Að­gerð­ir og ár­ang­ur fyr­ir­tækja í sjálf­bærni

Fyrir nokkrum árum þurftu fyrirtæki sem sögðust sinna sjálfbærnimálum iðulega að útskýra hvað fælist í sjálfbærni og hvers vegna þau væru yfirleitt að leggja í þessa vinnu. Nú hefur umræðan breyst og skilningur aukist á mikilvægi þess að atvinnulífið taki fullan þátt í að stuðla að aukinni sjálfbærni og þar með áframhaldandi velsæld mannkyns.
16. september 2024 - Aðalheiður Snæbjarnardóttir

Þótt ákvarðanir og hegðun einstaklinga skipti miklu máli, dugar það ekki til. Til þess að viðunandi árangur náist þurfa fyrirtæki að skilgreina hvar þeirra rekstur hefur mest áhrif til hins betra og hins verra og vinna svo að því að hámarka góðu áhrifin og lágmarka þau slæmu.

Líkt og dr. Halldór Björnsson, einn helsti loftslagssérfræðingur landsins, fór yfir á sjálfbærnidegi Landsbankans [4. september 2024], þá er samt ekki orðið of seint fyrir okkur að bregðast við. En við þurfum að grípa tafarlaust til aðgerða.

Skýr vilji til að gera betur

Til skamms tíma byggðist sjálfbærnivinna fyrirtækja að mestu á leiðbeiningum sem fyrirtækjum var frjálst að fara eftir án nokkurrar skuldbindingar. Nú er þetta að breytast og aukinn þungi hefur færst í innleiðingu sjálfbærniregluverks. Í þessu felst talsverð áskorun fyrir fyrirtæki, líkt og skýrt kom fram á sjálfbærnidegi bankans. Þar fengum við að heyra frá forstjórum fjögurra íslenskra stórfyrirtækja í ólíkum greinum um hvernig þau hafa innleitt sjálfbærni og þær áskoranir sem þau standa frammi fyrir. Þrátt fyrir ýmsar áskoranir var ánægjulegt að heyra hversu miklum árangri fyrirtækin hafa náð og að viljinn til að gera enn betur var skýr. Um leið bentu þessir stjórnendur á viðskiptatækifærin sem fælust í því að innleiða og uppfylla sjálfbærniregluverkið.

Það var til að mynda mjög áhugavert að heyra hvernig Eimskip tókst að draga úr eldsneytisnotkun skipa með því fjölga krönum í höfnum. Þannig er hægt að umskipa hraðar en sigla hægar sem dregur úr olíunotkun og þar með útblæstri. Þá er nú notast við nýja og töluvert dýrari málningu á kjöl skipanna sem dregur úr viðnámi og leiðir aftur til minni eldsneytisnotkunar. Kolefnisspor Festi, sem rekur m.a. N1 og Krónuna, er að stórum hluta vegna sölu á eldsneyti og rauðu kjöti. Lausnin felst ekki í að félagið hætti að selja jarðefnaeldsneyti og rautt kjöt, því þá taka bara aðrir við eftirspurninni, og því stefnir félagið frekar að því að  hraða mögulegri tilfærslu til umhverfisvænni orkugjafa, bjóða upp á góðar staðkvæmdarvörur fyrir rautt kjöt og hjálpa fólki að gera við raftæki eða velja sér orkusparneytin tæki.

Að grípa til aðgerða getur verið erfitt og krefst hugrekkis. Það er til í ríkum mæli hjá Höldi-Bílaleigu Akureyrar sem fjölgaði rafmagnsbílum í flotanum sínum til mikilla muna en hafa nú lent á rauðu ljósi vegna breytinga á reglum hjá stjórnvöldum. Breyttar reglur, skortur á innviðum og hleðslukvíði ferðamanna hefur gert þeim lífið leitt. Í erindinu frá ÞG Verki var líka rakið hvernig misræmi í reglusetningu hefði sett verkefni í sjálfheldu um margra mánaða skeið. Sjálfbærni í byggingariðnaði væri engu að síður raunhæft og verðugt markmið.

Lærum hvert af öðru

Ábendingar um gallað regluverk eða innleiðingu sem gengur óþarflega langt þarf að taka alvarlega en um leið má ekki missa sjónar á því að tilgangurinn er sá að draga úr mengun og tryggja áframhaldandi velsæld mannkyns. Það er alltaf erfitt að byrja á einhverju nýju og mörg fyrirtæki virðast upplifa ákveðinn ómöguleika við innleiðingu málaflokksins. Þessi ómöguleikatilfinning er grunnástæða þess að samvinna er nauðsynleg. Það var einmitt ástæða þess að við í Landsbankanum höldum sjálfbærnidaginn. Tilgangurinn er að búa til vettvang þar sem fyrirtæki geta deilt reynslu sinni og lært hvert af öðru. Sameiginlegir hagsmunir okkar allra eru að veði og því þurfum við öll að stuðla að því að málaflokknum sé vel sinnt.

Greinin birtist fyrst í ViðskiptaMogganum 11. september 2024.

Þú gætir einnig haft áhuga á
Sjálfbærnidagur 2024
5. sept. 2024
Sjálfbærnidagur 2024 – upptökur
Sjálfbærnidagur Landsbankans var haldinn í þriðja sinn miðvikudaginn 4. september 2024 og var afar vel sóttur.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur