Fyrstu kaupa úrræðið gerir okkur kleift að nota viðbótarlífeyrissparnaðinn til að greiða fyrir fyrsta húsnæðið sem við kaupum okkur, bæði með útborgun og svo inn á húsnæðislán. Það gilda samt ýmsar takmarkanir og einnig er hægt að nýta úrræðið á mismunandi hátt. Í stuttu máli gildir að:
- Úrræðið gildir í 10 ár í heildina.
- Hámarksheimild á hvern einstakling er 500.000 kr. á ári, eða 5.000.000 kr. í heild.
- Nýta má allt að 4% eigið framlag og 2% mótframlag, en ekki uppsafnaða ávöxtun.
- Þú þarft að eiga a.m.k. 30% hlut í húsnæðinu.
- Þú þarft að sækja um nýtinguna innan 12 mánaða frá undirritun kaupsamnings.
- Þau sem ekki hafa átt íbúðarhúsnæði sl. 5 ár geta talist fyrstu kaupendur að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.
- Ef þú skiptir um húsnæði á tímabilinu þarf að passa að uppfæra umsóknina hjá skattinum.
Hvernig veit ég hvað má nota mikið?
Fyrst þarf að hafa í huga að það má ekki nýta uppsafnaða ávöxtun, einungis eigið framlag að hámarki 4% og 2% mótframlag frá vinnuveitanda.
Við mælum með því að byrja á að skoða yfirlit yfir það tímabil sem þú ætlar að sækja um að nota. Það geturðu gert í netbankanum eða appinu okkar undir „Lífeyrir“ og „Færslur“ með því að slá inn það tímabil sem þú vilt skoða. Best er að skoða hvert ár fyrir sig til að athuga hvort þú sért yfir eða undir árshámarkinu, sem er 500.000 kr. Athugaðu að þú þarft að skoða launatímabil en ekki á hvaða tíma greiðslur bárust í sjóðinn.
Þetta hjálpar þér líka við að velja hvaða tímabil þú vilt sækja um að nota – mundu að það má bara nota úrræðið í samfellt 10 ár. Ef þú varst t.d. í hlutastarfi með skóla eða með mun lægri laun fyrir 6 árum en þú ert með í dag gæti borgað sig að sleppa því að nýta þau tímabil og greiða í staðinn lengur inn á lánið í framtíðinni.
Skoðum dæmi og segjum að þú hafir borgað í viðbótarlífeyrissparnað í 6 ár. Hér fyrir neðan er búið að taka saman hversu mikið hefur verið greitt í viðbótarlífeyrissparnað hvert ár.
Fjárhæðir í kr.
Greitt í sjóð | Mátt nota | Heimild RSK | Ónýtt heimild | |
---|---|---|---|---|
2018 | 150.314 | 150.314 | 500.000 | 349.686 |
2019 | 211.304 | 211.304 | 500.000 | 288.696 |
2020 | 348.215 | 348.215 | 500.000 | 151.785 |
2021 | 356.998 | 356.998 | 500.000 | 143.002 |
2022 | 399.124 | 399.124 | 500.000 | 100.876 |
2023 | 594.245 | 500.000 | 500.000 | - |
2024 | 652.486 | 500.000 | 500.000 | - |
2025 | 671.246 | 500.000 | 500.000 | - |
2026 | 712.004 | 500.000 | 500.000 | - |
2027 | 735.124 | 500.000 | 500.000 | - |
4.831.060 | 3.965.955 | 5.000.000 | 1.034.045 |
Í þessu dæmi er gert ráð fyrir að þú sért að sækja um að fá greitt út fyrir árin 2018-2023 og nýtir svo framtíðargreiðslur inn á lán á árunum 2024-2027, samtals 10 ár.
Fyrstu 5 árin er greiðslan í viðbótarlífeyrissparnað það lág að þú átt talsvert ónýtt af ársheimildinni sem verja má til íbúðarkaupa – sjá síðasta dálkinn. Árið 2023 fer upphæðin sem þú greiddir í viðbótarlífeyrissparnað yfir hámarkið. Til að nýta úrræðið betur í heild væri því í þessu tilfelli sniðugt að nota t.d. ekki árin 2018-2020 en greiða í staðinn lengur inn á lánið.
Umsókn hjá RSK
Fyrstu kaupa úrræðið skiptist í tvennt. Annars vegar er hægt að sækja um útgreiðslu vegna útborgunar fyrir fyrstu eign og hins vegar er hægt að sækja um að greiða inn á höfuðstól láns. Þú getur gengið frá báðum umsóknum á sama tíma, ef öll gögn eru fyrir hendi.
Gögnin sem þú þarf að hafa tiltæk við útfyllingu umsóknar eru:
- Þinglýstur kaupsamningur
- Afrit af íbúðaláninu þínu
Sótt er um fyrstu kaupa úrræðið í gegnum þjónustuvef RSK. Passaðu þig á því að ekki er hægt að sækja um úrræðið fyrr en kaupsamningur liggur fyrir. Við mælum því alltaf með því að reikna ekki með upphæðinni fyrr en við afsalsgreiðslu, sem er að jafnaði tveimur mánuðum eftir afhendingu. Það er gott að láta fasteignasala vita strax þegar þú gerir tilboð.
Afgreiðsla umsókna og útgreiðsla
Við sækjum stöðuna á umsóknum hjá RSK á hverjum degi. Þegar RSK hefur skilað samþykktri umsókn til okkar er ekki langur biðtími eftir útgreiðslu því við greiðum út annan hvern dag. Þú færð greitt út á reikninginn sem þú velur í umsóknarferlinu hjá RSK.
Svo mörg voru þau orð! Við vonum að þetta hjálpi og óskum þér alls hins besta við fyrstu kaupin – þetta er bæði spennandi og stressandi tími. Við erum alltaf til staðar ef þig vantar aðstoð og þér er velkomið að bóka símtal við okkur í Verðbréfa- og lífeyrisþjónustu. Gangi þér vel!