Nýr sparireikningur í pólskri mynt

Við bjóðum nú upp á sparireikning í pólskri mynt, slot (zloty, PLN). Mun þetta vera í fyrsta sinn sem íslenskur banki býður upp á gjaldeyrisreikning í sloti.
Um er að ræða sparireikning í erlendri mynt og hægt er að velja um þrjár tegundir bindinga:
- Óbundinn, en þá er innstæða alltaf laust til útborgunar.
- Bundinn í 3 mánuði, þar sem hver innborgun er bundin í 3 mánuði frá innborgunardegi. Þá er innborgun laus í mánuð og binst svo aftur í þrjá mánuði.
- Bundinn í 6 mánuði, þar sem hver innborgun er bundin í 6 mánuði frá innborgunardegi. Þá er innborgunin laus í mánuð og binst svo aftur í 6 mánuði.
Hægt er að millifæra beint af gjaldeyrisreikningi í PLN yfir á aðra reikninga erlendis í sömu mynt. Þetta hefur þann kost að ekki þarf að tímasetja millifærslur út frá opnunartíma greiðslukerfa, eins og þegar millifært er af íslenskum reikningi í íslenskum krónum yfir á reikning í pólskum banka í sloti.
Landsbankinn hefur um árabil komið til móts við pólskumælandi viðskiptavini, m.a. með pólsku tungumálaviðmóti í netbankanum og svo síðar í Landsbankaappinu. Ytri vefur bankans er með sérstakt lén tileinkað pólsku, landsbankinn.pl, og við höfum einnig boðið upp á fræðslufundi á pólsku, með pólskumælandi starfsfólki bankans.









