Í lok hvers mánaðar birtir Hagstofan vísitölu neysluverðs miðað við verðlag í þeim mánuði. Verðlagið er skoðað um miðjan mánuðinn en vísitalan birt í lok mánaðar.
Það hefur vafist fyrir mörgum að á svipuðum tíma og Hagstofan tilkynnir um nýja vísitölu og breytingu frá fyrri mánuði er allt önnur breyting sem á sér stað, t.d. á verðtryggðum reikningum. Dæmi um þetta eru mánaðamótin febrúar og mars 2020. Í lok febrúar voru neikvæðar verðbætur á verðtryggðum reikningum en rétt fyrir mánaðamótin kom tilkynning um að vísitala neysluverðs hefði hækkað um 0,92%. Skýringin á þessu er sú að vísitalan sem var kunngjörð í lok febrúar gildir til verðtryggingar í apríl, eða eins og segir í fréttatilkynningunni frá Hagstofunni: „Vísitala neysluverðs samkvæmt útreikningi í febrúar 2020, sem er 474,1 stig, gildir til verðtryggingar í apríl 2020“.
Verðtryggður reikningur sem var með innstæðu upp á 1.000.000 krónur eftir verðbætur janúarmánaðar ber neikvæðar verðbætur að fjárhæð 7.395 krónur í lok febrúar og lækkar innstæða því í 992.605 krónur.
Í lok mars ber viðkomandi reikningur hins vegar jákvæðar verðbætur sem samsvara þessare 0,92% hækkun, sbr. ofangreint, eða 9.095 krónur. Staðan á reikningnum er því orðin 1.001.690 krónur.
Einnig hafa margir ruglast þegar leitað er eftir vísitölu á vef Hagstofunnar og sjá t.d. að grunnvísitala skuldabréfs er ekki sú sama og þar kemur fram. Skýringin er sú að vísitala miðað við verðlag í t.d. janúar gildir til verðtryggingar í mars. Það er nauðsynlegt að hafa á hreinu hvort verið sé að tala um vísitölu neysluverðs til verðtryggingar eða hvort miða eigi við verðlag í mánuði. Skýringin á þessu er sú að vísitala vikomandi mánaðar liggur ekki fyrir fyrr en í lok mánaðar. Þegar hún er birt er rúmur mánuður þar til hún tekur gildi til verðtryggingar.