Þessi þjónusta er þekkt undir nafninu DCC sem stendur fyrir Dynamic Currency Conversion.
Sumum korthöfum þykir þægilegt að nota DCC-þjónustuna því þar með þurfa þeir ekki reikna út hver upphæðin er í íslenskum krónum, þar sem upphæðin í íslenskum krónum blasir við á posanum. Greiðsla sem samþykkt er með þessum hætti er heldur ekki háð mögulegum sveiflum á gengi frá þeim tíma sem færslan er staðfest, t.d. þegar greitt er í posa og þangað til upplýsingar um hana berast til kortaútgefanda en þá er greiðslan endanlega samþykkt. Upphæðin helst þar með óbreytt þar sem fjárhæðinni hefur þegar verið skipt yfir í íslenskar krónur, þ.e. þegar Íslendingar eiga í hlut. Reyndar eru slíkar gengissveiflur yfirleitt litlar og hafa verður í huga að þær geta líka verið korthafa til hagsbóta, þ.e. gengið getur verið hagstæðara þegar upplýsingar um greiðsluna berast kortaútgefanda.
Í DCC-viðskiptum bætir þjónustuaðilinn yfirleitt hóflegri álagsgreiðslu ofan á kaupverðið og í sumum tilfellum bætist einnig við sérstök þóknun. Því miður hafa þó komið upp dæmi þar sem að álag og þóknanir hafa algjörlega verið úr takti við það sem eðlilegt getur talist. Því ættu korthafar hafa varann á áður en skilmálar og greiðslur eru staðfestar.
Upplýsingaskylda söluaðila
Ef söluaðilar bjóða viðskiptavinum sínum DCC-þjónustu, þá verða þeir alltaf að spyrja korthafa fyrirfram hvort þeir vilji þiggja þjónustuna og sýna þeim eftirfarandi upplýsingar:
- Upprunalega upphæð með tilheyrandi tákni gjaldmiðils t.d. €.
- Upphæð í nýrri mynt með viðkomandi tákni t.d. ISK.
- Gengið sem notað verður við umsnúninginn og frá hvaða fjármálstofnun það er fengið.
- Álag og aðrar þóknanir ef við á.
Kostir DCC
- Upphæð í eigin mynt.
- Gengi gjaldmiðla er fast og fjárhæðin endanleg.
Ókostir DCC
- Auka álag og þóknanir sem valda því að kaupin verða dýrari. Í sumum tilvikum er kostnaðurinn sem bætist við langt umfram það sem eðlilegt getur talist.
- Töluvert af upplýsingum sem þarf að yfirfara áður en greiðsla er samþykkt.
Niðurstaða
Að greiða í sínum eigin gjaldmiðli getur verið þægilegt og minnkað óvissu um endanlegt verð. Hafa þarf í huga að um er að ræða aukaþjónustu sem ber kostnað. Fara þarf varlega við að nota DCC-þjónustu og passa að boðið sé eðlilegt gengi og að kostnaður sé sanngjarn, vegna þess að erfitt og jafnvel ómögulegt er fyrir kortaútgefanda að sækja leiðréttingu til handa korthafa eftir að viðskiptin hafa verið staðfest.
Ofangreint er uppfærð útgáfa af grein sem var fyrst birt á Umræðunni í nóvember 2015. Greinin var síðast uppfærð í ágúst 2020.