunar og skráir þig inn með hefðbundnum hætti þar, frekar en að smella á hlekki eða fara í gegnum leitarvél.

Helstu tegundir netsvika

Öryggi í netverslun
14 góð ráð til að auka öryggi í netverslun

Verslun á netinu er ekki hættulaus, tölvuþrjótar leggja mikið á sig til að stela greiðsluupplýsingum eða svíkja fé út úr fólki með öðrum hætti. Hér fyrir neðan eru nokkur einföld ráð til að minnka hættuna á netsvikum.

Ef þú lest ekki skilaboðin getur þú tapað miklum peningum!

Ertu örugglega að nota rafrænu skilríkin til að staðfesta eitthvað sem þú vilt í raun og veru gera?

Fingur, auga eða rödd í stað lykilorða
Fleiri greinar um netöryggi

Landsbankinn vill stuðla að auknu netöryggi og birtir aðgengilega umfjöllun um netöryggi og ráðleggingar um hvernig forðast má netsvik.

Komdu í hóp ánægðra viðskiptavina

Það tekur aðeins örfáar mínútur að fá aðgang að netbanka og appi, stofna reikning og fá kort.

Fjölskylda úti í náttúru
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur