Ellí svarar yfir 1.000 spurningum á dag – hér eru þær algengustu
Segjum bara alveg eins og er – fæst okkar hafa sérstaklega góða reynslu af spjallmennum. En tækninni fleygir fram og Ellí, spjallmenni Landsbankans, vex og dafnar með degi hverjum. Þegar við skoðum algengustu spurningarnar sem Ellí fær er samt ljóst að hún glímir við ákveðna fordóma. Fyrsta spurningin sem hún fær er nefnilega í flestum tilvikum einhver útgáfa af „Get ég fengið að tala við manneskju af holdi og blóði“. En Ellí kemur þeim sem gefa henni séns í miklum meirihluta tilfella skemmtilega á óvart og leysir sjálf úr 57% erinda sem viðskiptavinir bera undir hana. Ekki bara það, hún fær þumalinn upp í 86% tilvika!
Við sem vinnum með Ellí notum hana líka til að sjá hvernig við getum bætt þjónustu bankans almennt. Okkur lék forvitni á að vita hvort Ellí væri t.d. að fá ólíkar spurningar á íslensku og ensku. Svo er ekki og þrjár algengustu spurningarnar eru keimlíkar á báðum tungumálum, þó ekki alveg í sömu röð (ef frá er talin allra algengasta spurningin á ensku sem er „Talar þú ensku?“ sem Ellí er einmitt að læra þessa dagana).
Algengustu spurningarnar snúast um þrennt:
- Greiðslukort
- Vandamál við innskráningu í netbanka/app
- Rafræn skilríki
Hvernig sæki ég um kort, endurnýja og loka?
Svörum auðveldustu spurningunni fyrst! Þú þarft ekkert að hafa áhyggjur af að endurnýja kort hjá Landsbankanum, hvort sem um debet- eða kreditkort er að ræða. Gamla kortið endist út mánuðinn sem er skráður á framhlið þess og nýtt kort er sjálfkrafa sent til þín í pósti.
Það er einfalt að sækja um greiðslukort í Landsbankaappinu. Til að fá debetkort þarftu að eiga veltureikning hjá okkur. Það er farið yfir þetta í umsóknarferlinu í appinu og við leiðum þig áfram skref fyrir skref (engar áhyggjur, þetta eru ekki mörg skref!). Það sama á við um kreditkort – umsóknarferlið í appinu er þægilegt og fljótlegt. Ef þú vilt ekki nota appið er bara að hringja í okkur á opnunartíma Þjónustuversins.
Við bættum nýlega við þjónustuþætti í appinu sem gerir þér kleift að loka (og opna aftur) fyrir mismunandi virkni korta. Bæði er þetta hugsað sem neyðarlokun fyrir viðskiptavini sem lenda í einhverjum hremmingum með kortin sín, en líka sem forvirkt öryggistæki. Til að breyta þessum stillingum velur þú „Kort“ og síðan punktana þrjá undir myndinni af kortinu í appinu. Síðan ferðu í „Öryggi og vöktun“.
Eitt samt – ef þú velur neyðarlokun geturðu ekki opnað kortið eða aðgang að appinu og netbankanum aftur í sjálfsafgreiðslu. Þá þarftu að hringja í Þjónustuverið og tala við okkur beint.
Hvernig skrái ég mig inn í netbankann og appið?
Það er hægt að fara nokkrar mismunandi leiðir til að skrá sig inn í netbankann og appið. Nýlegar reglur um sterka auðkenningu hafa gert það að verkum að ekki er lengur hægt að skrá sig inn með notandanafni og lykilorði, eða nota SMS til auðkenningar. Í dag er hægt að skrá sig inn í netbankann með rafrænum skilríkjum eða Auðkennisappinu. Í appinu er að auki hægt að nota lífkenni, þ.e. fingrafar eða andlitsgreiningu.
Hvernig fæ ég rafræn skilríki? Og hvar?
Það er enginn lágmarksaldur á rafræn skilríki. Börn geta fengið rafræn skilríki uppsett á símana sína með samþykki foreldra eða forsjáraðila. Rafræn skilríki virka bara með íslenskum símanúmerum og krefjast símasambands. Til þess að virkja rafræn skilríki þarf að heimsækja útibú Landsbankans, eða aðra afgreiðslustöð, og sýna gild skilríki.
Rafræn skilríki er hægt að nota bæði til innskráningar og til rafrænnar undirritunar.
Ég get ekki notað rafræn skilríki – hvað á ég að gera?
Auðkennisappið tengist ekki símanúmeri heldur byggir á netsambandi. Það hentar því mjög vel þeim sem búa erlendis, eru ekki með íslenskt símanúmer eða eru af einhverjum ástæðum ekki alltaf með símasamband. Ef þú ert 18 ára eða eldri, átt gilt íslenskt vegabréf og síma með NFC-stuðningi geturðu virkjað Auðkennisappið í sjálfsafgreiðslu hvar sem er í heiminum. Auðkennisappið er hægt að nota til innskráningar og í langflestum tilvikum líka til rafrænnar undirritunar.
Á vef Auðkennis eru góðar leiðbeiningar og ráð um hvað skal gera ef rafræn skilríki og Auðkennisappið eru með vesen.
Dreymir vélmenni um viðurkenningu?
Nú erum við búin að fara í gegnum algengustu spurningarnar sem Ellí fær, en hún er líka með svör við ýmsu öðru sem varðar þjónustu bankans. Við fylgjumst vel með öllum samskiptum Ellíjar og bætum við upplýsingum og svörum meira og minna jafnóðum. Þjónustan batnar því með hverjum degi. Prófaðu endilega – Ellí lifir til að spjalla!
Agnes er þýðandi og prófarkarlesari Landsbankans og er í hópnum sem vinnur að þróun og viðhaldi spjallmennisins.