Hvernig er stað­greiðsla fjár­magn­s­tekju­skatts af geng­is­hagn­aði reikn­uð?

Margir kjósa að geyma hluta af sparnaði sínum á sparireikningum í erlendri mynt. Þegar gengi krónunnar veikist myndast gengishagnaður á þessum reikningum og ber bankanum að draga 22% fjármagnstekjuskatt af slíkum gengishagnaði. Skatturinn er innheimtur við úttekt af viðkomandi reikningi og skýrar reglur (en dálítið flóknar) gilda um útreikningana.
Dalir og evrur
26. mars 2019

Þegar gengi íslensku krónunnar veikist aukast fyrirspurnir um hvernig staðið er að útreikningi á staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts sem dreginn er af gengishagnaði sem myndast á sparireikningum í erlendri mynt. Í þessum pistli er leitast við að útskýra hvernig skatturinn er reiknaður.

Fjármagnstekjuskattur er 22% og er lagður á gengishagnað sem myndast á innlánsreikningum í erlendri mynt. Skatturinn er staðgreiðsluskyldur ef reikningurinn er í eigu einstaklings en innlendir lögaðilar eru undanþegnir staðgreiðslunni. Gengishagnaður myndast þegar gengi viðkomandi gjaldmiðils hefur styrkst gagnvart krónu frá því upphæðin í erlendri mynt er lögð inn og þar til hún er tekin út.

Dæmi: 1.000 Bandaríkjadalir eru lagðir inn á reikning á genginu 100. Síðan styrkist gengi Bandaríkjadals gagnvart krónu og við úttekt er gengið orðið 120. Andvirði 1.000 Bandaríkjadala var 100.000 krónur við innborgun en við útborgunina hafði andvirðið hækkað í 120.000 krónur. Gengishagnaðurinn nam því 20.000 krónum. Fjármagnstekjuskatturinn sem þarf að staðgreiða af gengishagnaðinum er 22%, eða 4.400 krónur sem samsvarar 36,67 Bandaríkjadölum. Sú upphæð er því dregin frá gengishagnaðinum. Eigandi reikningsins fær því ekki 120.000 krónur (ætli hann sér að taka allt út af reikningnum) heldur 115.600 krónur.

Getur þurft að miða við fleiri atriði en eitt gengi

Í ofangreindu dæmi var miðað við eina innborgun og eina útborgun. Dæmið verður eðli málsins samkvæmt aðeins flóknara þegar um er að ræða margar innborganir. Reglurnar eru þó skýrar og í sjálfu sér er ekki erfitt að reikna þetta út. Gengismunur reiknast af upphæð útborgunar hverju sinni og er fundinn með því að miða fyrst við mismun á gengi hennar og gengi elstu innborgunar, síðan næst elstu innborgunar og svo koll af kolli þar til upphæð útborgunarinnar er náð. Útborgun tekur þannig fyrst mið af elstu innborgun, síðan af þeirri næst elstu o.s.frv. Gengishagnaður einnar útborgunar getur þannig miðast við fleiri en eina innborgun og fleiri en eitt gengi.

Gengistapi má jafna á móti gengishagnaði innan ársins

Ekki er alltaf gengishagnaður af innstæðum í erlendri mynt. Í ofangreindu dæmi styrktist Bandaríkjadalur en krónan veiktist. Ef þróunin hefði verið öfug og gengi Bandaríkjadals t.d. verið 80 krónur en ekki 100 krónur við útborgun hefði orðið 20.000 króna gengistap á innstæðunni. Gengistapi má jafna á móti gengishagnaði innan árs á sama reikningi. Ekki má þó nýta gengistap á milli ára á móti gengishagnaði og ekki má heldur jafna gengistapi á móti vöxtum til að lækka fjármagnstekjuskatt af vöxtunum.

Staðgreiðsla innheimt við úttekt eða millifærslu

Til nánari skýringar er bent á að samkvæmt lögum nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, er innlánsstofnunum sem taka við innlánum í erlendri mynt skylt að draga 22% tekjuskatt í staðgreiðslu af vaxtatekjum, afföllum og arði og skila í ríkissjóð. Til staðgreiðsluskyldra vaxtatekna telst m.a. innleystur gengishagnaður á staðgreiðsluári, sem og innleystur gengishagnaður sem fellur til frá einu greiðslutímabili til annars innan staðgreiðsluársins. Samkvæmt lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, telst til tekna sem vextir af kröfum og inneignum, vextir sem greiddir eru eða eru greiðslukræfir og greiddar verðbætur á afborganir og vexti. Ákvörðun tekna skal vera þannig að innleystur gengishagnaður af hvers konar innlánsreikningum og kröfum í erlendri mynt á því ári sem innlausn á sér stað skal færður til tekna og miðast við mismun á kaupgengi hlutaðeigandi erlends gjaldeyris frá 1. janúar 2010 eða síðar og á úttektar- eða greiðsludegi. Eins og áður segir er heimilt að jafna saman gengishagnaði og gengistapi hvers innlánsreiknings fyrir sig innan ársins.

Samkvæmt lögum nr. 94/1996 skal staðgreiðsla af vöxtum fara fram þegar vextir eru greiddir út eða færðir eiganda til eignar á reikningi. Staðgreiðsla af gengishagnaði skal þannig innheimt við úttekt af reikningi, hvort sem um úttekt í reiðufé eða millifærslu yfir á annan reikning er að ræða. Í því sambandi skiptir ekki máli þótt millifært sé yfir á annan reikning í sömu mynt. Þannig myndast staðgreiðsluskyldan vegna gengishagnaðar strax við úttekt af reikningi.

Innheimta fjármagnstekjuskatts af gengishagnaði á innlánsreikningum er samkvæmt framangreindu bráðabirgðaskattheimta sem byggist á lögum. Telji þeir sem verða fyrir skattheimtunni sig eiga rétt á endurgreiðslu, t.d. vegna ákvæða í tvísköttunarsamningi, geta þeir sótt um endurgreiðslu hjá ríkisskattstjóra.

Erna er lögmaður í Lögfræðideild og Sigurjón sérfræðingur í Fjárstýringu Landsbankans.

Þú gætir einnig haft áhuga á
26. nóv. 2024
Vantar þig fimmhundruðkalla?
Ertu á leiðinni með barnið í bekkjarafmæli og þarft að útvega nokkra fimmhundruðkalla í snatri? Við hjálpum þér að finna þá.
Rafræn greiðsla
20. nóv. 2024
Hvað kostar að taka skammtímalán og dreifa greiðslunum?
Til að bera saman kjör á skammtímalánum er ekki nóg að horfa á vextina eða vaxtaprósentuna eina og sér heldur þarf að taka allan kostnað inn í reikninginn, svo sem lántökugjöld og greiðslugjöld. Á lánum sem fela í sér greiðsludreifingu er algengt að kjörin jafngildi 30-40% ársvöxtum. Og það er slatti!
Fjölskylda úti í náttúru
18. nóv. 2024
Hvenær er skynsamlegt að endurfjármagna íbúðalánið?
Það er alltaf skynsamlegt að hafa á hreinu hvaða kjör eru á íbúðaláninu þínu og kanna reglulega hvort það gæti verið hagstætt að skipta um lánsform eða lánveitanda. Með því að endurfjármagna getum við oft sparað okkur háar fjárhæðir.
Íbúðahús
14. okt. 2024
Hvernig virka verðtryggð lán?
Verðtryggð lán eru bundin við vísitölu neysluverðs sem er notuð til að mæla verðbólgu. Það þýðir að höfuðstóll lánsins hækkar í takt við verðbólguna hverju sinni. Ef verðbólga er mikil getur hækkunin verið umtalsverð og haft þau áhrif að greiðslubyrði verðtryggðra lána hækkar þegar líður á lánstímann.
27. sept. 2024
Hvers vegna eignadreifingarsjóðir?
Þegar þú fjárfestir í eignadreifingarsjóði fjárfestir þú í vel dreifðu eignasafni. Markmið eignadreifingarsjóða er að ná ávöxtun og dreifa áhættu með virkri stýringu á fjárfestingum í íslenskum og erlendum fjármálagerningum.
Seðlabanki Íslands
4. sept. 2024
Hagstjórn á verðbólgutímum
Verðbólgan hjaðnar hægar en vonir stóðu til og þrátt fyrir hátt vaxtastig er markmið Seðlabankans um 2,5% verðbólgu ekki í sjónmáli. Hvers vegna gengur ekki betur að ná tökum á verðbólgunni og hvað er til ráða?
Ungt fólk
29. ágúst 2024
Fyrstu kaup og viðbótarlífeyrissparnaður
Viðbótarlífeyrissparnaður er frábær leið til að safna fyrir sinni fyrstu íbúð. Hægt er að nýta hann skattfrjálst til útborgunar við kaup á fyrstu íbúð eða til að greiða niður húsnæðislán í allt að 10 ár.
13. ágúst 2024
„Hafa bankarnir í alvöru leyfi til að gera þetta?“
Hvað eru áreiðanleikakannanir í raun og veru? Hvers vegna eru bankar að spyrja allra þessara spurninga og hvað er gert við svörin? Og þarf ég virkilega að svara þessu?
Maður með síma úti í náttúrunni
17. júlí 2024
Ellí svarar yfir 1.000 spurningum á dag – hér eru þær algengustu
Í vetur tókum við í notkun nýtt spjallmenni á netspjallinu á landsbankinn.is. Reynslan hefur verið góð og í meirihluta tilfella leysir Ellí úr erindum viðskiptavina. Hjá henni fá viðskiptavinir skjót svör á öllum tímum dags og um helgar og hún eykur þannig aðgengi að bankaþjónustu. En hverjar eru algengustu spurningarnar og svörin við þeim?
Hjón úti í náttúru
18. júní 2024
Lífeyrisgreiðslur TR á mannamáli
Sjálfsagt höfum við mjög ólíkar hugmyndir um hvernig við viljum eyða efri árunum. Öll eigum við samt sameiginlegt að þurfa að huga vel og tímanlega að því hvernig við fjármögnum þessi ár.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur