Ávöxtun eignaflokka getur sveiflast eins og sést á myndinni hér að neðan. Vel dreift eignasafn lágmarkar sveiflur en að sama skapi skiptir miklu máli á hvaða eignamarkaði áhersla er lögð við stýringu hverju sinni. Sjóðstjórar vakta markaði og færa sig á milli eignaflokka eftir því hvernig þeir meta markaðsaðstæður hverju sinni.
Margt getur haft áhrif á markaði
Það er alls ekki svo að allir sem vilja fjárfesta hafi tíma til að fylgjast með mörkuðum frá degi til dags. Flest erum við í vinnu við eitthvað annað og að mörgu er að hyggja. Hvaða áhrif hafa breytingar á hagvexti á eignamarkaði? Hvaða áhrif hafa hækkanir eða lækkanir á stýrivöxtum? Hvernig er rétt að bregðast við breyttum verðbólguvæntingum? Hvernig má vænta að gengisþróun krónunnar verði næstu mánuði eða misseri og hvaða áhrif gæti styrking eða veiking haft á eignamarkaði? Er skynsamlegra að kaupa verðtryggð skuldabréf eða óverðtryggð? Ætti líftími skuldabréfa að vera langur eða stuttur? Er tilefni til að auka vægi erlendra eigna í safninu? Þessum spurningum og fleirum til hafa sjóðstjórar atvinnu af að reyna að svara og leggja þannig mat á líklega þróun eignamarkaða.
Á þessum grundvelli ákvarða sjóðstjórar eignasamsamsetningu sjóðanna. Sjóðstjórar hafa góð tengsl við markaðsaðila, njóta að öðru jöfnu bestu viðskiptakjara fyrir sína sjóði og geta, í krafti stærðar sjóðanna, sett saman vel dreift eignasafn sem má aðlaga markaðaðstæðum hverju sinni. Það er erfitt fyrir venjulegan einstakling að byggja upp slíkt eignasafn og hvað þá að fylgjast með og stýra því frá degi til dags. Því geta eignadreifingarsjóðirnir verið hentugur kostur fyrir hinn almenna sparifjáreiganda. Fjárfesting í sjóði veitir þér á einfaldan hátt aðgang að hlutdeild í vel dreifðu eignasafni.
Ávöxtun nokkurra mismunandi eignaflokka
Heimild: Innlend hlutabréf – Vísitalan OMXIPI. Erlend hlutabréf – ACWI heimsvísitala MSCI í krónum. Verðtryggð ríkisskuldabréf – Kauphallarvísitalan NOMXIREAL. Óverðtryggð ríkisskuldabréf – Kauphallarvísitalan NOMXINOM. Innlán – Landsbréfasjóðurinn Veltubréf.
Áhættan er misjöfn á milli sjóða
Eignadreifingarsjóðir hafa mismunandi fjárfestingarstefnur og þú þarft að velja þér sjóð út frá þeirri áhættu sem þú getur eða vilt taka. Helsti munurinn á áhættu felst í hversu hátt hlutfall eigna sjóðanna má vera bundið í hlutabréfum en hlutabréf sveiflast jafnan mest í verði. Áhættan eykst því eftir því sem hlutabréf eru stærri hluti af fjárfestingum sjóðanna. Allar nánari upplýsingar um sjóði Landsbréfa eru aðgengilegar á vef Landsbréfa og á vef Landsbankans og og hægt er að kaupa og selja í sjóðunum í netbankanum og Landsbanka-appinu.
Sparnaður getur stuðlað að sjálfbærni
Áhugi á sjálfbærni fer vaxandi og sífellt fleiri leiða hugann að því hvernig hægt er að tengja saman fjármál og sjálfbærni. Landsbréf reka eignadreifingarsjóð, Eignadreifing sjálfbær, sem fjárfestir eingöngu í fjármálagerningum útgefenda sem skara fram úr á sviði sjálfbærni. Aðrir fjármálagerningar eru einfaldlega ekki í fjárfestingarmengi sjóðsins. Aðrir eignadreifingarsjóðir Landsbréfa beita ekki slíkri útilokunaraðferð, þó hugmyndafræði sjálfbærni skipi einnig veigamikinn sess við stýringu þeirra sjóða. Markmiðið með auknum áherslum á sjálfbærni við fjárfestingarákvarðanir er að hvetja útgefendur verðbréfa til að gera betur í þessum málaflokki til framtíðar. Má segja að gengið sé út frá þeirri forsendu að fyrirtæki sem leggja áherslu á sjálfbærni í sínum rekstri skili betri ávöxtun að jafnaði og geri samfélagið betra, sem er ekki síður mikilvægt.
Hvernig fjárfesti ég og hversu lengi?
Ráðlagður fjárfestingartími eignadreifingarsjóða er þrjú ár eða meira. Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að gengi sjóðsins getur sveiflast og að ávöxtun í fortíð gefur ekki áreiðanlega vísbendingu um framtíðarárangur. Eignadreifingarsjóðirnir eru innleysanlegir með tveggja daga fyrirvara. Allar upplýsingar um sjóðina, gengisþróun og fjárfestingastefnu þeirra má finna á vef Landsbréfa og á vef Landsbankans. Það er einfalt bæði að kaupa og innleysa í sjóðunum bæði í netbankanum eða í síma-appi Landsbankans.
Þú getur skráð þig í mánaðarlega áskrift í sjóðum og þá greiðir þú ekkert gjald við kaup í sjóðnum og færð afslátt af afgreiðslugjaldinu. Lágmarksfjárhæðin í áskrift er 5.000 kr.
Það er einfalt að fjárfesta í sjóðum Landsbréfa og nokkrar leiðir í boði.
- Netbanki einstaklinga og netbanki fyrirtækja. Undir valmöguleikanum „Verðbréf“ er flipinn „Sjóðir“. Þar er listi yfir þá sjóði sem hægt er að fjárfesta í.
- Landsbanka-appið í símanum. Undir valmöguleikanum „Verðbréf“ er merkt við „+“ til að kaupa og merkt við viðeigandi eign í eignasafni þínu ef þú vilt selja.
- Sími 410-4040. Ráðgjafar aðstoða þig við fjárfestingu í sjóðum símleiðis. Hjá þeim færðu einnig frekari upplýsingar um sjóðina. Þá er hægt að senda tölvupóst á verðbréfa- og lífeyrisráðgjöf Landsbankans á netfangið vl@landsbankinn.is
- Útibú. Verðbréfatenglar útibúa Landsbankans um allt land aðstoða þig með ánægju við að fjárfesta í sjóðum.
Greinin var fyrst birt 15. september 2021 og uppfærð 27. september 2024.