Öðruvísi íþróttir er atriði tveggja nátengdra félaga sem eiga það sameiginlegt að vera félagsskapur alls konar fólks sem hefur áhuga á íþróttum sem seint myndu teljast hefðbundnar: Geislasverðafélaginu annars vegar og Reykjavík HEMA hins vegar, þar sem skylmingar með riddarabúnaði eru stundaðar.
Í báðum félögunum eru margir hinsegin einstaklingar og segir Smári Þór Baldursson, tengiliður atriðisins, að margir úr hinsegin samfélaginu samsami sig með þeim sem ekki finna sig í hefðbundnum íþróttum.
„Okkur fannst mikilvægt að sýna fram á að það eru til öðruvísi íþróttir, fyrir öðruvísi fólk. Hver þú ert á ekki að stöðva þig í að finna hreyfingu þér við hæfi fyrir þína líkamlegu og andlegu heilsu.“
Hann segir enn frekar að í báðum íþróttum felist mikil hreyfing og þrek. Hjá HEMA er keppt eftir stigakerfi en riddaraskylmingar eru alþjóðleg keppnisíþrótt þar sem sverðið er um 10 kílóa þungt. Þá er hægt að keppa með geislasverðum eftir sama stigakerfi. „Svo er hin hliðin á geislasverðunum að við búum til kóreógrafíur,“ segir hann. „Þetta er eiginlega samblanda af leiklist og skylmingum.“
Bæði félög hafa aðstöðu hjá Skylmingafélagi Reykjavíkur á Laugardalsvelli þar sem HEMA hefur verið í nokkur ár. Geislasverðafélagið er aðeins eins árs.
Smári segir að margir þátttakendur séu í báðum félögum enda hafi þau flest áhuga á ýmiskonar skylmingum. Hann er sjálfur mikill geislasverðamaður en spurður að því hvað sé áhugavert við geislasverðin segir hann að þetta eigi allt rætur sínar að rekja til Stjörnustríðsmyndanna (e. Star Wars). „Það er satt sem sagt er um karlmenn - það eina sem breytist með aldrinum er hversu dýr leikföngin verða,“ segir hann í gríni.
Smári segir sannarlega vera vöntun á öðruvísi íþróttum.
„Við höfum stundum verið með æfingar úti. Viðbrögð fólks eru alveg tvískipt. Annað hvort er fólk spennt og vill helst fá að prófa eða það lítur okkur hornauga. Það vantar að sýna fólki að það sem þú hefur gaman af er í fínu lagi þó að aðrir fussi og sveii yfir því.“
Hann segist sjálfur hafa upplifað fordóma þegar hann æfði hefðbundnar íþróttir á yngri árum en í aldrei í öðruvísi íþróttum. Þangað séu hreinlega allir velkomnir.
Styrkurinn úr Gleðigöngupottinum nýtist hópnum fyrst og fremst til að kaupa fána og aðra leik- og skrautmuni fyrir atriðið á laugardaginn.
Myndirnar sem fylgja greininni tók Bjarki Jóhannsson.