Landsbankinn á Akureyri fluttur í nýtt húsnæði

Landsbankinn á Akureyri er fluttur í nýtt húsnæði að Hofsbót 2-4 í miðbæ Akureyrar. Útibúið er opið á milli kl. 10-16, auk þess sem hraðbankar og önnur sjálfsafgreiðslutæki eru aðgengileg allan sólarhringinn.
Í tilefni flutninganna verðum við með heitt á könnunni, í dag 14. febrúar, og hlökkum til að taka á móti viðskiptavinum, gestum og gangandi á nýja staðnum.
Útibúið á Akureyri er eitt af stærstu útibúum Landsbankans en þar starfa um 30 manns. Um helmingur vinnur við þjónustu í útibúinu sjálfu en aðrir vinna ýmist í Þjónustuveri Landsbankans, sem þjónar viðskiptavinum um allt land, eða í miðlægum deildum bankans, s.s. við upplýsingatækni og lögfræðiráðgjöf. Nýja húsnæðið er samtals um 600 fermetrar að stærð og er hagkvæmara og hentugra en eldra húsnæði.
Landsbankinn er þar með fluttur úr gamla Landsbankahúsinu við Strandgötu 1 þar sem hann hefur verið frá árinu 1954.
Mynd fyrir ofan: Stærstur hluti af starfsfólki Landsbankans á Akureyri fyrir framan útibúið.









