Listin sem rólegur þátttakandi í lífinu
Stúdíóið hans Stefáns er við ylströndina í Nauthólsvík, með útsýni yfir spegilsléttan Skerjafjörðinn. Fyrir utan stúdíóið er verið að kynda upp í saunu, sólin speglast á sjónum og þunnt lag af snjó gerir bílastæðið flughált. Inni er verið að hella upp á kaffi. Á veggjunum hefur Stebbi nú þegar hengt upp átta vatnslitamyndir sem hann málaði fyrir dagatal Landsbankans, þar sem hver og ein stendur fyrir hversdagslega birtingarmynd vatnsins í lífi okkar hér á Íslandi. Hann málaði myndirnar eftir ljósmyndum sem hann hefur í fórum sínum, og var því fyrsta skrefið í hverju verki að velja rétta ljósmynd.
„Myndefnið þarf að hafa eitthvað áhugavert element, hvort sem það er birtan, uppstillingin eða viðfangsefnið, og ég vel mér oft atriði til að ýkja – til að kalla fram rétta tilfinningu. En það er alltaf einhver afslöppun sem mér þykir mikilvæg. Svo þarf þetta bara að vera nógu nálægt frummyndinni, en það má alveg plata sko.“
Stefán Óli Baldursson í stúdíóinu sínu.
Veggmyndir, stór ólíumálverk og húðflúr
Af fyrri verkum Stebba eru þau þekktustu eflaust stórar veggmyndir (e. mural) sem hann hefur málað víðsvegar um landið – hvort sem það er til að brjóta upp grátt yfirlit iðnaðarhafnar eða skreyta nú þegar fagra götumynd. Einnig málar hann mikið af stórum olíuverkum og hefur tekið að sér að húðflúra á fólk. Hann setur sér engin mörk þegar kemur að efnivið, og það eru oft tilfallandi aðstæður sem ráða því hvaða form verkin taka. Í ljósi þess að þema dagatalsins er vatnið lá beinast við að nota vatnsliti til að mála verkin.
„Teikningarnar og málverkin sem ég hef gert, ég myndi segja að það væri langmest eitthvað sem ég hef lært sjálfur af reynslunni. Ég hef til dæmis aldrei unnið svona mikið með vatnslitum áður, fyrir utan fjórar myndir sem ég málaði fyrir sýningu á Asóreyjum. Og ástæðan fyrir því að ég málaði vatnslitamyndir þar var að það er svo auðvelt að ferðast með vatnslitasett. Svo það var frekar random, en meikaði auðvitað sens.“
Það einkennir Stefán sem listamann hversu listilega hann fetar veginn á milli óreiðu og yfirvegunar, þar sem eldmóður mætir nánd og aðdráttaraflið verður til í verkunum. Þann eiginleika má útvíkka og nota til að skoða viðfangsefni listaverka hans – þar sem hann er tekur fyrir hversdagsleg augnablik annars vegar, þar sem áhorfandi upplifir sig hafa smellt af mynd í kunnuglegri senu, og hins vegar stórfenglega víðáttu í náttúrumyndum sínum, þar sem áhorfandi sogast inn í strigann.
Annar fílingur í prentuðu dagatali en innrömmuðu málverki
„Það er mikið í hverja mynd lagt, og áhugavert að vinna þær fyrir þetta hversdagslega snið. Það er allt annar fílingur í því, á þessu prentaða dóti og svo upprunalegu verkunum. Þú veist, því þetta eru bæði innrömmuð verk sem verða hengd upp á vegg, og svo myndir í dagatali sem fólk fær í pósti. Mér finnst það líka áhugavert, svona því list er farin að færa sig yfir á netið svo mikið, þar sem við sjáum hana hratt og stutt. Það er allt öðruvísi að eiga listaverk sem hangir upp á vegg og maður getur notið á hverjum degi og myndað tengsl við. Og ég tala nú ekki um þegar það er komið á dagatal á skrifborðið hjá þér, og þú deilir einum mánuði með hverri mynd. Þá verður listin einhvern veginn rólegur þátttakandi í lífi manns. Og það var mikill heiður að fá að taka það verkefni að sér.“
Allt er klúður þangað til það verður nógu gott
Aðspurður hvað honum fannst mesta áskorunin við verkefnið segist Stefán læra eitthvað hverju sinni og það sama hafi verið uppi á teningnum í þessu verkefni.
„Ég var náttúrulega bara að mála myndir, og það er frekar einfalt í sjálfu sér. Kannski var mesta vinnan að ákveða hvaða myndir við ætluðum að hafa í dagatalinu. En auðvitað á sér alltaf stað ákveðið ferli. Maður hefst handa og hugsar: Hvað er ég nú búinn að gera? – þar til það bara smellur. Allt er klúður þangað til það verður nógu gott. Og maður bara reynir að vanda sig. Ég á mjög erfitt með að láta eitthvað frá mér sem ég er ekki sáttur við. Og ég á erfitt með að vera sáttur. Svo ég þarf eiginlega alltaf að spyrja einhvern annan hvort þetta sé ekki bara komið.“
Janúar
Febrúar
Mars
Apríl
Maí
Júní
Júlí
Ágúst
September
Október
Nóvember
Desember