Húsfyllir í Landsbankanum á HönnunarMars

Húsfyllir var í Landsbankanum á HönnunarMars föstudaginn 4. mars og stemningin var ótrúlega skemmtileg. Dagskráin byrjaði á samtali um fjárfestingar í hönnun og um kvöldið var ungum og upprennandi fatahönnuðum gefið sviðið.
Augljóst er að mikill áhugi er á umræðum um fjármögnun í hönnun og fatahönnuðirnir sýndu að það er mikil gróska í tísku á Íslandi.
Fjárfest í hönnun og Eyjólfur í Epal heiðraður
Dagskráin hófst á því að Hanna Katrín Friðriksson, atvinnuvegaráðherra, heiðraði Eyjólf Pálsson stofnanda Epal fyrir hálfrar aldar starf í þágu íslenskrar hönnunar.
Við tóku örerindi þar sem fjölbreyttur hópur sérfræðinga sagði frá sinni reynslu af fjármögnun í hönnun og mikilvægi þess að vægi sé sett í verðmætasköpun af því tagi. Við fengum innlegg frá Komal Singh frá Polestar, Paul Madsen frá Normann Copenhagen, Kristínu Evu Ólafsdóttur frá Gagarin, Dario Nuñez Salazar frá Hildiberg og Salóme Guðmundsdóttur, stjórnarkonu í HönnunarMars
Að erindum loknum tóku við líflegar pallborðsumræður undir stjórn Karítasar Diðriksdóttur, þar sem spurt var beint og óbeint: Hvernig fjárfestum við í hugmyndum framtíðarinnar?
Fatahönnuðir framtíðarinnar // Young Talents of Fashion Design
Um kvöldið var stiganum í Landsbankanum breytt í tískusýningarpall þegar sex ungir fatahönnuðir stigu fram í lifandi tískugjörningi undir heitinu Uppsprettan – Fatahönnuðir framtíðarinnar. Hönnuðirnir sem sýndu verk sín voru Andrea Margrétardóttir, Kári Eyvindur, Michal Pajak Pajonik, Sigríður Ágústa Finnbogadóttir, Sóley Jóhannsdóttir og Thelma Gunnarsdóttir.
Sviðsetning og listræn stjórnun var í höndum Önnu Clausen og tónlistarmaðurinn Thomas Stankiewicz skapaði frábæra stemningu.
Sýningarnar sex, sem voru haldnar í þjónustu- og verslunarrými á horni Geirsgötu og Reykjastrætis 6, tókust vel og voru vel sóttar.
Það má með sanni segja að viðburðirnir í Landsbankanum hafi tekist afar vel og við þökkum fyrir samstarfið við HönnunarMars. Við hlökkum til að fylgjast með þessum spennandi hönnuðum í framtíðinni og halda áfram að skapa vettvang fyrir samtal um tengslin á milli hönnunar og fjármagns.

























