Á hverju ári veitir Landsbankinn námsstyrki. Styrkirnir eru fimmtán talsins og nemur heildarupphæð þeirra 6.000.000 króna. Þeim er ætlað að auðvelda efnilegum námsmönnum lífið og renna til alls kyns námsleiða, enda er nám nánast jafn fjölbreytt og fólkið sem stundar það.
Námsstyrkirnir eru veittir úr samfélagssjóði bankans og eru veittir í fimm flokkum: til framhaldsskólanema, iðn- og verknema, háskólanema, háskólanema í framhaldsnámi og listnema.
Meðal þeirra sem fengu styrki árið 2020 eru sellóleikarinn Ragnar Jónsson, bifvélavirkinn Guðrún Svava Gomez og doktorsneminn Bríet Bjarkadóttir.
Kaupir alltaf flugsæti fyrir sellóið sitt
Ragnar Jónsson er 26 ára gamall sellóleikari sem stundar tónlistarnám í Mannheim í Þýskalandi. Hann segir styrkinn frá Landsbankanum koma að góðum notum vegna þeirra tíðu ferða sem hann og sellóið hans þurfa að fara á milli landa.
„Styrkurinn mun nýtast mér við að koma mér aftur af stað eftir allt þetta heimsfaraldurstímabil. Það hefur verið heldur lítið að gera hjá mér,“ segir hann. „Það er líka kostnaðarsamt að ferðast með selló á milli landa. Ég þarf alltaf að kaupa flugsæti fyrir sellóið líka, því hljóðfærið er það dýrt að það þarf að ferðast með það á öruggan hátt.“
Ragnar komst út til Mannheim í lok sumars 2020 eftir að hafa verið fastur á Íslandi vegna heimsfaraldursins. „Ég var bara rétt búinn að koma mér fyrir þegar seinni bylgjan skall á Þýskalandi og aftur var skellt í lás. Þetta var frekar súr vetur því ég gat eiginlega ekkert kynnst borginni þótt ég væri þar. Ég var úti fram að jólum en kom þá aftur heim. En ég er á leiðinni út aftur núna í seinni hluta mars til að fara í verkefni með Berliner Ensemble. Það er spennandi. En það er ennþá alveg óljóst hvenær skólinn minn opnar aftur almennilega. Við verðum bara að sjá aðeins hvað hún Angela Merkel segir.“ Ragnar segir jafnframt að hann hafi þurft að lengja námið vegna faraldursins. „Ég fæ til dæmis einingar fyrir að spila með hljómsveitum í skólanum en það hefur verið alveg ómögulegt.“
Ragnar hóf nám í sellóleik aðeins fimm ára gamall og hefur það átt hug hans og hjarta síðan. „Ég ætlaði reyndar alltaf að verða kontrabassaleikari og talaði stanslaust um það. Því miður var ekki til neitt nám í kontrabassaleik fyrir fimm ára gutta. Foreldrar mínir fundu því málamiðlun og úr varð að ég fór að læra á selló,“ segir hann.
Síðan þá hefur hann verið í tónlistarnámi sem hefur nú leitt hann til Mannheim í Þýskalands þar sem kennarinn hans gegnir stöðu sellóprófessors.
Úr listnámi í bifvélavirkjun
Guðrún Svava Gomez er 25 ára gömul og útskrifaðist af listnámsbraut Fjölbrautarskólans í Breiðholti árið 2015. Í framhaldi stefndi hún á nám í Listaháskólanum en tók algjöra u-beygju sumarið eftir útskrift. Nú stundar hún iðnmeistaranám í bifvélavirkjun.
„Ég byrjaði í meistaraskólanum í byrjun árs 2020 og er mjög þakklát fyrir námsstyrkinn frá Landsbankanum. Hann hefur komið sér vel og hjálpar mér að ná að ljúka náminu mínu,“ segir Guðrún. Hún stefnir á útskrift í vor.
Vegna heimsfaraldursins hefur námið að mestu farið fram á netinu. „Kennararnir halda Teams-fundi þar sem þeir útskýra verkefnin fyrir okkur og við getum spurt spurninga. Það hefur bara gengið fínt og mér gengur mjög vel. Ég stefni síðan á frekara nám eftir útskrift, mögulega eitthvað tengt stjórnun. Mig langar að öðlast dýpri innsýn í starfið.“ Guðrún vinnur jafnframt hjá Heklu sem bifvélavirki með fram námi. „Það er alveg geggjað. Ég hef rosalega gaman af starfinu mínu. Það er mjög fjölbreytt og ég er umkringd skemmtilegu fólki.“
Guðrún fékk algjöra bíladellu sumarið 2015. Hún átti bíl af gerðinni VW Golf og ákvað að gera hann upp. „Ég ákvað að prófa mig bara áfram með bílinn. Spreyjaði felgurnar, afturljósin, pússaði og grunnaði og lagaði ryðbletti og bara fann hvað mér fannst þetta gaman. Ég tók því ákvörðun að skrá mig í bifvélavirkjun með litla sem enga þekkingu á iðngreininni,“ segir hún en við útskrift hlaut hún fjölda verðlauna og viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur. „Mitt ráð til að ná góðum árangri er að sækja og stunda nám þar sem áhuginn liggur og hlusta á hjartað, ekki aðra,“ segir hún.
Lærir nýja frjóvgunartækni við háskólann í Oxford
Bríet Bjarkadóttir er 28 ára doktorsnemi í læknavísindum við Oxford-háskóla. Hún sérhæfir sig í frjósemi og tæknifrjóvgunum og mun útskrifast núna í vor. Hún segir námsstyrkinn koma sér vel því doktorsnám sé aðeins launað í þrjú ár, en oft þurfi nokkra mánuði til viðbótar til að ganga frá lokaritgerðinni og verja hana. Styrkurinn hjálpi henni að brúa bilið milli náms og vinnu.
Covid-faraldurinn varð til þess að deild Bríetar var lokað í sex mánuði. „Faraldurinn hefur valdið töfum á öllu og endapunkturinn færðist aðeins til. Ég hef þurft að vera mikið hérna heima hjá mér að skrifa. Það verður æðislegt að verja ritgerðina og klára. Dagarnir hafa verið svolítið einsleitir en núna sér maður fyrir endann á þessu. Ef allt gengur vel fer ég síðan í fæðingarorlof.“
„Ætli ég hafi ekki farið að hafa áhuga á læknavísindum í menntaskóla. Þegar ég var síðan í grunnnámi lærði ég um frjósemi og æxlunarlíffræði og þá vissi ég hvert ég vildi stefna í náminu,“ segir hún aðspurð hvernig hún endaði í þessu námi. „Eftir BS-námið ákvað ég að ég vildi starfa við frjósemi og tæknifrjóvgun og fór í meistaranám í fósturvísafræði í Oxford-háskóla. Í náminu kynntist ég betur sviði frjósemi og þá sérstaklega hvernig varðveita megi frjósemi hjá þeim sem þurfa að ganga í gegnum krabbameinsmeðferð. Í kjölfarið ákvað ég að fara í doktorsnám hjá leiðbeinanda sem ég hafði kynnst í meistaranáminu,“ segir hún.
Bríet segir námið hafa aukið skilning sinn á sviði frjóseminnar til muna og gera henni kleift að taka þátt í og jafnvel leiða rannsóknarverkefni á þessu sviði. „Eftir námið er stefnan að flytja heim aftur og starfa áfram við tæknifrjóvgun og taka þátt í rannsóknarverkefnum. Ég hef einnig fengið þjálfun í tækni sem felur í sér að frysta eggjastokkavef til að varðveita frjósemi, en sú tækni er sem stendur ekki til á Íslandi,“ segir hún.
Gagnsætt og faglegt umsóknarferli
Sérstök dómnefnd skipuð af þremur fagaðilum og einum sérfræðingi bankans fer yfir umsóknir um styrkina og er umsóknarferlið gagnsætt og faglegt.
Dómnefndin leitast við að velja framúrskarandi, metnaðarfulla námsmenn með skýra framtíðarsýn. Einnig er litið til atriða eins og rannsókna og greinarskrifa, meðmæla, sjálfboðastarfa, afreka í íþróttum og þátttöku í félagsstarfi svo eitthvað sé nefnt - allt sem talið er auðga íslenskt samfélag til framtíðar.
Landsbankinn hvetur alla námsmenn til að sækja um námsstyrk.