Símatalasvikin halda áfram – ekki falla í gildruna
Þessi símtöl líta út fyrir að koma úr íslenskum símanúmerum en raunverulegur eigandi þeirra veit ekki af því að verið er að nota þau í sviksamlegum tilgangi. Svikararnir hafa hingað til, eftir því sem við vitum, verið enskumælandi. Þeir ávarpa viðmælandann með nafni og reyna hvað þeir geta til að byggja upp traust.
Svona aðferðir nota svikararnir m.a.:
- Þeir segja að komið hafi í ljós að þú eigir inneign í rafmynt sem þú hafir keypt fyrir nokkrum árum. Tilgangurinn með símtalinu sé að koma inneigninni til þín ásamt ávöxtun.
- Þér er sagt að þú hafir unnið í rafmyntarlottói (bitcoinlottó).
- Þér bjóðist hagstæð fjárfestingatækifæri í rafmynt og fáir skjótan gróða.
- Þú getir fengið greitt fyrir að aðstoða aðra einstaklinga við að fjárfesta í rafmynt.
- Svikararnir reyna að fá þig til að hlaða niður yfirtökuforritum á tölvu eða síma á borð við Any Desk, Teamviewer, Iperius Remot eða Screenleap. Þeir segja að með þessu móti geti þeir aðstoðað þig við að klára færslurnar.
- Þessi forrit gefa svikurum fullan aðgang að tækinu sem þeir geta nýtt til að skrá sig inn í app eða netbanka fjármálafyrirtækis og stela fjármunum. Einnig eru einstaklingar látnir hlaða niður rafmyntarveskjum og sem eru sögð tengjast þessum ímynduðu viðskiptum.
Hvað ber að varast:
- Aldrei hlaða niður yfirtökuforritum/öppum á síma eða tölvu að beiðni einhvers sem þú þekkir ekki persónulega og ert alveg viss um að þú getir treyst.
- Aldrei samþykkja auðkenningar í rafrænum skilríkjum sem þú ert ekki að gera sjálf/-ur.
- Aldrei samþykkja auðkenningar í rafrænum skilríkjum án þess að lesa hvað það er sem þú ert að samþykkja.
Ef þú áttar þig á, jafnvel í miðju símtali að þú ert að ræða við svikara, skelltu þá strax á! Hafir þú orðið fyrir svikum skaltu strax hafa samband við viðskiptabankann þinn til að leita aðstoðar.
Hafðu samband ef þú lendir í svikum
Þú getur haft samband við Landsbankann í síma 410 4000 eða með því að senda tölvupóst í svikavakt@landsbankinn.is. Starfsfólk Landsbankans er á vaktinni frá kl. 9 til 23 alla daga vikunnar og aðstoðar við að leysa úr svikamálum. Í Landsbankaappinu og á l.is getur þú framkvæmt neyðarlokun sem lokar aðgangi að appi og netbönkum.