Ráðstöfun viðbótarlífeyrissparnaðar inn á íbúðalán endurnýjast sjálfkrafa
Þetta kemur fram í tilkynningu frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Þar segir að Alþingi hafi samþykkt að framlengja heimild til skattfrjálsrar nýtingar viðbótarlífeyrissparnaðar (einnig nefndur séreignarsparnaður) inn á höfuðstól íbúðalána vegna kaupa á húsnæði til eigin nota sem og að framlengja heimild til skattfrjálsrar nýtingar á uppsöfnuðum viðbótarlífeyrissparnaði við kaup á íbúðarhúsnæði til eigin nota. Heimildin hefur verið framlengd til og með 31. desember 2025. Um er að ræða úrræði sem sótt er um á leidretting.is.
500.000 kr. fyrir einstaklinga og 750.000 fyrir hjón
Viðmiðunarfjárhæðir heimildanna eru óbreyttar. Í báðum tilvikum getur árleg hámarksfjárhæð einstaklings numið 500.000 kr. á almanaksári. Hjá hjónum og einstaklingum, sem uppfylla skilyrði til samsköttunar, takmarkast heimildin við að hámarki 750.000 kr. á almanaksári, samanlagt.
Áður þurfti fólk sem var með virka ráðstöfun viðbótarlífeyrissparnaðar inn á íbúðalán að sækja sérstaklega um áframhaldandi nýtingu úrræðisins en nú gerist það sjálfkrafa, eins og áður segir.
Þau sem hyggjast hætta að nýta úrræðið þurfa að tilkynna það til Skattsins á vefsvæðinu www.leidretting.is. Að öðrum kosti er iðgjaldi ráðstafað inn á höfuðstól íbúðalánsins.
Úrræði vegna fyrstu kaupa
Úrræði vegna kaupa á fyrstu íbúð er óbreytt en hægt er að nýta viðbótarlífeyrissparnað skattfrjálst til útborgunar við kaup á fyrstu íbúð.
Við vekjum athygli á að þau sem hafa fullnýtt úrræðið vegna fyrstu kaupa geta nú fært sig yfir í eldra úrræðið og nýtt viðbótarlífeyrissparnaðinn áfram til að greiða inn á íbúðalán. Þetta á við um þau sem keyptu sína fyrstu eign 1. júlí 2014 eða síðar og hafa nýtt viðbótarlífeyrissparnað til að greiða inn á lánið í 10 ár, sem er hámarkstími vegna fyrstu kaupa. Með því móti er hægt að greiða lengur inn á lánið.
Ef þú ert í þessari stöðu þá þarftu að leita til Skattsins til að skipta um úrræði. Hægt er að hringja í Skattinn í síma 442 1000 eða senda póst á netfangið adstod@leidretting.is.
Þú getur líka fengið nánari upplýsingar með því að hringja í Verðbréfa- og lífeyrisdeild Landsbankans í síma 410 4040 eða senda póst á vl@landsbankinn.is.