Það gæti borgað sig að spara í sjóðum ef þú færð greiðslur frá TR
Fjármagnstekjur eru til dæmis vaxtatekjur, arður, söluhagnaður og leigutekjur. Það er mismunandi á milli sparnaðarforma hvenær fjármagnstekjur eru greiddar út og það er vissulega hægt að ná fram ákveðnu hagræði, þ.e.a.s. koma í veg fyrir að skattgreiðslur eða skerðingar verði hærri en þær þurfa eða eiga að vera. Fyrir fólk sem er að fara á eftirlaun og fær greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins (TR) getur þetta skipt verulegu máli þar sem TR horfir til hverjar tekjurnar eru innan hvers almanaksárs. Skoðum málið!
Hvenær eru fjármagnstekjur greiddar út?
- Innlánsreikningar
Þegar sparnaður er geymdur á sparireikningi safnar innistæðan vöxtum og/eða verðbótum sem eru yfirleitt greiddir út mánaðarlega eða árlega eftir tegund reikningsins. Vextir og verðbætur á innlánsreikningum flokkast sem fjármagnstekjur. - Skuldabréf
Það er fyrirfram ákveðið við útgáfu skuldabréfa hvernig afborgunum eða greiðslum á vöxtum og verðbótum er háttað, en sem dæmi þá fara vaxtagreiðslur oft fram einu sinni á ári. Hagnaður við sölu á skuldabréfum flokkast einnig sem fjármagnstekjur. - Hlutabréf
Þegar við eigum viðskipti með hlutabréf, þá má draga tap af sölu hlutabréfa frá hagnaði af sölu annarra hlutabréfa ef það er gert innan sama árs. Aftur á móti er óheimilt að draga tap af hlutabréfum vegna gjaldþrots frá söluhagnaði af öðrum hlutabréfum. Arðgreiðslur eru greiddar út samkvæmt ákvörðun félaga, yfirleitt á aðalfundi. Hagnaður af sölu hlutabréfa og greiddur arður teljast sem fjármagnstekjur, en viðskipti eru gerð upp árlega á skattframtali. - Sjóðir
Fjármagnstekjur sem myndast inn í sjóðunum s.s. vaxtatekjur, arðgreiðslur einstakra bréfa, hagnaður hlutabréfa og skuldabréfa ávaxtast áfram inn í sjóðnum. Þegar þú ávaxtar sparifé í sjóðum, þá myndast ekki fjármagnstekjur fyrr en þú selur úr sjóðnum, ef hagnaður er við sölu, og þá í hlutfalli við það sem þú ert að selja en ekki af heildareign.
Hvað er þá best að gera?
Einstaklingar sem geta sætt skerðingu greiðslna eða styrkja vegna fjármagnstekna geta nýtt sér sjóðafyrirkomulagið til þess að hafa betri stjórn á því hvenær fjármagnstekjur falla til og hvenær til mögulegrar skerðingar kemur. Sem dæmi getum við kosið að fjárfesta í blönduðum sjóði, þar sem við ráðum hvenær við tökum út eignina og þar með fjármagnstekjur, í stað þess að eiga viðskipti með stök hlutabréf og skuldabréf sem greiða í flestum tilfellum vexti árlega. Við getum líka valið að fjárfesta í lausafjársjóði í stað þess að geyma peninga á hefðbundnum sparnaðarreikningi sem greiðir vexti mánaðarlega eða árlega. Sjóðafyrirkomulagið getur því hentað einstaklingum sem sjá fram á að sækja um greiðslur frá TR.
Nokkur atriði að lokum sem mikilvægt er að huga að í tíma
Þegar styttist í töku ellilífeyris frá TR getur verið gott fyrir þau sem eiga þegar í sjóðum og eiga uppsafnaðan hagnað að innleysa hagnaðinn og endurfjárfesta aftur í sjóðnum almanaksári áður en ellilífeyristaka hefst. Á þann hátt getum við gert upp fjármagnstekjurnar áður en þær reiknast til skerðingar á greiðslum frá TR.
Allar aðrar tekjur en atvinnutekjur, þar á meðal tekjur frá lífeyrissjóðum og fjármagnstekjur, mega vera samanlagt 300.000 kr. á ári án þess að hafa áhrif á greiðslur frá TR. Gott er að hafa í huga að skerðingin er ekki króna á móti krónu en þú getur lesið þér nánar til um skerðingar á vefsíðu Tryggingastofnunar.
Við mælum líka með því að panta tíma í sparnaðarráðgjöf hjá Verðbréfa- og lífeyrisþjónustu Landsbankans. Við hjálpum þér gjarnan að finna hagkvæmustu leiðina.