Snjóhengjan sem verður vonandi að skafli
Þegar tímabili fastra vaxta lýkur færast íbúðalán á breytilega vexti, ef ekkert er að gert. Þetta þýðir að greiðslubyrðin hækkar verulega. Sem dæmi má nefna að greiðslubyrði af 30 milljóna íbúðaláni til 20 ára sem var á 4,25% föstum vöxtum og fer í 10,75% vexti, hækkar úr um 186 þúsundum í um 290 þúsund á mánuði. Þessi mikla hækkun greiðslubyrðar hefur verið kölluð snjóhengjan. Umræða um snjóhengjuna komst í hámæli fyrir um ári síðan og varð svo römm að margir lántakar fylltust kvíða og angist yfir því sem koma skyldi.
Það er mikilvægt að halda því til haga að ítarleg greining á lánasafni bankans bendir til þess að allar líkur séu á að langflestir lántakar muni komast í gegnum þennan skafl. Ástæðurnar fyrir því eru nokkrar. Margir nýttu séreignarsparnað til að greiða inn á íbúðalánin sín og hafa þannig lækkað höfuðstólinn. Þá stóðust flestir lántakar greiðslumat við lántöku með miklum sóma og hafa því gott svigrúm til að takast á við hærri greiðslubyrði. Auk þess ber að nefna að þrátt fyrir viðvarandi verðbólgu hefur kaupmáttur launa aukist um tæplega 2% á síðustu þremur árum.
Hærri greiðslubyrði vegna loka tímabils lágra fastra nafnvaxta mun engu að síður hafa mikil áhrif á marga. Þá er gott að hafa í huga að það eru ýmsar leiðir til að takast á við breyttar aðstæður.
Sumir þurfa sem lægsta greiðslubyrði
Með endurfjármögnun er hægt að lækka greiðslubyrðina, oftast verulega, og breyta umræddri snjóhengju í viðráðanlegan skafl. Þetta eru leiðir sem felast t.d. í því að sameina grunnlán og viðbótarlán og fá þannig lægri vexti og greiðslubyrði. Lenging lánstíma er önnur leið til að lækka greiðslubyrði og síðast en ekki síst má breyta í verðtryggt lán, að hluta eða að fullu.
Umræðan um verðtryggð lán hefur verið neikvæð. Staðreyndin er sú að mörg heimili hafa ekki svigrúm til annars en að leita eftir lægstri mögulegri greiðslubyrði. Hún næst með verðtryggðu láni til langs tíma. Það eru ekki bara greiðslur af lánunum sem eru að hækka í verðbólgunni, heldur hreinlega næstum allt, t.d. opinber gjöld, verð á matvörum og öðrum nauðsynjum. Ef valið stendur á milli þess að eiga öruggt þak yfir höfuðið og lifa sómasamlegu lífi eða þess að vera á tæpasta vaði í heimilisbókhaldinu, er ekki hægt að lá neinum að velja lægstu mögulega greiðslubyrðina með verðtryggðu láni. Þegar hagurinn vænkast á ný er hægt að skipta aftur yfir í óverðtryggt íbúðalán.
Í Landsbankanum hefur verið unnið að því að auðvelda fólki að endurfjármagna íbúðalánin sín og það hefur aldrei verið þægilegra og einfaldara. Í Landsbankaappinu og á www.landsbankinn.is geta allir, alveg sama hvar þeir eru með íbúðalánin sín, skoðað stöðuna, metið ólíka möguleika sem standa til boða og sótt um endurfjármögnun. Hægt er að gera þetta hvenær sem er, hvort sem er heima í stofu eða með því að panta tíma hjá ráðgjöfum í útibúum bankans um allt land sem eru boðnir og búnir að leiðbeina og aðstoða viðskiptavini í ferlinu.
Það væri til enn meiri þæginda og einföldunar ef frumvarp til laga um rafrænar skuldaviðurkenningar, sem myndi gera það að verkum að hægt væri að klára málin alfarið á netinu, næði fram að ganga á Alþingi. Þá yrði jafnræði og þægindi allra landsmanna tryggt óháð búsetu og annríki á sýslumannsembættum. Öll kerfi Landsbankans eru tilbúin.
Greinin birtist fyrst í ViðskiptaMogganum 12. júní 2024.