Fyrstur til að miðla upplýsingum í dánarbúsmálum rafrænt til sýslumanna

Landsbankinn miðlar nú rafrænt upplýsingum um stöðu eigna og skulda látinna á dánardegi beint í dánarbúskerfi sýslumanna. Þetta á til dæmis við um stöðu bankareikninga og íbúðalána.
Þessi nýja leið sparar erfingjum sporin og einfaldar þeim vinnuna í tengslum við skiptin, þar sem þeir þurfa ekki lengur að kalla sjálfir eftir þessum upplýsingum frá Landsbankanum og koma þeim til sýslumanna. Upplýsingarnar verða einnig forskráðar í rafrænar umsóknir og skýrslur sem erfingjar þurfa að fylla út og skila vegna skipta á dánarbúum.
Sýslumenn hafa unnið að því frá árinu 2021 að gera dánarbúsferlið stafrænt. Nú er svo komið að allar umsóknir og skýrslur sem erfingjar þurfa að skila inn vegna dánarbússkipta eru stafrænar. Þá hafa HMS, Samgöngustofa, Skatturinn og TR þegar hafið sjálfvirka miðlun upplýsinga um eignir og skuldir dánarbúa í dánarbúskerfi sýslumanna.
Um mitt ár 2022 leituðu sýslumenn í samstarfi við Samtök fyrirtækja í fjármálaþjónustu eftir því við Landsbankann, Íslandsbanka, Kviku banka og Arion banka að koma á slíkri sjálfvirkri miðlun. Í frétt á island.is segir að vonir standi til að tenging komist á milli hinna bankanna fyrir sumarið.
Í febrúar 2024 var lögum um skipti dánarbúa breytt. Viðskiptabönkum og sparisjóðum var gert skylt að afhenda sýslumönnum upplýsingar með rafrænum hætti.









