Upp­gjör Lands­bank­ans fyr­ir fyrstu þrjá mán­uði árs­ins 2018

Afkoma Landsbankans var jákvæð um 8,1 milljarð króna eftir skatta fyrstu þrjá mánuði ársins 2018. Hagnaður bankans á sama tímabili árið 2017 nam 7,6 milljörðum króna. Arðsemi eigin fjár var 13,7% á fyrsta ársfjórðungi samanborið við 12,5% á sama tímabili 2017.
3. maí 2018 - Landsbankinn

Afkoma Landsbankans var jákvæð um 8,1 milljarð króna eftir skatta fyrstu þrjá mánuði ársins 2018. Hagnaður bankans á sama tímabili árið 2017 nam 7,6 milljörðum króna. Arðsemi eigin fjár var 13,7% á fyrsta ársfjórðungi samanborið við 12,5% á sama tímabili 2017.

Hreinar vaxtatekjur voru 9,6 milljarðar króna og hækkuðu um 20,2% á milli tímabila. Hreinar þjónustutekjur námu 1,7 milljörðum króna og lækkuðu um 20,1% frá sama tímabili árið áður. Jákvæðar virðisbreytingar námu 1,0 milljarði króna á tímabilinu en voru 1,8 milljarðar króna á sama tímabili í fyrra.

Aðrar rekstrartekjur námu 4,5 milljörðum króna samanborið við 3,8 milljarða króna á sama tímabili 2017, sem samsvarar 18% hækkun á milli tímabila. Vanskilahlutfall hélt áfram að lækka og var 0,6% á fyrsta ársfjórðungi samanborið við 1,3% á sama tímabili 2017.

Vaxtamunur eigna og skulda nam 2,7% á fyrsta ársfjórðungi 2018 en var 2,2% á sama tímabili árið áður.

Rekstrartekjur bankans fyrstu þrjá mánuði ársins námu 16,8 milljörðum króna samanborið við 15,7 milljarða króna á sama tímabili árið 2017 sem samsvarar 7% hækkun á milli tímabila. Rekstrarkostnaður hækkar um 1,4% miðað við sama tímabil árið 2017 en alls nam rekstrarkostnaður bankans 6 milljörðum króna á tímabilinu samanborið við 5,9 milljarða á sama tímabili árið 2017. Rekstrarkostnaður að frátöldum launum og launatengdum gjöldum nam 2,3 milljörðum króna sem er lækkun um 3,8% frá sama tímabili árið 2017. Kostnaðarhlutfall fyrstu þriggja mánaða ársins var 37,9% samanborið við 42,5% á sama tímabili árið áður.

Útlán Landsbankans jukust um 11 milljarða króna á tímabilinu og var aukningin bæði í útlánum til fyrirtækja og einstaklinga. Innlán hjá Landsbankanum jukust um 2,8% á milli tímabila, eða um 16,9 milljarða króna. Þar af jukust innlán einstaklinga um 8 milljarða króna.

Eigið fé Landsbankans var 228,6 milljarðar króna 31. mars sl. og eiginfjárhlutfallið var 24,7%. Landsbankinn greiðir á þessu ári alls 24,8 milljarða króna í arð. Annars vegar er um að ræða 15,4 milljarða króna arðgreiðslu vegna rekstrarársins 2017 sem samsvarar um 78% af hagnaði ársins og hins vegar er um að ræða sérstaka arðgreiðslu til hluthafa, að fjárhæð 9,5 milljarðar króna, sem verður greidd til hluthafa 19. september 2018.

Árshlutareikningur samstæðu 1F 2018

Afkomukynning

Fréttatilkynning

Fjárhagsbók

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir:

„Rekstur Landsbankans á fyrsta ársfjórðungi ársins 2018 gekk vel. Hærri markaðshlutdeild og aukin umsvif í þjóðfélaginu hafa leitt til þess að bæði útlán og innlán hjá bankanum hafa vaxið umtalsvert á milli tímabila. Um leið hefur aðhald í rekstri og hagstæðari fjármagnsskipan bankans skilað markverðum árangri. Það er ánægjulegt að áfram eru skýr merki um sterkari stöðu heimila og fyrirtækja, bæði í vaxandi innlánum, en ekki síður í minnkandi vanskilum.

Landsbankinn leggur mikla áherslu á að byggja upp traust og langvarandi viðskiptasambönd við einstaklinga og fyrirtæki. Við teljum að þessi áhersla eigi ríkan þátt í að kannanir sýna aukna ánægju með þjónustu bankans, traust til bankans hefur aldrei mælst hærra og hlutdeild bankans á einstaklings- og fyrirtækjamarkaði hefur aukist.

Á undanförnum mánuðum hefur Landsbankinn kynnt margar nýjar rafrænar þjónustuleiðir, þar á meðal Landsbankaappið en áður hafði bankinn m.a. boðið viðskiptavinum að stilla sjálfir yfirdráttinn í netbankanum og sækja rafrænt um greiðsludreifingu kreditkorta. Í öllum tilvikum hafa viðtökurnar verið vonum framar og það er ljóst að viðskiptavinir vilja eiga kost á að stunda sín bankaviðskipti í tölvunni eða í símanum, hvar og hvenær sem er. Undir lok síðasta árs tók Landsbankinn í notkun nýtt innlána- og greiðslukerfi frá Sopra, fyrstur íslenskra banka. Bankinn byggir framþróun í stafrænni tækni á traustum grunni og á þessu ári mun bankinn leggja enn meiri áherslu en áður á nýjungar í stafrænni þjónustu.“

Helstu atriði úr rekstri á fyrsta ársfjórðungi (1F) 2018

Rekstur:

  • Hagnaður Landsbankans á fyrsta ársfjórðungi nam 8,1 milljarði króna, samanborið við 7,6 milljarða króna á 1F 2017.
  • Arðsemi eiginfjár eftir skatta nam 13,7%, samanborið við 12,5% fyrir sama tímabil árið 2017.
  • Hreinar vaxtatekjur námu 9,6 milljörðum króna á fyrstu þremur mánuðum ársins í samanburði við 8,0 milljarða króna á sama tímabili árið 2017.
  • Virðisbreytingar útlána á fyrstu þremur mánuðum ársins voru jákvæðar um 1,0 milljarð króna.
  • Hreinar þjónustutekjur lækkuðu um 20,1% og námu 1,7 milljörðum króna en þær voru 2,1 milljarðar króna á 1F 2017.
  • Vaxtamunur eigna og skulda nam 2,7% samanborið við 2,2% á sama tímabili árið áður.
  • Laun og launatengd gjöld námu 3,7 milljörðum króna og hækkuðu um 4,9% á milli tímabila.
  • Annar rekstrarkostnaður nam 2,3 milljörðum króna og lækkaði um 3,8% frá sama tímabili árið áður.
  • Kostnaðarhlutfall fyrstu þriggja mánaða ársins var 37,9% samanborið við 42,5% á sama tíma árið áður.
  • Stöðugildi voru 998 þann 31. mars en voru 1.000 á sama tíma í fyrra.

Efnahagur:

  • Eigið fé Landsbankans í lok mars sl. nam um 228,6 milljörðum króna og lækkaði um 7,1% frá áramótum
  • Eiginfjárhlutfall bankans þann 31. mars 2018 var 24,7% en var 27,4% í lok mars 2017. Eiginfjárviðmið Fjármálaeftirlitsins fyrir Landsbankann er 21,4%.
  • Heildareignir bankans námu 1.206 milljörðum króna í lok mars 2018.
  • Innlán viðskiptavina námu 622 milljörðum króna í lok mars 2018 samanborið við 605,2 milljarða króna í lok árs 2017.
  • Ný útlán til viðskiptavina á fyrsta ársfjórðungi eru um 142 milljarðar króna en að teknu tilliti til afborgana, »virðisbreytinga og fleiri þátta hækkuðu heildarútlán um 11 milljarða króna á tímabilinu.
  • Lausafjárstaða bankans er sem fyrr sterk, jafnt í erlendri mynt sem í íslenskum krónum, og vel umfram kröfur eftirlitsaðila. Lausafjárhlutfallið var 171% í lok mars 2018.
  • Heildarvanskil hjá fyrirtækjum og heimilum námu 0,6% í lok mars 2018 samanborið við 0,9% í lok árs 2017.

Helstu niðurstöður (fjárhæðir í milljónum króna)

  1F 2018 1F 2017 2017 2016
Hagnaður eftir skatta 8.102 7.576 19.766 16.643
Arðsemi eigin fjár eftir skatta 13,7% 12,5% 8,2% 6,6%
Leiðrétt arðsemi eftir skatta * 13,8% 11,7% 9,0% 7,7%
Vaxtamunur eigna og skulda ** 2,7% 2,2% 2,5% 2,3%
Kostnaðarhlutfall *** 37,9% 42,5% 46,1% 48,4%

  31.03 2018 31.03 2017 31.12 2017 31.12 2016
Heildareignir 1.206.148 1.182.467 1.192.870 1.111.157
Útlán til viðskiptavina 936.636 872.350 925.636 853.417
Innlán frá viðskiptavinum 622.021 594.565 605.158 589.725
Eigið fé 228.601 233.894 246.057 251.231
Eiginfjárhlutfall alls 24,7% 27,4% 26,7% 30,2%
Fjármögnunarþekja erlendra mynta 168% 159% 179% 154%
Heildarlausafjárþekja 171% 158% 157% 128%
Lausafjárþekja erlendra mynta 751% 153% 931% 743%
Vanskilahlutfall (>90 daga) 0,6% 1,3% 0,9% 1,5%
Stöðugildi 998 1.000 997 1.012

* Leiðrétt arðsemi eftir skatta = (Hagnaður eftir skatta – jákvæðar virðisbreytingar eftir skatta – skattur á heildarskuldir fjármálafyrirtækja – hagnaður af aflagðri starfsemi eftir skatta) / meðalstaða eigin fjár.

** Vaxtamunur eigna og skulda = (Vaxtatekjur / meðalstaða heildareigna) – (vaxtagjöld / meðalstaða heildarskulda).

*** Kostnaðarhlutfall = Rekstrargjöld alls / (Hreinar rekstrartekjur – virðisbreytingar útlána)

Þú gætir einnig haft áhuga á
Austurbakki
23. okt. 2024
Uppgjör Landsbankans fyrir fyrstu níu mánuði ársins 2024
Hagnaður Landsbankans á fyrstu níu mánuðum ársins 2024 nam 26,9 milljörðum króna eftir skatta, þar af 10,8 milljörðum króna á þriðja ársfjórðungi. Arðsemi eiginfjár var 11,7% samanborið við 10,5% á sama tímabili árið áður.
Austurbakki
10. sept. 2024
Landsbankinn gefur út víkjandi forgangsbréf í sænskum og norskum krónum
Landsbankinn hefur lokið sölu á skuldabréfum með breytilegum vöxtum að fjárhæð 1.000 milljónir sænskra króna og 250 milljónir norskra króna. Skuldabréfin eru til fjögurra ára og með heimild til innköllunar að þremur árum liðnum.
Austurbakki
18. júlí 2024
Uppgjör Landsbankans fyrir fyrri helming ársins 2024
Hagnaður Landsbankans á fyrri helmingi ársins 2024 nam 16,1 milljarði króna eftir skatta, þar af 9,0 milljörðum króna á öðrum ársfjórðungi. Arðsemi eiginfjár var 10,5% samanborið við 10,3% á sama tímabili árið áður.
Austurbakki
7. júní 2024
S&P segir kaup Landsbankans á TM fjölga tekjustoðum og hafa hófleg áhrif á eiginfjárstöðu
Alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækið S&P Global Ratings (S&P) telur að kaup Landsbankans á TM tryggingum hf. (TM) skapi tækifæri fyrir bankann til að festa sig í sessi á íslenskum tryggingamarkaði, breikka þjónustuframboð til viðskiptavina og auka fjölbreytni í tekjustoðum bankans til framtíðar. Þetta kemur fram í tilkynningu sem S&P birti 5. júní 2024.
Austurbakki
30. maí 2024
Samningur um kaup Landsbankans á TM undirritaður
Samningur um kaup Landsbankans á TM tryggingum hf. af Kviku banka var undirritaður í dag.
Austurbakki
2. maí 2024
Uppgjör Landsbankans fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins 2024
Hagnaður Landsbankans á fyrstu þremur mánuðum ársins 2024 nam 7,2 milljörðum króna eftir skatta. Arðsemi eiginfjár á tímabilinu var 9,3% samanborið við 11,1% á sama tímabili árið áður.
Austurbakki
19. apríl 2024
Niðurstöður aðalfundar Landsbankans 2024
Aðalfundur Landsbankans, sem haldinn var 19. apríl 2024, samþykkti að greiða 16.535 milljónir króna í arð til hluthafa.
Austurbakki
4. apríl 2024
S&P hækkar lánshæfismat Landsbankans í BBB+
Alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækið S&P Global Ratings tilkynnti í dag að fyrirtækið hefði hækkað lánshæfismat Landsbankans. Hækkunin nemur einu þrepi og er lánshæfismatið því BBB+ með stöðugum horfum.
Austurbakki
27. mars 2024
Aðalfundur Landsbankans 2024 - fundarboð
Aðalfundur Landsbankans verður haldinn föstudaginn 19. apríl 2024 kl. 16.00 í Reykjastræti 6, Reykjavík.
Austurbakki
22. mars 2024
Bankasýslan var upplýst um áform Landsbankans um að kaupa TM
Bankaráð Landsbankans hefur svarað bréfi Bankasýslu ríkisins frá 18. mars sl. þar sem óskað er eftir tilteknum upplýsingum um kaup bankans á TM tryggingum.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur