Hvað kostar að taka skammtímalán og dreifa greiðslunum?
Þegar þú notar yfirdráttinn þinn, tekur Aukalán, biður um greiðsludreifingu á kreditkortinu þínu eða notar app eða aðra þjónustu til að dreifa greiðslunum á nokkra mánuði ertu að taka skammtímalán. Það er hvergi hægt að finna samanburð á öllum skammtímalánum sem eru í boði á einum og sama staðnum, þó ýmsir bjóði upp á takmarkaðan samanburð.
Það er samt frekar einfalt að bera kjörin saman. Til þess þarf bara að skoða það sem kallað er ÁHK en allir lánveitendur þurfa að gefa upp ÁHK við lánveitinguna – það er lögbundin skylda þeirra.
ÁHK er í alvöru mjög einfalt fyrirbæri
ÁHK er skammstöfun á „árleg hlutfallstala kostnaðar“. ÁHK er prósentutala sem mælir allan kostnað við lántökuna, það er að segja vexti, lántökugjald, seðilgjald og allan annan kostnað. Þetta er gert á ársgrundvelli. Ef ÁHK er 20%, þá ertu að borga jafngildi 20% í ársvexti.
ÁHK er í raun verðmiðinn á láni og segir til um hversu dýrt er að taka það. Eftir því sem ÁHK er hærra, því óhagstæðara er lánið!
Við tókum saman upplýsingar um ÁHK á nokkrum skammtímalánum sem eru í boði og miðast kjörin við stöðuna 20. nóvember 2024. Í sumum tilvikum fara lánakjör eftir lánshæfismati sem viðkomandi lánveitandi byggir á ýmsum gögnum og kjörin geta verið misjöfn á milli einstaklinga. Því höfum við þau ekki með í þessum samanburði.
Algeng skammtímalán og samanburður á ÁHK
Tegund láns |
Upphæð |
Lánstími |
Vextir |
Lántöku- kostnaður |
Greiðslu-/ afborgunargjald |
Afborgun/ fyrsta greiðsla |
ÁHK |
|
---|---|---|---|---|---|---|---|---|
Lánveitandi A | Lán | 200.000 kr. | 12 mán. | 17,00% | 11.960 kr. | 896 kr. | 20.224 kr. | 41,5% |
Lánveitandi B | Greiðsludreifing v. vörukaupa | 200.000 kr. | 12 mán. | 18,65% | 7.900 kr. | 898 kr. | 20.150 kr. | 40,3% |
Lánveitandi C | Lán í appi | 400.000 kr. | 12 mán. | 17,00% | 15.920 kr. | 398 kr. | 39.009 kr. | 32,6% |
Lánveitandi D | Yfirdráttur* | 500.000 kr. | 12 mán. | 16,75% | 790 kr. | 0 kr. | 6.979 kr. | 18,3% |
Lánveitandi E | Yfirdráttur* | 1.000.000 kr. | 12 mán. | 16,25% | 790 kr. | 0 kr. | 13.542 kr. | 17,6% |
Lánveitandi F | Lán í appi | 500.000 kr. | 12 mán. | 16,60% | 8.500 kr. | 140 kr. | 45.648 kr. | 22,5% |
Lánveitandi G | Greiðsludreifing kredikorts | 500.000 kr. | 12 mán. | 16,70% | - kr. | 250 kr. | 44.700 kr. | 19,4% |
*Yfirdráttur hefur ekki skilgreint endurgreiðsluflæði af höfuðstól eins og á lánum. ÁHK í ofangreindri töflu miðast við fullnýttan yfirdrátt í 30 daga.
Yfirdrátturinn ekki endilega verstur
Eins og sést í töflunni að ofan er mjög dýrt að taka skammtímalán, en það er samt mjög misjafnlega dýrt eftir lánveitendum og tegundum lána.
Eitt af því sem samanburðurinn leiðir í ljós er að yfirdráttarlán eru ekki endilega óhagstæðustu skammtímalánin. Kosturinn við yfirdráttarlán er að þau eru sveigjanlegri og án annars kostnaðar en vaxta. Hjá Landsbankanum kostar 790 kr. að breyta yfirdráttarheimild og telst það til kostnaðar við lántökuna og reiknast inn í ÁHK.
Svona virkar yfirdráttur: Gefum okkur að þú eigir 20.000 kr. á reikningnum þínum og ert með 100.000 kr. í yfirdráttarheimild. Ef þú kaupir þér úlpu og borgar fyrir hana 50.000 kr. þá nýtir þú 30.000 kr. af yfirdrættinum og borgar bara vexti af þeirri fjárhæð en ekki af allri heimildinni, sem er áfram 100.000 kr. Peningur sem staldrar stutt við á reikningum, t.d. þegar þú færð útborgað, fer líka til að lækka yfirdráttinn tímabundið og þar með lækkar vaxtakostnaður yfirdráttarlánsins.
Það er misjafnt hversu vel fólki gengur að greiða yfirdráttinn niður. Ef fólk greiðir ekki reglulega inn á yfirdráttinn getur verið betra að taka annars konar lán – t.d. Aukalán – með reglulegum gjalddögum.
Er skynsamlegt að taka skammtímalán?
Í fjármálum er vont að hugsa bara „þetta reddast“ og taka skyndiákvarðanir. Við ættum ekki að taka skammtímalán nema við þurfum raunverulega á láninu að halda. Það er eitt að taka skammtímalán til að takast á við óvænt útgjöld, s.s. þegar bíllinn bilar eða endurnýja þarf þvottavélina, annað að taka lán fyrir dýrri úlpu eða annarri neysluvöru. Vextir á skammtímalánum eru háir og það margborgar sig að spara fyrir því sem þú vilt kaupa. Áður en þú tekur skammtímalán fyrir einhverju sem þú þarft ekki nauðsynlega á að halda, er gott að reikna út hvað þú þarft að vinna í marga klukkutíma til að borga kostnaðinn af lántökunni og bera þann kostnað saman við tímann sem þú þarft að bíða með kaupin ef þú sparar fyrir þeim í staðinn. Mega kaupin kannski bíða aðeins, ef þú skoðar hversu miklu meira þú þarft á endanum að borga ef þú tekur skammtímalán?
Getur borgað sig að sameina lánin
Ef lánveitandinn innheimtir lántökugjöld, seðilgjöld eða greiðslugjöld getur verið mjög óhagstætt að vera með mörg skammtímalán. Þá þarftu að borga þessi gjöld fyrir hverja og eina lántöku. Það getur verið hagstæðara að taka eitt lán fyrir öllum útgjöldunum og borga þessi gjöld bara fyrir eitt lán.
Ef þú ert með fleiri óhagstæð skammtímalán getur borgað sig að sameina þau öll í eitt hagstæðara lán og reyna síðan eftir mætti að borga það niður. Það getur verið gott að setja sér markmið um að greiða alltaf tiltekna fjárhæð aukalega inn á lánið eða lækka yfirdráttinn.
Við tökum vel á móti þér
Það getur verið gott að heyra í ráðgjafa hjá bankanum og athuga hvort þú getir fengið hagstæðari kjör. Þú getur pantað tíma í ráðgjöf hér á vefnum. Við hjálpum þér gjarnan við að finna leið sem hentar þér í fjármálunum.
Þessi grein birtist fyrst í nóvember 2023 en hefur síðan verið uppfærð. Hún byggir að hluta á eldri fræðslugrein sem birtist fyrst á Umræðunni í september 2018.