Mikið framfaraskref fyrir styrktarsjóði og almannaheillafélög
Fjármagnstekjuskattur álíka hár og styrkir
Með lagabreytingunni komst gamalt baráttumál loks í höfn. Það er rík ástæða til að fagna og vekja athygli á þeim framförum sem það hefur í för með sér. Fyrir lagabreytinguna þurftu styrktarsjóðir, sem voru undanþegnir tekjuskatti, að greiða 22% fjármagnstekjuskatt. Þetta er frábrugðið því sem þekkist víða erlendis þar sem slíkir sjóðir eru allajafna undanþegnir fjármagnstekjuskatti. Þetta varð til þess að einn stærsti styrktarsjóður landsins, Háskólasjóður Eimskipafélagsins, greiddi að jafnaði álíka mikið í fjármagnstekjuskatt og hann veitti í styrki.
Háskólasjóðurinn var stofnaður árið 1964 til minningar um alla þá Vestur-Íslendinga sem áttu hlut að stofnun Eimskipafélags Íslands árið 1914. Doktorsnemar við Háskóla Íslands, fastráðnir kennarar og sérfræðingar við skólann sem uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til leiðbeinenda í doktorsnámi geta sótt um styrk í sjóðinn en ákvörðun um styrkþega úr röðum doktorsnema er í höndum Háskólans.
Hærri styrkir vegna góðrar ávöxtunar
Landsbankinn sér um rekstur og eignastýringu fyrir hönd sjóðsins og erum við afar stolt af því að ávöxtun Háskólasjóðs hefur verið með ágætum. Það eykur getu sjóðsins til að veita styrki og efla þannig menntun og þekkingarsköpun í landinu. Á árunum 2013-2017 úthlutaði sjóðurinn á bilinu 35-50 milljónum króna árlega en á árinu 2021 námu styrkirnir 90 milljónum króna. Endurgreiðsla á fjármagnstekjuskatti mun auka getu sjóðsins til að greiða styrki til framtíðar. Samfélagið allt nýtur góðs af þar sem sjóðurinn stuðlar að mikilvægri nýsköpun í formi rannsókna og menntunar.
Dr. Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, hefur lýst því að styrkveitingar Háskólasjóðs Eimskipafélagsins hafi stutt verulega við doktorsnám við skólann og í raun gjörbreytt landslagi doktorsnáms á Íslandi. Sjóðurinn sé afar mikilvægur fyrir háskólann og samfélagið allt.
Lagabreytingin mun hafa mikil áhrif á framlög til almannaheillastarfsemi. Með lögunum er einstaklingum heimilað að draga allt að 350 þúsund krónur á ári frá skattskyldum tekjum sínum utan atvinnurekstrar vegna framlaga til almannaheillastarfsemi. Hlutfallið sem rekstraraðilar mega draga frá skattskyldum tekjum vegna slíkra framlaga hefur verið tvöfaldað, úr 0,75% í 1,5%, auk fleiri breytinga. Þegar þetta hlutfall var hækkað síðast, úr 0,5% í 0,75%, hækkuðu slík framlög um milljarð króna.
Ómetanlegt fyrir samfélagið
Í nýju lögunum er sérstaklega tekið fram hvaða aðilar falla undir skilgreininguna um almannaheillafélög en það eru óhagnaðardrifin félög sem í megindráttum reka ekki atvinnustarfsemi í skilningi skattalaga, heldur fyrst og fremst starfsemi með samfélagslegan tilgang að leiðarljósi. Til þessa telst meðal annars ýmis mannúðar- og líknarstarfsemi, æskulýðs- og íþróttastarf, björgunarsveitir og neytenda- og forvarnarstarf. Hér á landi er rík hefð fyrir slíkum félögum og styrktarsjóðum og starfsemi þeirra er ómetanleg fyrir okkur sem samfélag.
Ávöxtun og eignadreifing mikilvæg
Það er auðvitað mjög mikilvægt að þeir fjármunir sem lagðir eru í rekstur styrktarsjóða nýtist sem best og að ávöxtun þeirra sé góð. Til að draga úr áhættu þarf að huga að góðri eignadreifingu og að ávöxtunarkostir falli að markmiðum sjóðsins, s.s. um tíðni úthlutana og fleira. Starfsfólk Landsbankans hefur mikla reynslu af eignastýringu og veitingu ráðgjafar fyrir styrktarsjóði. Almennt ráðleggjum við að sjóðirnir fjárfesti í blönduðum verðbréfasjóðum, þar sem hugað er að góðri eignadreifingu og hægt er að velja áhættustýringu í samræmi við markmið og fjárfestingartíma. Gott framboð er af blönduðum sjóðum og eru meðal annars í boði sjóðir sem eru með skuldabréf með ábyrgð ríkisins sem stærstu undirliggjandi eign. Verð og þar með ávöxtun á ríkisskuldabréfum getur þó sveiflast og því er mikilvægt að huga að fleiri eignaflokkum til að dreifa áhættu og auka möguleika á ávöxtun.
Landsbankinn býður upp á fjölbreytt úrval sjóða til að fjárfesta í. Hérna má sjá yfirlit yfir þá sjóði:
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 3. febrúar 2022 og var síðast uppfærð 8. mars 2023.