Þú hefur ekki enn uppfært áreiðanleikakönnun. Samkvæmt lögum þurfa allir viðskiptavinir að veita okkur upplýsingarnar sem beðið er um í áreiðanleikakönnuninni með reglulegum hætti. Ef þú svarar ekki þurfum við því miður að loka fyrir aðgang að reikningunum þínum á næstu vikum.
Svona hefst póstur frá okkur hér í Landsbankanum. Við eyddum talsverðu púðri í að reyna að orða þetta á sem kurteisastan og mjúklegastan hátt, en staðreyndin er að okkur er uppálagt sem lokaúrræði að neita viðskiptavinum sem ekki svara eða uppfæra áreiðanleikakönnun um þjónustu. Það er erfitt að segja það öðruvísi en beint. Við skiljum samt vel að þetta virki stuðandi og jafnvel eins og hótun. Við viljum einfalda lífið fyrir viðskiptavini og deila aðgengilegum upplýsingum. Okkur er því ljúft og skylt að gera betur!
„Áreiðanleikakönnun“ er því miður frekar ógagnsætt orð. Á ensku er þetta ferli kallað „due diligence“ og „know your customer“. Tilgangurinn með spurningunum sem mynda áreiðanleikakönnun er að athuga hvort viðskiptavinur, hvort sem um einstakling eða fyrirtæki er að ræða, sé mögulega í áhættuhópi eða sé að stofna til viðskipta við bankann í vafasömum tilgangi. Eins viljum við kanna uppruna peninganna sem á að nota í viðskiptum við okkur til að tryggja að ekki sé um illa fengið fé að ræða. Þó það sé vissulega verið að kanna áreiðanleika viðskiptavina mætti kannski að ósekju endurnefna þetta „upplýsingaöflun“, „öryggiskönnun“ eða „gerðu-heimavinnuna-þína-um-kúnnann-könnun“.
Landsbankanum og öðrum bönkum ber lagaleg skylda til að hafa þessar upplýsingar á takteinum. Við hvorki viljum né megum stofna til viðskipta við einstaklinga sem eru líklegir til að ætla að nota bankann í glæpsamlegum tilgangi. Eftirlitsaðilar, bæði fjármálaeftirlit og skattyfirvöld, fylgjast vel og reglubundið með því að við hlítum reglum um varnir gegn peningaþvætti. Og er það vel!
Allir nýir viðskiptavinir þurfa að svara eftirfarandi spurningum. Þær eru 7 talsins, en svo geta spurningar bæst við ef þú ert með tvöfalt ríkisfang, tengsl við Bandaríkin eða við höfum upplýsingar um að þú tengist háttsettum aðilum í stjórnmálum. Af hverju? Það er spurt um tvöfalt ríkisfang og tengsl við Bandaríkin í skattalegum tilgangi, að kröfu skattyfirvalda. Spurningin um tengsl við háttsetta aðila í stjórnmálum, hjá dómstólum eða alþjóðasamtökum, miðar að því að ákvarða hvort þú sért mögulega í viðkvæmri stöðu hvað varðar mútur eða spillingu.
Í hnotskurn:
- Tilgangur upplýsingaöflunar um viðskiptavini er að sporna gegn glæpum.
- Áreiðanleikakönnun er spurningalisti sem þarf að svara við upphaf viðskipta og svo uppfæra reglulega.
- Það þurfa allir að svara.
- Landsbankanum ber lagaleg skylda til spyrja og þarf að neita þeim sem ekki svara um þjónustu.
- Áreiðanleikakönnun telur bara 7 spurningar fyrir langflesta einstaklinga og það tekur bara 2 mínútur að svara.
Til að svara áreiðanleikakönnun hjá Landsbankanum ferðu í „Stillingar“ í appinu eða netbankanum. Við aðstoðum þig líka gjarnan í netspjallinu eða símleiðis í Þjónustuverinu, s. 410 4000. Svo er alltaf velkomið að koma við í útibúi – við tökum vel á móti þér!