Vel heppnaður fundur um skattaumhverfi styrktarsjóða
Landsbankinn stóð fyrir vel heppnuðum fræðslufundi þann 24. febrúar um nýlegar breytingar á skattlagningu almannaheillafélaga og styrktarsjóða.
Breytingarnar létta mjög skattbyrði almannaheillafélaga og styrktarsjóða og gera einstaklingum og fyrirtækjum kleift að draga frá tiltekna fjárhæð eða hlutfall framlaga frá skattskyldum tekjum. Á fundinum var fjallað um þessar breytingar, væntingar og áhrif, og um ávöxtun fjármuna styrktarsjóða.
Fyrirlesarar á fundinum voru:
Atli Þór Jóhannsson
Atli Þór er löggiltur endurskoðandi og starfar hjá PwC á Íslandi þar sem hann er meðeigandi. Hann hefur einnig verið stundarkennari við Háskólann í Reykjavík þar sem hann kenndi fyrirtækjaskattarétt á meistarastigi og hann annast m.a. endurskoðun fyrir ýmsa styrktarsjóði og almannaheillafélög. Í fyrirlestri sínum fjallaði Atli Þór m.a. um hvernig almannaheillafélög skrá sig hjá ríkisskattstjóra, hvaða áhrif nýlegar lagabreytingar hafa á fjármagnstekjuskatt félaganna og á einstaklinga og fyrirtæki í rekstri.
Jón Atli Benediktsson
Jón Atli er rektor Háskóla Íslands og prófessor í rafmagns- og tölvuverkfræði við skólann. Hann situr jafnframt í stjórn Háskólasjóðs Eimskipafélagsins. Í erindi sínu fjallaði Jón Atli um umhverfi, umfang og mikilvægi styrktarsjóða Háskóla Íslands og ræddi sérstaklega um Háskólasjóð Eimskipafélagsins. Hann ræddi m.a. um þær afar jákvæðu breytingar sem nýlega voru gerðar á skattalöggjöfinni og hvaða viðbótarskref mætti taka í framhaldinu.
Vigdís Sif Hrafnkelsdóttir
Vigdís Sif er viðskiptastjóri í Eignastýringarþjónustu (fagfjárfestaþjónustu) Landsbankans. Hún hefur yfir 23 ára reynslu af fjármálamarkaði og hefur í starfi sínum hjá bankanum veitt lögaðilum ráðgjöf um ávöxtun, og þá ekki síst styrktarsjóðum og almannaheillafélögum. Hún hefur meðal annars verið framkvæmdastjóri Háskólasjóðs Eimskipafélagsins frá árinu 2011. Hennar erindi fjallaði um þær fjölmörgu áskoranir sem styrktarsjóðir standa frammi fyrir við ávöxtun fjármuna sinna og hvaða leiðir standa þeim til boða í þeim efnum.
Glærukynning Vigdísar Sifjar (pdf)
Við bendum einnig á grein eftir Eyrúnu Önnu Einarsdóttur og Vigdísi Sif Hrafnkelsdóttur sem birtist í nýlega í Morgunblaðinu og á vef bankans.
Lesa grein: Mikið framfaraskref fyrir styrktarsjóði og almannaheillafélög