Verð­bólg­an á allra vör­um - nokk­ur lyk­il­at­riði til að hafa á hreinu

Verðbólga, stýrivextir, verðbólguvæntingar og gengi. Hvað þýða þessi hugtök og af hverju skipta þau máli?
Lyftari í vöruhúsi
8. maí 2024

Verðbólgan er ofarlega á baugi þessa dagana og ekki úr vegi að fara yfir nokkur lykilhugtök sem tengjast henni. Ég kafa ekki djúpt heldur hef þetta eins stutt og hnitmiðað og kostur er.

Hnykkjum samt fyrst á hagvextinum

Hagvöxtur er breyting á vergri landsframleiðslu (VLF) á tilteknu tímabili. Oftast er talað um hagvöxt á milli ára. Verg landsframleiðsla er heildarverðmæti þeirrar vöru og þjónustu sem verður til í landinu. Þegar landsframleiðsla dregst saman á milli ára er hagvöxtur neikvæður og þá er talað um samdrátt.

Með öðrum orðum má segja að hagvöxtur sé mæling á því hvernig verðmætasköpun breytist á milli ára. Hagstofa Íslands mælir hagvöxt fyrir hvern ársfjórðung. Reynslan sýnir að hagvöxtur sem hægt er að viðhalda til lengri tíma geti verið á bilinu 2,5-3,5% á ári.

Hvað er verðbólga?

Verðbólga segir til um hversu mikið verð á vörum og þjónustu hefur hækkað á gefnu tímabili. Ef ársverðbólga er 10% hefur hlutur sem kostaði 1.000 krónur fyrir einu ári hækkað um 100 krónur og kostar 1.100 krónur í dag.

Hagstofan mælir verðbólgu með mánaðarlegri verðmælingu á dæmigerðri neyslukörfu. Neyslukarfan er sett saman til þess að lýsa útgjöldum heimila og hvernig þau skiptast á milli ólíkra neysluflokka, svo sem matvæla, eldsneytis, opinberrar þjónustu og kostnaðar við að búa í eigin húsnæði. Karfan er byggð á niðurstöðum könnunar sem Hagstofan gerir reglulega. Verðþróun á neyslukörfunni er svo notuð til þess að áætla vísitölu neysluverðs, sem er notuð til að reikna verðbólguna. Ef vísitala neysluverðs hefur hækkað um 10% á síðustu 12 mánuðum, þá hefur ársverðbólgan verið 10%.

Hvað eru verðbólguvæntingar og hvers vegna skipta þær máli?

Verðbólguvæntingar segja til um hversu mikilli verðbólgu einstaklingar og fyrirtæki búast við. Væntingar um verðbólgu í framtíðinni auka verðbólguþrýsting og torvelda peningastefnunni að ná böndum á verðbólgu. Þegar launafólk gerir ráð fyrir hækkandi verðlagi er það líklegra til að krefjast mikilla launahækkana í því skyni að verja kaupmáttinn. Að gefnum hærri launakostnaði eru fyrirtæki líklegri til að hækka verð á vörum og þjónustu og kröftug eftirspurn gerir þeim einnig betur kleift að velta kostnaðarhækkunum út í verðlag. Seðlabankanum er því mikið í mun að hemja verðbólguvæntingar.

Hvað getur valdið verðbólgu?

Ýmsir þættir hafa áhrif á verðbólgu. Laun hafa mikið um það að segja hversu mikið fólk hefur á milli handanna og þar með hversu miklum peningum það getur varið í vörur og þjónustu. Hærri laun auka almennt eftirspurn og ef framboð á vörum og þjónustu eykst ekki samhliða eða hraðar, þá má almennt gera ráð fyrir að verðlag hækki.

Ríkisvaldið og sveitarfélög hafa áhrif á verðbólgu í gegnum opinber fjármál. Aukið aðhald í opinberum fjármálum vinnur gegn verðbólgu en minna aðhald ýtir undir verðbólgu. Aðhald opinberra fjármála má t.d. auka með því að draga úr útgjöldum hins opinbera og/eða með því að hækka álögur á fólk og fyrirtæki eða með því að fresta framkvæmdum.

Þættir eins og til dæmis hrávöruverð á heimsmarkaði, verð á innfluttum vörum, vilji og geta fólks til að ferðast til Íslands og gengi krónunnar hafa líka mikil áhrif á verðlag innanlands. Síðast en ekki síst gegnir peningastefna Seðlabankans veigamiklu hlutverki þegar kemur að þróun verðlags. Lögbundið hlutverk Seðlabankans er að viðhalda verðstöðugleika og þar er miðað við 2,5% verðbólgu á ári.

Hvað eru stýrivextir?

Seðlabankinn hefur nokkur tól sem hann getur beitt til þess að viðhalda stöðugu verðlagi og berjast gegn of mikilli verðbólgu. Helsta verkfæri Seðlabankans eru stýrivextir, vextir bankans í viðskiptum við fjármálafyrirtæki, sem eru líka stundum kallaðir meginvextir Seðlabankans. Þegar Seðlabankinn hækkar eða lækkar stýrivexti fylgja vextir fjármálafyrirtækja jafnan í kjölfarið.

Vaxtastig getur haft áhrif á verðbólgu í gegnum ýmsar ólíkar leiðir. Með hærra vaxtastigi eykst ávöxtun af sparnaði og þá eykst hvati fólks til að spara og verja minni peningum til neyslu. Ef fólk heldur að sér höndunum í neyslu og sparar meira minnkar eftirspurnarþrýstingur og þar með verðbólguþrýstingur.

Eftir því sem vextir hækka verður líka dýrara að taka lán og fólk getur síður tekið lán fyrir neyslu eða fjárfestingu. Að sama skapi verður dýrara fyrir fyrirtæki að taka lán fyrir hvers konar starfsemi eða fjárfestingu, umsvif þeirra dragast saman og þau ráða færri í vinnu sem hefur áhrif á atvinnustig og þar með innlenda eftirspurn. Greiðslubyrði af lánum með breytilega vexti hækkar þegar stýrivextir hækka og fólk hefur því minna á milli handanna til að nota í neyslu eða fjárfestingar. Og ef samfélagið hefur trú á að stjórnvöldum, og þar á meðal Seðlabankanum, sé alvara í því að ná niður verðbólgu þá lækka verðbólguvæntingar sem hjálpar til við að draga úr verðbólguþrýstingi.

Hvað er gengi og hvernig tengist það verðbólgu?

Gengi íslensku krónunnar segir til um það hversu mikils virði krónan er í erlendum gjaldmiðlum. Gengið ræðst af eftirspurn eftir og framboði af erlendum gjaldmiðli hér á landi. Opinber gengisskráning er í höndum Seðlabankans sem skráir verð evru í krónum einu sinni á dag. Gengi krónu gagnvart öðrum gjaldmiðlum er svo ákvarðað út frá gengi evru og annarra gjaldmiðla

Ef innflutningur er meiri en útflutningur er meiri eftirspurn eftir erlendum gjaldmiðlum. Það leiðir til þess að gengið veikist. Þar með þarf fleiri krónur til að greiða fyrir innflutta vöru og þjónustu sem almennt leiðir til þess að útflutningur eykst og innflutningur minnkar. Þegar gengið veikist verður innflutningur dýrari og það kyndir undir verðbólgu. Gengisstyrking getur aftur á móti unnið gegn verðbólgu; innflutningur verður ódýrari og þrýstir því ekki upp verðlagi innanlands.

Hvers vegna er verðbólga slæm?

Mátulega mikil verðbólga er ekki slæm og Seðlabankinn reynir að halda henni sem næst 2,5%. Of mikil verðbólga er slæm á margan hátt. Hún étur upp kauphækkanir og dregur úr kaupmætti, því að verðbólga veldur því að fólk getur keypt minna af vörum og þjónustu fyrir tekjur sínar. Einnig er talað um að þegar verðlag breytist hratt versni verðskyn neytenda og þannig dragi úr aðhaldi með verðlagningu fyrirtækja. Þá verður erfiðara að áætla verðþróun fram í tímann og taka skynsamlegar ákvarðanir um neyslu og fjárfestingu. Loks eykur verðbólga ójöfnuð enda bitnar hún verr á lágtekjufólki en hátekjufólki sem er líklegra til að geta varist verðbólgunni og brugðist við óvæntum útgjöldum.

Hagfræðideild Landsbankans birtir reglulega Hagsjár þar sem fjallað er um ýmislegt sem tengist efnahagsmálum, s.s. verðbólguþróun, fasteignamarkaðinn, fjölda ferðamanna og fleira. Efnið er birt hér á Umræðunni en einnig er hægt að skrá sig á póstlista og fá útgefið efni sent í tölvupósti.

Greinin var fyrst birt 7. júní 2023 og uppfærð 8. maí 2024.

Þú gætir einnig haft áhuga á
26. nóv. 2024
Vantar þig fimmhundruðkalla?
Ertu á leiðinni með barnið í bekkjarafmæli og þarft að útvega nokkra fimmhundruðkalla í snatri? Við hjálpum þér að finna þá.
Rafræn greiðsla
20. nóv. 2024
Hvað kostar að taka skammtímalán og dreifa greiðslunum?
Til að bera saman kjör á skammtímalánum er ekki nóg að horfa á vextina eða vaxtaprósentuna eina og sér heldur þarf að taka allan kostnað inn í reikninginn, svo sem lántökugjöld og greiðslugjöld. Á lánum sem fela í sér greiðsludreifingu er algengt að kjörin jafngildi 30-40% ársvöxtum. Og það er slatti!
Fjölskylda úti í náttúru
18. nóv. 2024
Hvenær er skynsamlegt að endurfjármagna íbúðalánið?
Það er alltaf skynsamlegt að hafa á hreinu hvaða kjör eru á íbúðaláninu þínu og kanna reglulega hvort það gæti verið hagstætt að skipta um lánsform eða lánveitanda. Með því að endurfjármagna getum við oft sparað okkur háar fjárhæðir.
24. okt. 2024
Auðvelt að bera saman ávöxtun á fjárfestingum
Það er gott að fara reglulega yfir fjárfestingarnar sínar og skoða hvort við séum að fá bestu ávöxtunina sem völ er á miðað við eigin markmið og áhættuvilja.
Íbúðahús
14. okt. 2024
Hvernig virka verðtryggð lán?
Verðtryggð lán eru bundin við vísitölu neysluverðs sem er notuð til að mæla verðbólgu. Það þýðir að höfuðstóll lánsins hækkar í takt við verðbólguna hverju sinni. Ef verðbólga er mikil getur hækkunin verið umtalsverð og haft þau áhrif að greiðslubyrði verðtryggðra lána hækkar þegar líður á lánstímann.
27. sept. 2024
Hvers vegna eignadreifingarsjóðir?
Þegar þú fjárfestir í eignadreifingarsjóði fjárfestir þú í vel dreifðu eignasafni. Markmið eignadreifingarsjóða er að ná ávöxtun og dreifa áhættu með virkri stýringu á fjárfestingum í íslenskum og erlendum fjármálagerningum.
Seðlabanki Íslands
4. sept. 2024
Hagstjórn á verðbólgutímum
Verðbólgan hjaðnar hægar en vonir stóðu til og þrátt fyrir hátt vaxtastig er markmið Seðlabankans um 2,5% verðbólgu ekki í sjónmáli. Hvers vegna gengur ekki betur að ná tökum á verðbólgunni og hvað er til ráða?
Ungt fólk
29. ágúst 2024
Fyrstu kaup og viðbótarlífeyrissparnaður
Viðbótarlífeyrissparnaður er frábær leið til að safna fyrir sinni fyrstu íbúð. Hægt er að nýta hann skattfrjálst til útborgunar við kaup á fyrstu íbúð eða til að greiða niður húsnæðislán í allt að 10 ár.
13. ágúst 2024
„Hafa bankarnir í alvöru leyfi til að gera þetta?“
Hvað eru áreiðanleikakannanir í raun og veru? Hvers vegna eru bankar að spyrja allra þessara spurninga og hvað er gert við svörin? Og þarf ég virkilega að svara þessu?
Maður með síma úti í náttúrunni
17. júlí 2024
Ellí svarar yfir 1.000 spurningum á dag – hér eru þær algengustu
Í vetur tókum við í notkun nýtt spjallmenni á netspjallinu á landsbankinn.is. Reynslan hefur verið góð og í meirihluta tilfella leysir Ellí úr erindum viðskiptavina. Hjá henni fá viðskiptavinir skjót svör á öllum tímum dags og um helgar og hún eykur þannig aðgengi að bankaþjónustu. En hverjar eru algengustu spurningarnar og svörin við þeim?
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur