Líf­eyr­is­greiðsl­ur TR á manna­máli

Sjálfsagt höfum við mjög ólíkar hugmyndir um hvernig við viljum eyða efri árunum. Öll eigum við samt sameiginlegt að þurfa að huga vel og tímanlega að því hvernig við fjármögnum þessi ár.
Hjón úti í náttúru
18. júní 2024

Það getur virst flókið að setja sig inn í reglur um skatta og skerðingar, lífeyri og tekjuáætlanir, en það getur svo sannarlega margborgað sig. En hvar á að byrja að lesa sér til? Einmitt hér!

Hvaða áhrif hafa vaxt­atekjur á greiðsl­ur frá TR?

Frítekjumark vegna annarra tekna, eins og greiðslur frá lífeyrissjóðum eða fjármagnstekna, er 300.000 kr. á ári eða 25.000 kr. á mánuði. En 45% tekna umfram frítekjumörk dragast frá greiðslum ellilífeyris og 11,9% frá greiðslum heimilisuppbótar.

Tökum dæmi til einföldunar. Landsbankinn býður í dag upp á 8,75% mánaðarlega vexti á óbundnum reikningi. Þú þyrftir því að eiga 3.293.084 kr. á reikningi til að safna fjármagnstekjum upp á 300.000 kr. á ári. Ef upphæðin er hærri fara fjármagnstekjurnar umfram frítekjumark TR og hafa þá áhrif til skerðingar. Athugaðu að í þessu dæmi er ekki reiknað með mánaðarlegum lífeyrisgreiðslum sem hafa einnig áhrif til skerðingar.

Gott er þó að hafa í huga að þar sem TR skerðir ekki um krónu á móti krónu eru ellilífeyrisgreiðslur stofnunarinnar ekki skertar vegna allra vaxta eða ávöxtunar heldur einungis að hluta. Þetta er því miður algengur misskilningur sem kominn er tími til að leiðrétta.

Sjá nánar reiknivél TR

Hvaða áhrif hafa atvinnutekjur?

Skerðing vegna atvinnutekna virkar á sama hátt og með aðrar tekjur, þ.e. 45% tekna umfram frítekjumörk dragast frá greiðslum ellilífeyris og 11,9% frá greiðslum heimilisuppbótar.

Það er mjög mikilvægt að gleyma ekki að skila inn tekjuáætlun til TR til að tryggja að greiðslur séu réttar. Með nákvæmri tekjuáætlun drögum við úr líkunum á að lenda í leiðréttingu eftir á. Tekjuáætlun er skilað inn í gegnum mínar síður TR.

Frekari leiðbeiningar og tekjuáætlun.

Nokkr­ar stað­reynd­ir um skatta og skerð­ing­ar Tryggingastofnunar

  • Skerðingar ellilífeyris TR og fjármagnstekjuskattur taka mið af tekjum, ekki eignum.
  • Úttekt á viðbótarlífeyrissparnaði og ávöxtun hans hefur engin áhrif á ellilífeyrisgreiðslur TR í dag.
  • Allar greiðslur úr skyldulífeyrissparnaði hafa áhrif til skerðingar, hvort sem um er að ræða samtryggingu eða séreign.
  • Ellilífeyrir TR skerðist ekki um krónu á móti krónu og greiðslur frá lífeyrissjóðum skerðast ekki vegna annarra tekna. Króna-á-móti-krónu skerðing var afnumin 1. Janúar 2017.
  • Þar sem greiðslur frá TR eru tekjutengdar er mjög mikilvægt að skila inn tekjuáætlun árlega til að tryggja réttar greiðslur.
  • Frítekjumark atvinnutekna er 2.400.000 kr. á ári eða 200.000 kr. á mánuði.
  • Aðrar tekjur, s.s. frá lífeyrissjóðum eða fjármagnstekjur, mega vera samanlagt 300.000 kr. á einstakling og 600.000 kr. á hjón eða samskattaða.
Hjón

Að flýta eða seinka töku líf­eyr­is hjá TR

Sækja þarf sérstaklega um töku lífeyris hjá TR og gefur stofnunin sér allt að 5 vikna frest frá móttöku umsóknar og þar til greiðslur fara að berast. Undirritaðri umsókn þarf að fylgja tekjuáætlun og staðfesting á að sótt hafi verið um greiðslur úr lífeyrissjóði.

Nú er hægt að sækja um lífeyri frá TR frá 65 ára aldri. Ef við sækjum um svo snemma tökum við á okkur varanlega skerðingu, en það er einnig hægt að fresta töku til 80 ára aldurs með varanlegri aukningu réttinda. Á síðu TR er reiknivél sem gerir okkur kleift að sjá muninn.

Í mörgum tilvikum getur borgað sig að geyma að sækja um lífeyri hjá TR þar til farið er af vinnumarkaði. Þetta er vegna þess að greiðslur TR eru tekjutengdar og skerðast nema launatekjurnar séu undir frítekjumarkinu, 2.400.000 á ári eða 200.000 á mánuði.

Viltu dilla tásunum á Tene?

Við flutning frá Íslandi skiptir máli hvort flutt er til lands innan EES eða ekki og hvort það sé til staðar samningur á sviði almannatrygginga á milli Íslands og viðkomandi lands. Lífeyrisþegi sem flytur til annars lands innan EES heldur áfram lífeyrisgreiðslum sínum frá TR en greiðslur vegna félagslegrar aðstoðar, eins og heimilisuppbætur, falla niður við flutning. Ef lífeyrisþeginn flytur til lands sem er utan EES falla allar greiðslur niður ef enginn samningur er til staðar á sviði almannatrygginga við viðkomandi land.

Tilkynna þarf flutning til Þjóðskrár Íslands og láta TR vita af breyttu heimilisfangi. Greiðslur geta fallið tímabundið niður ef TR fær ekki upplýsingar um nýtt lögheimili erlendis.

Lífeyrisþegar búsettir erlendis þurfa einnig á hverju ári að skila inn lífsvottorði og skattframtali frá búsetulandi. Ef viðkomandi á maka þarf skattframtal maka að fylgja með.

Greiðslur inn á erlenda reikninga

TR sér um að millifæra greiðslur til viðskiptavina sem búa erlendis. Millifærslur inn á erlenda reikninga fara í gegnum viðskiptabanka til erlendra banka fyrsta virka dag hvers mánaðar. Millifærslur á erlenda bankareikninga geta tekið 3 til 4 virka daga að berast á reikning viðtakanda. Gjald er tekið skv. gjaldskrá viðskiptabanka vegna hverrar erlendrar greiðslu og það ert þú sem viðtakandi sem greiðir.

Jóhanna og Gústav starfa í Verðbréfa- og lífeyrisþjónustu Landsbankans.

Þú gætir einnig haft áhuga á
Hjón úti í náttúru
12. mars 2024
Það gæti borgað sig að spara í sjóðum ef þú færð greiðslur frá TR
Þau sem fá greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins hafa mörg hver rekið sig á að fjármagnstekjur umfram ákveðna fjárhæð geta skert greiðslurnar. Það er eðlilegt að spyrja sig hvaða leiðir séu bestar fyrir sparnaðinn, sérstaklega eftir að vextir tóku að hækka, og hvernig best er að haga sparnaði með tilliti til fjármagnstekna.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur