Gleðigangan er tækifæri til að koma saman í almannarými sem hinsegin fólk upplifir oft sem sniðið að gagnkynhneigðum og cis-fólki* að öllum normunum sem þeir sem eru hinsegin þykja oft brjóta í bága við. Það er mjög áhrifamikið að finna þessa samkennd og að við erum ekki ein heldur mörg - mjög mörg - og að við erum alls konar,“ segir María Helga.
Ótrúlegt hve margt hefur breyst
Samtökin '78 eru fjörutíu ára í ár. María Helga segist enn vera að læra um það hvernig skilyrði hinsegin fólks voru á Íslandi hér áður fyrr og segir það ótrúlegt hve mikið hefur breyst. „Á sumum sviðum höfum við náð mjög miklum árangri. Þá á ég sérstaklega við fjölskylduréttindi: réttindi til hjúskapar, réttinn til að eiga og ala upp börn, og þar fram eftir götunum. En svo eru önnur svið þar sem við erum komin skemmra á veg. Þá er ég t.d. að hugsa um málefni trans- og intersexfólks og um réttinn til að taka sjálfstæða ákvörðun um hvernig maður er skráður eftir kyni.“
Annað sem María Helga vill vekja athygli á eru málefni eldra hinsegin fólks. „Þess eru mörg dæmi að eldra hinsegin fólk missi tengslin við samfélagið og hverfi jafnvel aftur inn í skápinn á sínum efri árum vegna þess að það finnur sér ekki samastað og upplifir ekki öryggi í þjóðfélaginu. Ég held það sé sérstaklega mikilvægt að við stöldrum við og hugsum um þetta núna.“
Gleðigangan er hápunktur Hinsegin daga. Hún hefur verið farin allt frá árinu 2000 þegar 5.000 manns fylktu liði niður Laugaveg til að ganga fyrir mannréttindum hinsegin fólks og staðfesta tilvist sína með því að vera sýnileg.
Viðhorfin „virkilega fjandsamleg“
Gunnlaugur Bragi Björnsson er formaður Hinsegin daga. Hann á von á því að stórafmæli Samtakanna '78 verði áberandi í Gleðigöngu ársins þótt hann segi að erfitt sé að spá um það. „Gangan endurspeglar oft það sem er í umræðunni hverju sinni. Þegar mannréttindabrotin í Rússlandi voru fyrst að koma upp á yfirborðið fyrir nokkrum árum þá var það t.d. fyrirferðarmikið í göngunni. Annars er það bara tískan og tíðarandinn sem hefur áhrif á hvað gangan er síbreytileg og skemmtileg. Þetta er alltaf góð blanda af pólitískum skilaboðum og fölskvalausri gleði. Við viljum allavega ekki að gleðin gleymist - í gleðigöngu.“
Gunnlaugur segir Samtökin '78 hafa haft mikil áhrif á allt hinsegin fólk á Íslandi því það voru þau sem opnuðu umræðuna þegar viðhorf gegn samkynhneigð hérlendis var „virkilega fjandsamlegt“ eins og hann orðar það. „Fyrir fjörutíu árum síðan voru íslenskir hommar og lesbíur flóttafólk í Kaupmannahöfn þar sem viðhorf voru örlítið vinsamlegri. Í dag er staðan hins vegar sú að hinsegin fólk héðan og þaðan úr heiminum leitar verndar hjá okkur. Því miður er þetta fólk í sumum tilfellum sent aftur til baka í mjög ótryggar aðstæður og jafnvel út í opinn dauðann. Í ljósi sögunnar er það mjög sárt og við megum standa okkur miklu betur í stuðningi við hinsegin hælisleitendur.“
Baráttugleðin ofsalega mikilvæg
Þema Hinsegin daga í ár er „baráttugleði“. „Mér finnst það einstaklega viðeigandi og mikilvægt orð til að hafa í huga,“ segir María Helga. „Það tekur á að berjast fyrir réttindum sínum. Það er ekki auðvelt í dag og hefur alls ekki verið auðvelt áður. Að geta fundið gleði, fögnuð og drifkraft í baráttunni er ofsalega mikilvægt svo það sé hægt að halda henni áfram. Því henni er ekki lokið fyrr en við erum öll frjáls. Fyrr en við getum öll verið algjörlega örugg meðal annars fólks, hvort sem það er í gleðigöngunni, í sundlaug, í skólastofu eða á vinnustað eða í fjölskyldulífinu.“
*„Cis“ er notað um einstaklinga þar sem líffræðilegt kyn og kyngervi fara saman og er andstæða orðsins „trans“.