Í stað þess að gefa út ársskýrslur gefa nú mörg fyrirtæki út árs- og sjálfbærniskýrslur þar sem ekki er látið duga að fjalla um hvernig reksturinn gekk í fyrra, tekjur og gjöld, arðsemi og eigið fé, heldur er þar að finna upplýsingar um hvaða áhrif reksturinn hefur á umhverfið, ekki síst hvaða áhrif reksturinn hefur á loftslagið.
Samræmdar reglur um sjálfbærniupplýsingar hafa ekki verið innleiddar
Birting sjálfbærniupplýsinga hefur verið algjörlega valkvæð fyrir smærri og meðalstór fyrirtæki. Þau fyrirtæki sem flokkast sem stór fyrirtæki í skilningi ársreikningalaga eru á hinn bóginn skuldbundin til að birta sjálfbærniupplýsingar í skýrslu stjórnar í ársreikningi og gilda um þær ákvæði um birtingu ófjárhagslegra upplýsinga. Leiðbeiningar um birtingu ófjárhagslegra upplýsinga eru á þó ekki sérlega ítarlegar og því geta fyrirtæki notað ýmsar og mismunandi aðferðir við að birta sjálfbærniupplýsingar, jafnvel þó þau uppfylli öll sömu reglurnar. Ein af afleiðingum þess er að erfitt er að bera fyrirtæki saman og átta sig á raunverulegum áhrifum þeirra á sjálfbæra þróun.
Mikilvægisgreining sjálfbærniupplýsinga
Eitt það mikilvægasta við sjálfbærniupplýsingagjöf er að fyrirtæki átti sig á því hvað skipti máli fyrir rekstur þeirra, þ.e.a.s. hvaða þættir í þeirra starfsemi eru mikilvægastir með tilliti til sjálfbærrar þróunar. Hvar hafa fyrirtækin mestu áhrifin? Hjá flutningafyrirtæki gætu t.d. mestu áhrifin komið fram í útblæstri bílaflotans. Næsta skref væri síðan að finna leiðir til að draga úr þessum útblæstri.
Til þess að sjálfbærniupplýsingagjöf sé gagnleg þá þarf hún að vera traust, gagnsæ og miðla upplýsingum um þau málefni sem teljast mikilvæg fyrir rekstur viðkomandi fyrirtækis. Ef upplýsingagjöfin uppfyllir ekki þessar kröfur þá þjónar hún ekki hlutverki sínu.
Þar sem regluverk hefur verið eftirbátur fyrirtækjaframtaks hvað varðar miðlun sjálfbærniupplýsinga hafa sprottið upp aðrir og valkvæðir staðlar sem fyrirtæki geta notað. Dæmi um það eru GRI-viðmiðin (e. Global Reporting Initiative) sem hafa verið við lýði frá árinu 2000. Ýmsar uppfærslur hafa komið á GRI-viðmiðunum á þessum tíma og er nýjasta útgáfan með mjög skýrum leiðbeiningum um hvernig skuli standa að því að greina hvaða þættir í starfsemi fyrirtækjanna eru mikilvægastir. Hluti af GRI-viðmiðunum eru GRI-vísarnir sem fela í sér nákvæmar leiðbeiningar um hvernig skuli miðla upplýsingum sem teljast mikilvægar. Þetta eru upplýsingar sem snerta á umhverfismálum, félagslegum þáttum og stjórnarháttum fyrirtækja, þ.m.t. loftslagsbókhald þeirra. Kosturinn við þessar nákvæmu leiðbeiningar sem fylgja GRI-viðmiðunum er að þær bjóða upp á að hægt sé að endurskoða sjálfbærniupplýsingar fyrirtækja af sömu nákvæmni og fjárhagsupplýsingar þeirra með aðferðum endurskoðenda.
Fyrirtæki eru misvel í stakk búin til að fara í vandaða greiningu á mikilvægisþáttum og miðla svo sjálfbærniupplýsingum á svo ítarlegan hátt, sérstaklega á meðan ekki er gerð krafa um það af hálfu opinberra aðila.
Strangari reglur á leiðinni
Kröfurnar eru þó að breytast og það hratt. Evrópusambandið hefur sett reglur sem munu einnig taka gildi í EES-ríkjum sem eru mun strangari hvað varðar miðlun og endurskoðun sjálfbærniupplýsinga. Það yrði of langt mál að telja upp allt sem er á leiðinni en reglugerðin CSRD (e. Corporate Sustainability Reporting Directive) mun ná yfir öll fyrirtæki sem þurfa að skila ófjárhagslegum upplýsingagum í ársreikningum sínum í dag. Það má gera ráð fyrir að þær kröfur smiti svo út frá þeim fyrirtækjum og niður virðiskeðjuna til smærri fyrirtækja. Þess verður því ekki langt að bíða að sjálfbærniupplýsingar verði jafn mikilvægar og fjárhagslegar upplýsingar.
Landsbankinn hefur birt upplýsingar um áhrif sín á sjálfbærni samkvæmt viðmiðum GRI frá árinu 2012. Nýjasta skýrslan var birt samhliða ársuppgjöri bankans 2. febrúar síðastliðinn. Í ár var skýrslan í fyrsta sinn endurskoðuð af óháðum endurskoðendum og þannig fór bankinn fram úr kröfum markaðarins um staðfestingu sjálfbærniupplýsinga.
Höfundur er sjálfbærnistjóri Landsbankans.
Greinin birtist fyrst í ViðskiptaMogganum 15. febrúar 2023.