Bankaráð Landsbankans hefur ákveðið að nýta heimild til kaupa á eigin hlutum í bankanum sem veitt var á aðalfundi bankans 24. mars 2021. Samkvæmt endurkaupaáætluninni munu kaupin nema að hámarki 57 milljónum hluta eða sem nemur 0,24% af útgefnu hlutafé. Landsbankinn hefur áður gefið hluthöfum kost á að selja hluti sína í bankanum, síðast í nóvember 2021.
Landsbankinn býðst til að kaupa hluti af hluthöfum á endurkaupatímabili sem stendur frá og með 7. febrúar 2022 til og með 21. febrúar 2022.
Þeir hluthafar sem ákveða að taka boði bankans skulu fylla út tilkynningu þar að lútandi og senda bankanum. Eyðublað fyrir tilkynninguna er aðgengilegt á vef bankans. Tilkynningar verða afgreiddar á tímabilinu í þeirri röð sem þær berast bankanum þar til hámarkinu (57 milljónum hluta) er náð. Verði hámarkinu náð á endurkaupatímabilinu verða frekari tilkynningar því ekki afgreiddar.
Í samræmi við ákvörðun aðalfundar býðst Landsbankinn til að kaupa hvern hlut á endurkaupatímabilinu á gengi sem samsvarar hlutfallinu á milli eigin fjár sem tilheyrir hluthöfum bankans og hlutafjár bankans, samkvæmt síðasta birta uppgjöri áður en endurkaupatímabilið hefst.
Samkvæmt ársuppgjöri Landsbankans 2021 er eigið fé sem tilheyrir hluthöfum bankans 282.645 milljónir króna og útistandandi hlutir 23.621 milljónir. Í samræmi við framangreint býðst Landsbankinn því til að kaupa hvern hlut á genginu 11,9658 á endurkaupatímabilinu.
Heildarfjöldi hluta í bankanum er 24.000 milljónir hluta. Fjöldi hluthafa í bankanum er 855. Ríkissjóður á um 23.567 milljónir hluta eða um 98,2% af útgefnum hlutum. Bankinn á um 379 milljónir eigin hluti eða um 1,58% af útgefnu hlutafé. Aðrir hluthafar en ríkissjóður og bankinn eiga um 54 milljónir hluta eða um 0,22% af útgefnu hlutafé.
Nánari upplýsingar og leiðbeiningar fyrir hluthafa sem vilja nýta sér boð bankans er að finna á vef Landsbankans, www.landsbankinn.is/endurkaup. Þá verða upplýsingar veittar í síma 410 4040 og þú getur einnig sent tölvupóst á vl@landsbankinn.is.