Á fundinum fjölluðu stjórnendur fimm íslenskra fyrirtækja um árangur og áskoranir í sjálfbærnimálum og einn helsti loftslagssérfræðingur þjóðarinnar fjallaði um afleiðingar loftslagsbreytinga og nauðsynlegar aðgerðir. Matarframleiðendurnir Livefood og Svepparíkið kynntu vörur sínar og gafst fundargestum kostur á að smakka.
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, setti fundinn og fjallaði um hringrás grænnar fjármögnunar. Hún sagði stóra markmiðið liggja fyrir: Að búa til betri framtíð og takmarka hlýnun jarðar við innan við 1,5 gráður frá iðnbyltingu eins og Parísarsamkomulagið gerir ráð fyrir. Hún ræddi um þá miklu sjálfbærnivinnu sem þegar hefur verið unnin innan bankans, m.a. um að bankinn hafi nú fengið samþykkt vísindalegt markmið í loftslagsmálum, fyrstur íslenskra banka.
Losun bankans tengist nánast að öllu leyti lánastarfsemi, en alls er 99,23% af losun bankans vegna lána- og eignasafnsins. Lilja ræddi um útgáfu á grænum skuldabréfum bankans, sem gengið hefur mjög vel, en að bankinn yrði að tryggja að hann eigi eignir á móti þessum skuldabréfum. Ef eftirspurn eftir grænum skuldabréfum eykst og kjörin lækka, myndi myndast hvati fyrir bankann til að beina útlánum sérstaklega til fyrirtækja eða atvinnuvega sem uppfylla nauðsynleg skilyrði.
Upptaka frá fundinum
Loftslagsbreytingar: Afleiðingar og aðgerðir
Dr. Halldór Björnsson, formaður vísindanefndar um loftslagsbreytingar og fagstjóri á Veðurstofu Íslands, fjallað um afleiðingar loftslagsbreytinga og aðgerðir. Hann benti á að það lægi fyrir að loftslagsbreytingar væru byrjaðar að breyta náttúrufari og lífsskilyrðum fólks á Íslandi með vaxandi áskorunum fyrir efnahag, samfélag og náttúru. Hann nefndi skriðuföllin á Seyðisfirði sem dæmi, en þau hefðu átt sér stað eftir fádæma mikla úrkomu sem hefði slegið öll met og hefði þar að auki fallið sem rigning en hefði venjulega átt að falla sem snjór.
Halldór ræddi um að íslenskt samfélag kunni að vera berskjaldað gagnvart flókinni kerfislægri áhættu af völdum loftslagsbreytinga, s.s. vegna áhrifa á aðfangakeðju íslenskra fyrirtækja, matvælaöryggi, fjármálastarfsemi og fleira. Mikilvægt væri að bregðast hratt við stöðunni. „Það er brýnnar bjartsýni þörf. Verkefnið er leysanlegt en það þarf að prófa allar hugsanlegar lausnir,“ sagði Halldór.
Sjálfbærni í ólgusjó
Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri Eimskips, vék fyrst að árangri af breytingum á siglingakerfi félagsins sem hefðu í senn leitt til minni kostnaðar og dregið úr útblæstri um 8% á milli ársfjórðunga. Breytingarnar byggðu m.a. á því að fjölga krönum í höfnum þannig að hægt væri að lesta og aflesta skipin hraðar sem gæfi svigrúm til að sigla þeim hægar, með tilheyrandi olíusparnaði. Vilhelm benti á að kolefnisspor gámaflutningaskipa væri mun lægra en annarra flutningakosta. Hann nefndi sem dæmi laxeldisfyrirtæki í Færeyjum sem hefði tekist að draga úr útblæstri vegna flutninga um 94% með því að nýta sér flutningakerfi Eimskips til Ameríku í stað þess að sigla með laxinn til Bretlands og láta fljúga með hann þaðan vestur um haf.
Vilhelm ræddi um áskoranir í orkuskiptum og skort á framboði á vistvænu eldsneyti sem hefði áhrif á áform félagsins um fjárfestingar og að stundum hefði regluverk í sjálfbærnimálum, t.d. úr ranni ESB, leitt til meiri útblásturs og kostnaðar fyrir neytendur, þvert á tilætlanir.
Örkynning: Livefood
Fjóla Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Livefood, sagði frá því að þróunarvinnan hafi byrjað árið 2018 og árið 2023 seldu þau fyrstu ostana. Nú eru ostarnir (eða ástarnir eins og þeir nefnast) seldir til stóreldhúsa og veitingastaða í gegnum Garra og eru einnig til sölu í smærri búðum. „Næst á dagskrá eru stóru búðirnar og eftir það eru það bara heimsyfirráð!“ sagði Fjóla.
Sjálfbær framtíð Festi - miklum áskorunum fylgja mikil tækifæri
Ásta Sigríður Fjeldsted, forstjóri Festi, ræddi um áskoranir og tækifæri í sjálfbærninni og um mikilvægi þess að sem flest starfsfólk kæmi að sjálfbærnimálum. Hún ræddi um samsetningu kolefnisspors félagsins sem er að langmestu leyti vegna eldsneytis, enda er félagið umfangsmikið á þeim markaði. Þar á eftir væri losun vegna sölu á rauðu kjöti. Það væri samt engin lausn að Festi hætti að selja eldsneyti, selja rautt kjöt og aðra mengandi vöruflokka, því þá tækju bara aðrir söluaðilar við eftirspurninni. Svo lengi sem eftirspurn væri til staðar væri það frekar hlutverk Festi að t.d. hraða mögulegri tilfærslu til umhverfisvænni orkugjafa, bjóða upp á góðar staðkvæmdarvörur fyrir rautt kjöt og hjálpa fólki að gera við raftæki eða velja sér orkusparneytin tæki. Ásta sagði líka frá því að sama morgun og sjálfbærnidagurinn var haldinn opnaði N1, fyrst eldsneytissala, fyrir sölu á VLO-dísel fyrir almenna neytendur á bensínstöð N1 í Fossvogi. Um væri að ræða 100% lífrænan dísil sem drægi úr kolefnislosun um allt að 90%.
Hún lauk erindi sínu með hvatningu til allra um að gera betur. „Þetta er áskorun en þessum verkefnum fylgja fjölmörg tækifæri,“ sagði Ásta. „Við erum ekki í þessu til að tikka í box. Við erum í þessu því við ætlum að skila auknum verðmætum til lengri tíma, með breyttum áherslum, bæði fyrir neytendur en líka fyrir fjárfesta. En fyrst og fremst fyrir framtíð okkar og barnanna okkar og annarra.“
Er sjálfbærni í byggingariðnaði raunhæft markmið?
Þorvaldur H. Gissurarson, forstjóri og eigandi ÞG Verks, ræddi ítarlega um sjálfbærni í starfsemi fyrirtækisins. Ábyrg sjálfbærnistefna væri afar jákvæð og það væri aðalatriði málsins. Hann ræddi einnig um að sjálfbærnimarkmið sem leidd væru í lög og reglur gætu leitt af sér hærri byggingarkostnað og hækkun íbúðaverðs. Upplifun ÞG Verk væri að undirbúningur stjórnvalda við reglusetningu virtist oft lítill sem enginn, viðmiðunargildi væru almennt ekki staðfærð og reglur ekki aðlagaðar að íslenskum aðstæðum.
Þorvaldur tók dæmi af reglum um mengun í jarðvegi, sem vissulega bæri að taka alvarlega, en gerði athugasemdir við regluverkið. Hann tók nýlegt dæmi úr fjölbýlisverkefni hjá ÞG Verki þar sem viðmið um náttúruleg snefilefni í jarðvegi væru tekin beint upp úr reglugerð frá Hollandi, án staðfæringar að náttúrulegu efnainnihaldi í jarðvegi á Íslandi. Í umræddu tilviki voru gildin örlítið yfir mörkum fyrir íbúðasvæði og þá þurfti að fjarlægja jarðveginn. „En þá vill svo furðulega vill til, að samtímis og búið er að setja kröfur um að það þurfi að fjarlægja jarðveginn, eru á sama tíma settar aðrar kröfur sem banna að fjarlægja jarðveginn. Afleiðingin er margra mánaða píslarganga milli stofnana, tafir og gríðarlegur aukinn kostnaður,“ sagði Þorvaldur. Sjálfbærni í byggingariðnaði sagði hann vera raunhæft og verðugt markmið en að nauðsynlegt væri fyrir stjórnvöld að eiga samtal og samstarf við framkvæmdaaðila um innleiðingu regluverks. „Við erum öll saman í liði og stefnum að sama marki – gerum þetta saman,“ sagði Þorvaldur.
Örkynning: Svepparíkið
Þær Unnur Kolka Leifsdóttir og Nílsína Larsen Einarsdóttir kynntu starfsemi og framleiðslu Svepparíkisins en þær hafa frá árinu 2020 unnið að þróun nýrra aðferða við rækun sælkerasveppa. Þær sögðu frá því að Svepparíkið hafi hannað sjö þrepa svepparæktunarkerfi sem tekur við efni sem er alla jafna talið vera úrgangur og umbreytir því, með sveppatækni, í verðmætar frumafurðir – ekki síst sveppi – án þess að nokkuð fari til spillis. Kóngaostrusveppir þeirra fást nú í öllum verslunum Hagkaupa, Melabúðinni og í Bónus Skeifunni, Holtagörðum og Smáratorgi.
Orkuskipti í mótvindi
Steingrímur Birgisson, forstjóri Hölds - Bílaleigu Akureyrar, sagði enga launung á því að þegar kæmi að orkuskiptunum liði þeim hjá Höldi svolítið eins og þau væru í bíl á rauðu ljósi í stórhríð. „Við erum stopp og komumst hvorki lönd né strönd. Ég treysti því hins vegar að eins og venjulega þá birtir öll él upp um síðir og græna ljósið komi upp,“ sagði hann. Grunnþættir sjálfbærni hefðu alltaf verði fyrirtækinu hugleiknir og félagið hefði frá upphafi hugað að ábyrgð í rekstri og umhyggju fyrir náttúru og starfsfólki. Félagið hefði náð miklum árangri á ýmsum sviðum, m.a. í endurnýtingu hjólbarða.
Steingrímur benti á að félagið hafi verið í fararbroddi við að bjóða rafmagnsbíla til leigu. Frá árinu 2014 hefði Bílaleiga Akureyrar keypt mikið af rafmagnsbílum. Um síðustu áramót átti félagið alls 800 rafmagnsbíla, um 10% af flotanum og stefndi að því að fjölga þeim enn frekar. „En breytingar hjá hinu opinbera á skattlagningu bílanna, bæði kílómetragjaldið sem var lagt á um áramótin og afnám virðisaukaskattsívilnunar við útleigu, þýddu það að það varð algjört hrun í eftirspurninni. Og þetta er bara vegna aðgerða stjórnvalda,“ sagði hann. Við bættist að margir viðskiptavinir væru haldnir hleðslukvíða eða þekktu ekki til rafbíla og tækju því bensín- eða dísilbíla fram yfir rafmagnsbíla. Steingrímur sagði að síbreytilegt rekstrarumhverfi og mikill ófyrirsjáanleiki í aðgerðum hins opinbera væri langstærsta og mesta áskorunin í rekstri félagsins. „Bílaleiga Akureyrar er og vill vera virkur þátttakandi í orkuskiptunum. En það er afskaplega þreytandi að slást í sífellu við hið opinbera.“