Til að kostnaður, í peningum og tíma, komi ekki á óvart er mikilvægt að standa rétt að undirbúningi og áætlanagerð. Það er því gott að ráðfæra sig við sérfræðinga og fá eins nákvæmar upplýsingar um kostnað og framkvæmdatíma og mögulegt er áður en hafist er handa. Áætlunin þarf bæði að taka til efniskaupa og vinnu iðnaðarmanna. Í sumum tilvikum getur borgað sig að fá iðnaðarmenn til að gera tilboð í verkið en í öðrum tilvikum er betra að borga samkvæmt tímagjaldi.
Gera þarf ráð fyrir óvissu í kostnaði en líklega kannast margir við að kostnaður við framkvæmdir á það til að fara fram úr áætlun, frekar en að vera ódýrari en upphaflega var áætlað. Þá getur líka verið erfitt að áætla framkvæmdatíma enda geta framkvæmdir tafist af ýmsum orsökum, m.a. vegna veðurs eða vegna þess að verkið reynist umfangsmeira og flóknara en upphaflega var reiknað með.
Fjármögnun fer eftir umfangi framkvæmdanna
Þegar kostnaðar- og verkáætlun liggur fyrir þarf að skoða hvernig hægt er að fjármagna framkvæmdirnar. Best er að hafa safnað peningum í framkvæmdasjóð en ef þú átt ekki laust fé aflögu getur þú tekið lán. Nokkrir kostir standa til boða en það fer eftir eðli og umfangi framkvæmdanna hvaða kostur hentar best.
Ef um er að ræða smærri framkvæmdir, s.s. viðgerðir og lagfæringar, gæti verið einfaldast að taka skammtímalán, t.d. Aukalán Landsbankans, til að brúa bilið. Lántökuferlið er einfalt og fljótlegt og þú færð peningana strax greidda inn á reikning eða kreditkort. Þú greiðir mánaðarlega af Aukaláninu en getur einnig greitt lánið hraðar niður án aukakostnaðar. Ef aðeins er um að ræða lága fjárhæð getur einnig hentað að taka yfidráttarlán sem þú getur síðan skráð í niðurgreiðsluferli eins og þér hentar best.
Aðrar lausnir fyrir dýrari framkvæmdir
Ef um er að ræða dýrari framkvæmdir getur verið hagstætt að greiða fyrir þær með því að taka nýtt íbúðalán eða endurfjármagna og hækka áhvílandi íbúðalán til að greiða framkvæmdakostnaðinn. Til þess að það sé mögulegt þarf að vera nægilegt veðrými á húsnæðinu. Svona lagað skal þó aðeins gera að vel athuguðu máli og þú þarft að vera viss um að framkvæmdirnar séu nauðsynlegar og að þú ráðir við hærri greiðslubyrði. Afgreiðslutími íbúðalána er heldur lengri en á skammtímalánum. Vextirnir á íbúðalánum eru á hinn bóginn lægri og þegar um er að ræða hærri fjárhæðir skipta kjörin meira máli.
Hvenær er eign veðhæf?
Til að geta tekið lán með veði í fasteign þarf eignin að vera veðhæf. Til að meta veðhæfi er horft til byggingarstigs fasteignar. Byggingarstigin eru fjögur, allt frá því að byggingarleyfi hefur verið gefið út (byggingarstig B1) þar til bygging og lóð eru fullgerð (byggingarstig B4). Bygging er veðhæf þegar hún er orðin fokheld, þ.e. búin að ná byggingarstigi B2. Eftir þann tíma er hægt að fá lán með veði í byggingunni, en áður en það gerist þarf að tryggja lán með öðrum hætti.
Framkvæmdalán vegna nýbygginga
Ef þú ert að hugsa um að byggja íbúðarhús, þá er hægt að byrja á að fá framkvæmdalán vegna nýbygginga. Þegar eignin er fokheld (byggingarstig B2) er mögulegt að breyta láninu í íbúðalán sem geta annað hvort verið verðtryggð eða óverðtryggð eða blanda af báðum þessum kostum.
Ef þú átt fasteign fyrir og veðrými leyfir getur þú einnig tekið verðtryggt eða óverðtryggt íbúðalán með veð í eigninni og flutt lánið á nýbygginguna þegar hún er orðin fokheld og veðrými hefur myndast á henni.
Að finna réttu lausnina
Framkvæmdir má fjármagna með ýmsum hætti. Til að finna réttu fjármögnunarleiðina þarf fyrst að gera verk- og kostnaðaráætlun og fá svo aðstoð hjá sérfræðingi eða þjónustufulltrúa Landsbankans við að finna bestu lausnina. Gangi þér vel!