Við viljum vara viðskiptavini okkar við netsvikum, sérstaklega svikum sem fara fram í gegnum samfélagsmiðla og skilaboðaforrit, en mikið hefur borið á þeim undanfarið.
Aðferðirnar eru margar en hér er eitt dæmi um hvernig svona svik fara fram:
Skref 1
Svikarar taka yfir aðgang að Facebook, Messenger eða Instagram hjá einstaklingi.
Skref 2
Næst senda þeir skilaboð til fólks á vinalista viðkomandi. Í skilaboðunum mæla svikararnir með netleik en „vinurinn“ þarf að senda þeim símanúmerið sitt.
Skref 3
Svikararnir biðja um kortanúmer á greiðslukortinu þínu, gildistíma og öryggisnúmer „til að hægt sé að taka þátt og greiða út vinninga“ – en auðvitað er enginn vinningur í boði.
Skref 4
Ef þú sendir þeim símanúmerið koma skilaboð um að ef þú fáir SMS með auðkennisnúmeri eða kóða þurfir þú einnig að senda það.
Skref 5
Svikararnir nota kortaupplýsingarnar sem þú gafst þeim til að kaupa vöru/þjónustu (sjá skref 3). Til að ljúka greiðslu þurfa þeir að fá kóðann sem kemur í SMS-i (sjá skref 4).
Mörg dæmi er um að svikarar taki stórfé út af kortum með þessum hætti og fullnýti jafnvel heimildina. Tjónið getur því verið mikið.
Þetta er bara eitt dæmi um lymskulegar aðferðir svikahrappanna. Við minnum á að þú átt aldrei að gefa upp greiðslukortanúmer, innskráningarupplýsingar í netbanka eða auðkennisnúmer sem þú færð send í SMS-i á samfélagsmiðlum, SMS-um eða í tölvupósti. Ef vinur þinn á samfélagsmiðlum biður um slíkar upplýsingar er næstum öruggt að um svikatilraun er að ræða.
Ef þú telur þig hafa orðið þolandi svika skaltu strax hafa samband við bankann þinn og lögreglu.