Vörum við svikapóstum í nafni Skattsins
Við vörum við svikatölvupóstum sem hafa verið sendir í nafni Skattsins. Í póstinum er sagt að skattayfirvöld hafi uppfært upplýsingar varðandi skattframtalið þitt og að þú eigir að nálgast upplýsingar á þjónustuvef Skattsins með því að smella á hlekk sem sendur er með póstinum.
Þegar smellt er á hlekkinn er fólk beðið um að velja bankann sinn og fær þá beiðni um auðkenningu í rafrænum skilríkjum. Ef þú auðkennir þig geta svikararnir nýtt sér auðkenninguna til að komast inn í netbankann þinn.
Einnig kemur fram að viðkomandi eigi inneign hjá skattinum og þurfi að gefa upp kortaupplýsingar til að fá hana greidda. Ef þú gefur upp kortaupplýsingarnar geta svikararnir svikið fé út af kortinu þínu.
Svikapósturinn virðist við fyrstu sýn vera trúverðugur en þegar betur er að gáð er sést vel að pósturinn kemur ekki frá Skattinum.
Frétt á vef Skattsins um svikapóstana
Við ítrekum:
- Aldrei smella á hlekki í tölvupóstum sem leiða þig inn á innskráningarsíður heldur farðu beint inn á vef viðkomandi fyrirtækis og skráðu þig þar inn með öruggum hætti.
- Aldrei samþykkja innskráningu, millifærslu, kortafærslu eða aðrar aðgerðir í netbanka/appi nema þú sért raunverulega að framkvæma þessar aðgerðir.
- Ekki samþykkja innskráningu með rafrænum skilríkjum nema þú sért í raun og veru að nota þau til að skrá þig inn.
- Ef þú hefur samþykkt auðkenningar eða gefið upp kortanúmer og grunar að um svik sé að ræða, skaltu strax hafa samband við viðskiptabankann þinn og láta vita.
- Við mælum með að þú kynnir þér netöryggismál og varnir gegn netsvikum á landsbankinn.is/oryggi.