Forseti Íslands ræddi um mikilvægi menntunar á fundi Háskólasjóðs Eimskipafélagsins
Fundurinn var haldinn í Landsbankanum við Reykjastræti 6 fimmtudaginn 5. desember sl. í tilefni þess að nú eru 60 ár frá stofnun Háskólasjóðs hf. Eimskipafélags Íslands. Sjóðurinn var stofnaður árið 1964 til minningar um alla þá Vestur-Íslendinga sem áttu hlut að stofnun Eimskipafélagsins árið 1914.
Halla Tómasdóttir, forseti Íslands.
Framsýni og framtíðardraumar
Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, benti á að á næsta ári yrði mikil hátíð í Manitoba í Kanada en þá verða 150 ár liðin frá því að fyrsti stóri hópur Íslendinga nam þar land og stofnaði Nýja-Ísland. Vesturferðirnar höfðu hafist nokkrum árum áður, en árið 1875 fengu Íslendingar að stofna eins konar sjálfstjórnarnýlendu við Winnipegvatn í Manitoba sem þeir kölluðu Nýja-Ísland. „Auðvitað voru margskonar ástæður fyrir því að fólk valdi að ana út í óvissuna; sumir vildu flýja fátækt og þröngbýli, aðrir eltu drauma. En allir sem stigu á skipsfjöl sáu fyrir sér aðra framtíð en þá sem blasti við þeim á Íslandi,“ sagði Halla.
„Framsýni og framtíðardraumar einkenndu einnig þá stórtæku Íslendinga sem voru þess fullvissir að íslensk þjóð þyrfti að eignast sitt eigið skipafélag til að tryggja ferðir til og frá landinu. Það var ekki síst með framlögum almennings að það tókst að stofna Eimskipafélag Íslands árið 1914 og það sem er einna merkilegast við þann gjörning er að Vestur-Íslendingar stóðu að baki um fimmtungi hlutafjárins. Þeir höfðu áttað sig á mikilvægi fyrirtækisins fyrir gömlu þjóðina, sem þá heyrði enn undir Danakonung. Samgöngur á sjó voru lífæð okkar í þeirri einangrun sem Ísland bjó þá við.“
Halla fjallaði um stofnun sjóðsins sem nú er stærsti styrktarsjóður landsins og tilgang sjóðsins sem er, samkvæmt stofnskrá hans, að stuðla að velgengni Háskóla Íslands svo og að styrkja efnilega stúdenta til náms við Háskólann. „Megi þeir í námi sínu og rannsóknum nema lönd og láta drauma sína rætast. Ég færi öllum hér heillaóskir mínar og óska ykkur og okkur öllum til hamingju með þann ávöxt sem starf sjóðsins hefur borið til þessa og treysti því að við munum njóta ávaxta hans um alla framtíð, okkur öllum til framdráttar og heilla,“ sagði Halla.
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.
Doktorsnám tók stakkaskiptum
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, ræddi um mikilvægi sjóðsins fyrir háskólann. Sagði hann úthlutanir úr sjóðnum hafa valdið stakkaskiptum og að í kjölfar þeirra hefði doktorsnám á Íslandi tekið flugið. Sjóðurinn hefði sem betur fer lifað af hrunið og síðan verið vel ávaxtaður hjá Landsbankanum.
Adam Janusz Switala, aðjúnkt og doktorsnemi við Menntavísindasvið HÍ.
Styðja pólskar barnafjölskyldur með tónlist og söng
Adam Janusz Switala, sem er aðjúnkt og doktorsnemi við Menntavísindasvið HÍ, er að rannsaka hvernig hægt er að styðja við aðfluttar barnafjölskyldur frá Póllandi með tónverkun fyrir alla fjölskylduna. Hann benti á að frá árinu 2012 hefði hlutfall innflytjenda á Íslandi aukist úr 8% í yfir 17%. Pólverjar væru stærsti hópur innflytjenda, eða 34% af heildinni, og stór hluti þeirra væru foreldrar með ung börn. Adam sagði að rannsóknir sýndu að börn og unglingar pólskra innflytjenda væru ekki eins ánægð með lífið, þyrftu að takast á við meiri áskoranir af ýmsu tagi og fengju minni félagslegan stuðning en jafnaldrar þeirra sem fæddir væru á Íslandi. Rannsóknir hefðu sýnt fram á mikilvægi þess að börn innflytjenda hefðu góð tók á sínu móðurmáli en rannsókn Adams snýst að um að meta hvernig tónlist og söngur á móðurmáli barnanna getur bætt færni þeirra í því.
Sóllilja Bjarnadóttir, doktorsnemi við Félagsvísindasvið.
Viðhorf almennings til loftslagsaðgerða
Sóllilja Bjarnadóttir, doktorsnemi við Félagsvísindasvið, er að rannsaka hvernig pólitískt traust og traust til annarra stofnana samfélagsins hefur áhrif á viðhorf almennings til aðgerða í loftslagsmálum. Hún skoðar hvort einstaklingar upplifi loftslagsaðgerðir sem kostnaðarsamar fyrir það persónulega og hvernig traust hefur áhrif á þetta flókna samband, bæði á Íslandi og í tólf öðrum Evrópulöndum. Hún fjallar um að loftslagsaðgerðir hafi mismunandi áhrif á ólíka samfélagshópa og að mikilvægt sé að hvert samfélag tryggi að umskiptin yfir í grænni samfélagsgerð byggist á réttlæti. Niðurstöður hennar sýna að traust til stofnana virðist vera grunnstoð í því að samræma markmið loftslagsverndar og félagslegs réttlætis, bæði hér á landi og í Evrópu.
Aysan Safavi, doktor í efnaverkfræði.
Sjálfbær orkuframleiðsla úr lífúrgangi
Dr. Aysan Safavi lauk doktorsprófi í efnaverkfræði frá Háskóla Íslands árið 2023. Doktorsverkefni hennar fjallaði um sjálfbæra framleiðslu orku úr lífúrgangi með pýrólýsu. Aysan benti á að úrgangur frá heimilum og fyrirtækjum á Íslandi væri að stærstum hluta annað hvort urðaður eða brenndur. Þrátt fyrir að gösun sorps og lífmassa hafi verið talin vera umhverfisvænni valkostur er ekki öruggt að gösunarferlið standist losunarreglugerðir. Pýrólýsa er ferli í gösunarferlinu. Um er að ræða sjálfbæra tækni sem notuð er til að framleiða lífeldsneyti og sem er þekkt fyrir litla losun eiturefna. Í doktorsverkefni sínu lagði Aysan mat á næmni líkana sem eru oft notuð fyrir pýrólýsu á timbri og tveggja endurbættra líkana.
Eignir nema um fjórum milljörðum króna
Stofngjöf Háskólasjóðsins voru hlutabréf sem Vestur-Íslendingar áttu í Eimskipafélaginu. Í lok árs 1966 var heildareign sjóðsins um ein milljón króna sem var um 4,5% af virði félagsins á þeim tíma. Árið 2004 var ákveðið að selja öll hlutabréf sjóðsins í Eimskipafélaginu og skyldi sjóðurinn framvegis ávaxta fé sitt með fjölbreyttari hætti í skuldabréfum og hlutabréfum. Tilgangur sjóðsins yrði þó hinn sami og áður. Sjóðurinn starfar eftir staðfestri skipulagsskrá og sjálfstæðri fjárfestingarstefnu. Sjóðurinn hefur frá árinu 2005 úthlutað um 1,8 milljörðum króna, þar af 500 milljónum króna til byggingar Háskólatorgs. Eignir sjóðsins nema nú um fjórum milljörðum króna, sem er um 6,3% af verðmæti Eimskips hf., miðað við gengi félagsins 5. desember 2024.
Stjórn sjóðsins skipa Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Jón Þ. Sigurgeirsson, formaður bankaráðs Landsbankans, Lilja B. Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans og Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri Eimskips. Framkvæmdastjóri sjóðsins er Vigdís Sif Hrafnkelsdóttir, viðskiptastjóri hjá Eignastýringu Landsbankans.
Á myndinni sem er efst í þessari frétt eru: Vilhelm Már Þorsteinsson, Halla Tómasdóttir forseti Íslands, Jón Atli Benediktsson, Jón Þ. Sigurgeirsson, Lilja B. Einarsdóttir, Sóllilja Bjarnadóttir, Aysan Safavi, Adam Janusz Switala og Vigdís Sif Hrafnkelsdóttir.
Adam Janusz Switala, Sóllilja Bjarnadóttir og Halla Tómasdóttir, forseti Íslands.
Eyrún Anna Einarsdóttir og Helga Brá Árnadóttir.
Jón Þ. Sigurgeirsson, Vilhelm Már Þorsteinsson og Lilja B. Einarsdóttir.
Hreiðar Bjarnason.
Adam Janusz Switala og Sóllilja Bjarnadóttir.
Eyrún Anna Einarsdóttir og Gylfi Magnússon.