Áður höfum við fjallað um þá tegund vefveiða sem felst í því að fjársvikarar reyna að blekkja fólk með trúverðugum tölvupóstum (e. phishing) sem líta út eins og þeir séu sendir frá lögmætum fyrirtækjum.
Samhliða aukinni snjalltækjanotkun hefur annað afbrigði vefveiða litið dagsins ljós sem á ensku nefnist smishing. Eðli slíkra skilaboðasvika er hið sama og vefveiða - að komast yfir upplýsingar á borð við notandanafn og lykilorð í netbanka, bankareikningsupplýsingar, leyninúmer bankareikninga, greiðslukortanúmer, CVC-númer og fleira viðkvæmt. Svikarinn notar svo gögnin til að villa á sér heimildir í samskiptum við til dæmis vefverslanir, banka og aðra þjónustuaðila
Að þekkja skilaboðasvik
Fölsk smáskilaboð geta verið afar sannfærandi í útliti. Þess vegna er mikilvægt að þekkja megineinkenni falskra skilaboða. Dæmi um svona svik eru fölsk smáskilaboð sem virðast berast frá banka þar sem fullyrt er að greiðslukort viðkomandi hafi verið notað á ólöglegan hátt í netverslun. Viðskiptavinurinn er beðinn að hafa samband við þjónustuver bankans (falskt símanúmer) og geri hann það, er hann því næst beðinn að „staðfesta“ meðal annars kortanúmerið, gildistíma kortsins og CVC-númerið með því að lesa það allt upp í símann. Þessi gögn getur svindlarinn svo misnotað á margvíslegan hátt.
Af hverju eru skilaboðasvik vaxandi vandamál?
Skilaboðasvik eru ekki ný af nálinni og fór fyrst að bera á þesskonar svikastarfsemi árið 2008. Póstforrit eru það þróuð að þau geta síað flesta grunsamlega tölvupósta frá réttmætum póstum og loka sjálfkrafa á sendendur falskra pósta. Kjarni málsins er sá, að póstforrit eru ögn þróaðri en spjallforrit hvað þetta atriði varðar. Því er nærtækast fyrir svikara að beina kröftum sínum frekar að spjallforritunum, sérstaklega í símum.
Skilaboðasvik eru líka slæm fyrir fyrirtæki
Sífellt fleiri einstaklingar nota eigin síma við vinnu sína eða þá að vinnuveitandi útvegar starfsmanni síma. Þannig hafa einstaklingar stundum aðgang að til dæmis sameiginlegum gögnum og netkerfi fyrirtækisins í gegnum síma. Líkt og gildir um vefveiðar, má nota skilaboðasvik til að koma fjársvikaforritum og öðrum óknyttakóða fyrir í símanum. Þegar svikarinn virkjar búnað sinn getur hann mögulega stolið gögnum frá fyrirtækinu, framkvæmt árásir á fyrirtækið, komið enn öðrum fjársvikaforritum fyrir á netþjónum fyrirtækisins og svo framvegis.
Holl ráð gegn skilaboðasvikum
- Ekki smella á hlekki í skilaboðum frá bankanum. Ekki smella heldur á netföng sem þar kunna að birtast. Smelltu heldur ekki á grafísk tákn sem bera hlekki (örvar og þess háttar).
- Bankar biðja þig aldrei um aðgangsupplýsingar að netbanka eða kreditkort eða annað þvíumlíkt.
- Beittu heilbrigðri skynsemi við lestur skilaboða frá bönkum og öðrum þjónustuveitendum og veltu ávallt fyrir þér réttmæti skilaboðanna.
- Jafnvel þó textinn sé óaðfinnanlega ritaður er mikilvægt að hlusta á innri rödd eða tilfinningu um að eitthvað annað í kringumstæðunum sé grunsamlegt. Dæmi um þetta eru afsláttartilboð frá banka sem fela í sér að smella á hlekki.
- Ekki láta undan þrýstingi um skjót viðbrögð, bankar veita þér svigrúm til að staldra við og hugsa.
- Gruni þig að ekki sé allt með felldu, hafðu þá samband við bankann á annan máta, til dæmis með símtali, og sannreyndu þannig réttmæti skilaboðanna.
- Loks er góð regla að vista aldrei greiðslukortanúmer í símanum eða á netinu. Með því má koma í veg fyrir að svikarinn komast yfir kortaupplýsingar jafnvel þó hann nái að koma eigin hugbúnaði fyrir í símanum þínum.