Mötuneyti Landsbankans í Reykjastræti fær endurvottun Svansins

Mötuneyti Landsbankans í Reykjastræti 6 hefur fengið endurvottun Svansins en þetta er fyrsta sinn sem mötuneytið er vottað eftir að bankinn flutti í nýtt húsnæði. Mötuneyti bankans hefur verið Svansvottað frá árinu 2013 og var fyrsta mötuneytið á Íslandi til að fá slíka vottun.
Í mötuneyti Landsbankans er boðið upp á mat fyrir starfsfólk bankans í Reykjastræti auk þess sem hádegismatur er sendur í útibú bankans á höfuðborgarsvæðinu. Það þjónar einnig sem mötuneyti utanríkisráðuneytisins og háskóla-, iðnaðar og nýsköpunarráðuneytisins.
Svansvottunin er liður í að lágmarka sóun og umhverfisáhrif í samræmi við sjálfbærnistefnu bankans. Vottunin tekur m.a. til þjálfunar starfsfólks, aðgerða til að draga úr matarsóun, orkusparnaðar, efnainnihalds og notkunar skaðlegra efna. Vottunin tekur einnig til hlutfalls lífrænna vara en starfsfólk mötuneytisins og sjálfbærniteymis bankans hefur undanfarið unnið að bættum samskiptum við birgja í þeim tilgangi að auka hlutfallið enn frekar. Þá er náið fylgst með matarsóun og fjölda aðgerða beitt til að draga úr henni.
Guðrún Lilja Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri Svansins, segir: „Mötuneyti Landsbankans hefur verið Svansvottað síðan 2013, og hefur þannig sýnt metnað og elju í að standa vörð um umhverfið. Með þessari endurvottun stígur mötuneytið enn fastar til jarðar þegar kemur að aðgerðum til að stuðla að lágmörkun matarsóunar, framboði af umhverfisvænni matvælum og heilnæmara umhverfi starfsfólks. Starfsfólk Landsbankans má vera stolt af árangri mötuneytisins og hlökkum við til áframhaldandi samstarfs.“
Svanurinn er opinbert umhverfismerki Norðurlandanna. Meginmarkmið Svansins er að draga úr umhverfisáhrifum af vörum og þjónustu og auðvelda neytendum að velja umhverfisvænni kosti.
Á myndinni eru starfsfólk mötuneytisins, bankastjóri Landsbankans og annað starfsfólk bankans sem kom að vinnu við Svansvottunina, auk Guðrúnar Lilju Kristinsdóttur, framkvæmdastjóra Svansins og Esterar Öldu Bragadóttur, sérfræðings hjá Svaninum.









