Kom­um hreyf­ingu á hlut­ina - fjár­mögn­un og upp­bygg­ing inn­viða

Fundur Landsbankans og Samtaka iðnaðarins um fjármögnun og uppbyggingu innviða var haldinn í Norðurljósasal Hörpu 13. mars 2025. Fjallað var um reynslu Færeyinga af gerð fjögurra neðansjávarganga, reynsluna af Hvalfjarðargöngunum, möguleika á alþjóðlegri fjármögnun og ástand vegakerfisins og annarra innviða. Fundinum lauk síðan með fjörlegum pallborðsumræðum.
Áheyrendasalur
14. mars 2025

Um 200 manns sóttu vel heppnaðan morgunfund sem Landsbankinn og Samtök iðnaðarins héldu um fjármögnun og uppbyggingu innviða í Norðurljósasal Hörpu 13. mars 2025. Fjallað var um reynslu Færeyinga af gerð fjögurra neðansjávarganga, reynsluna af Hvalfjarðargöngunum, möguleika á alþjóðlegri fjármögnun og ástand vegakerfisins og annarra innviða. Fundinum lauk síðan með fjörlegum pallborðsumræðum.

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, setti fundinn og rakti hvað hefði orðið til þess að bankinn boðaði til hans. „Í stuttu máli sagt, þá viljum við hefjast handa og við viljum koma hlutunum á hreyfingu. Við sem hér sitjum höfum verið að tala um sömu verkefnin í áratugi,“ sagði hún. Samfélagið væri að stækka, hingað kæmi vaxandi fjöldi ferðamanna og mörg tækifæri myndast í nýjum atvinnugreinum. „Við sjáum berlega að við verðum að gera betur til að styðja við farsæla framtíð Íslands.“

Mikilvægast að ákveða að byrja

Lilja Björk Einarsdóttir

Lilja sagði innblásturinn fyrir fundinum hafa verið árangur Færeyinga en þar hafa tvö neðansjávargöng verið fjármögnuð af einkaaðilum, líkt og gert var með Hvalfjarðargöngin á sínum tíma. Hún vitnaði til nýrrar bókar um þau, Undir kelduna eftir Atla Rúnar Halldórsson, og spurði hvað hafi orðið um þann lærdóm og reynslu sem mætti draga af gerð þeirra.

Lilja nefndi fimm meginþætti sem þyrftu að vera til staðar til að hægt væri að ráðast í innviðaverkefni í samvinnu einkaaðila og hins opinbera. Í fyrsta lagi þyrfti að hafa góða fjármálaráðgjafa til að stilla verkefninu upp í heild. Í öðru lagi þyrfti lágmarks eiginfjárfjárfestingu, líkt og t.d. í tilfelli Spalar og Hvalfjarðarganganna, en þá lagði ríkið fram lítið eigið fé. Í þriðja lagi þyrfti að tryggja fjármögnun á framkvæmdatíma og þar gætu bankar og fjármálafyrirtæki lagt sitt af mörkum. Í fjórða lagi þyrfti sérhæfða langtímafjárfesta í verkefnið, annað hvort til að vera með frá upphafi eða taka við af framkvæmdafjármögnun. Lánið væri síðan hægt að endurgreiða með einhverskonar blöndu af notkunargjöldum og framlögum ríkis og sveitarfélaga. Í fimmta lagi þyrfti að gera áætlun um hvernig verkefninu myndi ljúka. Hvað gerist þegar langtímafjármögnun hefur verið greidd? Hver mun eiga verkefnið eða félagið utan um verkefnið, hvernig á að taka gjöld inn í framtíðina, hver ber ábyrgð á viðhaldi og framkvæmdum næstu áratugi? „Mikilvægast af öllu er þó að taka ákvörðun um að byrja. Það þarf að búa til þetta samtal á milli ólíkra aðila og vonandi verður þessi fundur til þess að koma hreyfingu á hlutina.“

Eiginlega galið stórt verkefni

Teitur Samuelsen

Erindi Teits Samuelsen, forstjóra Austureyjar- og Sandeyjarganganna í Færeyjum, var sérstaklega fróðlegt og athyglisvert. Göngin tvö eru engin smásmíði og um var að ræða langstærsta verkefni sem Færeyingar hafa ráðist í. Austureyjargöngin eru 11,2 km og Sandeyjargöngin eru 10,8 km. „Það er eiginlega galið hvað þetta var stórt verkefni, ef við miðum við mannfjölda og efnahag Færeyja,“ sagði Teitur en til upprifjunar benti hann á að eyjarnar væru 18 talsins og íbúafjöldi um 54.000.

Gangafélagið er að fullu í eigu færeysku landsstjórnarinnar sem lagði hlutaféð, 400 milljónir danskra króna, inn í félagið á árunum 2014-2024. Að auki hefði landsstjórnin tekið á sig að tryggja tilteknar lágmarkstekjur vegna umferðar um göngin. Teitur sagði að miklu hefði skipt að allir flokkar á lögþinginu hefðu verið sammála um að ráðast í verkefnið.

Teitur benti á að miðað við höfðatölu og landsframleiðslu hefði fjárfestingin í göngunum verið margföld á við stórar innviðafjárfestingar annarra þjóða. Þá hefði eiginfjárframlagið verið tiltölulega lágt, eða um 19%, og verktíminn langur, eða um sjö ár. Það hefði verið algjört grundvallaratriði að draga sem mest úr áhættu við verkefnið. Helsti áhættuþátturinn í verkefninu hefði verið fjármögnunin og vaxtabreytingar, en Teitur benti á að 1% vaxtahækkun hefði falið í sér meiri áhættu en sem nam allri áhættu á framkvæmdatíma. Það hefði því skipt miklu máli að tekist hefði að semja um fasta vexti sem verða 2,73% út lánstímann, þ.e. til ársins 2040. Þá hefði fjármögnunin bæði tekið til framkvæmda- og rekstrartímans og því var ekki um neina áhættu að ræða við endurfjármögnun. „Það hafa margir spurt um gengisáhættu, en færeyska krónan er tengd við þá dönsku sem eru síðan tengd við evru, þannig að ekki var um slíka áhættu að ræða,“ sagði Teitur.

Gangagerðin tókst vel. Kostnaðaráætlun stóðst og göngin opnuðu á tilsettum tíma - raunar voru Austureyjargöngin opnuð sex mánuðum á undan áætlun. Áætlanir um umferð hafa sömuleiðis staðist. Framlag landssjóðs vegna tryggingar um lágmarkstekjur eða lágmarksumferð hefði verið í samræmi við áætlanir en hefði minnkað jafnt og þétt, samhliða aukinni umferð um göngin, og mögulega þyrfti ekkert framlag frá landsstjórninni á þessu ári.

Teitur sagði að göngin hefðu verið mikil lyftistöng fyrir Færeyjar. Sandeyjargöngin hefðu t.a.m. leitt til þess að mikil uppbygging ætti sér nú stað í Sandey og mannfjöldi væri að aukast. „Göngin hafa verið góð fyrir eyjuna,“ sagði hann. „Göngin hafa stækkað okkar litlu eyjar“.

Kynning Teits

Fjárfesting í innviðum skilar sér til samfélaganna

Þegar Teitur hafði lokið máli sínu ræddi Lilja við hann og Kashif Khan hjá Metlife Investment Management í Bretlandi um fjármögnun á innviðaframkvæmdum. Metlife er mjög umfangsmikið á þessu sviði og Kashif, sem forstöðumaður í almennum útlánum hjá Metlife, hefur mikla reynslu af fjármögnun af þessum toga.

Kashif sagði Metlife mjög áhugasamt um innviðaframkvæmdir, m.a. vegna þess að þær kæmu samfélögum vel og reynslan sýndi að fjárfestingar í innviðum skiluðu sér í auknum efnahagslegum umsvifum og betri samfélagslegum aðstæðum. Þá væru þær mjög góð langtímafjárfesting. Verkefnin sem Metlife kæmi að væru ólík og af ýmsum toga og nefndi hann m.a. að Metlife hefði veitt Landsvirkjun lán. Kjörin væru líka misjöfn og tækju mið af áhættu í hverju tilfelli fyrir sig. Metlife væri á hinn bóginn meðvitað um að innviðir mættu ekki vera of dýrir og enginn væri að ætlast að fá óeðlilega háa vexti af fjárfestingunni. Kashif sagði aðkomu innlendra fjárfesta að verkefnum mikilvæga og þá skipti líka máli hvort stjórnvöld væru einhuga um verkefnið.

Aðspurður um hvers konar verkefni hefðu gengið einna best og hvað skyldi helst forðast, sagði Kashif að hann hefði séð nokkur dæmi um verkefni sem hefðu lent í vandræðum við endurfjármögnun. Vaxtastigið væri sífellt á hreyfingu og því væri ávallt áhætta falin í endurfjármögnun. Almennt hefðu innviðaverkefni þó gengið vel.

Lilja spurði líka um fílinn í herberginu, það er að segja gjaldeyrisáhættuna á Íslandi. Kashif sagði að Metlife hefði tekist á við áhættu af þeim toga. Kashif sagði að í tilfelli Færeyja, þá væri krónan tengd við aðra gjaldmiðla og því hefði málið verið einfaldara. „Þetta er mikilvægt atriði og við verðum að hafa það í huga við verðlagninguna,“ sagði hann. Hægt væri að notast við gjaldeyrisvarnir og það kæmi vel til greina að vinna með innlendum aðilum til að draga úr áhættunni.

Færum framkvæmdir framar í tíma og spörum fé

Ingólfur Bender

Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins, ræddi í sínu erindi um ástand og framtíðarhorfur innviða og byggði erindi sitt á nýlegri skýrslu SI og Félags ráðgjafarverkfræðinga. Hann beindi sjónum sínum sérstaklega að vegakerfinu. „Vegakerfið er okkur mjög mikilvægt sem þjóð. Það tengir saman byggðir landsins. Við notum það til að flytja fólk og vörur og það er forsenda fyrir verðmætasköpun í landinu,“ sagði hann. Í skýrslunni kemur fram að ástand vegakerfisins er ekki gott og fjárfesting í vegakerfinu hefur ekki vaxið í takti við hagvöxt, mannfjölgun og umferð. Ingólfur sagði mikilvægt að auka fjárframlög til vegakerfisins. Rétt væri að nýta kosti samstarfsverkefna á milli einkaaðila og hins opinbera. Þannig væri hægt að færa verkefni framar í tíma og lækka kostnað.

Ingólfur benti á að árið 2020 var samþykkt samgönguáætlun fyrir árin 2020-2034. Lagt var upp með metnaðarfull markmið um uppbyggingu vegasamgangna, m.a. með samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins og uppbyggingu innviða í gegnum samstarfsverkefni á grundvelli laga sem sett var um þau verkefni 2020. Einnig hafi verið gerð sérstök jarðgangaáætlun innan samgönguáætlunar. „En það verður að segjast að það hefur ekkert gengið í þessum málum. Því miður. Það hefur ekkert orðið af þessum PPP-verkefnum með þeim hætti sem lagt var upp með. Samgöngusáttmálinn hefur bara hlaðið utan á sig kostnaði. Og það áttu alltaf að vera ein jarðgöng í gangi á hverjum tíma en það hafa engar framkvæmdir við jarðgöng verið í gangi frá árinu 2020, þegar Dýrafjarðargöng voru opnuð.“ Að lokum nefndi Ingólfur að innan byggingar- og mannvirkjagreina væri nægt svigrúm til takast á við ný og stór verkefni: „Við þurfum bara fjármögnun og vilja“.

Kynning Ingólfs

Pallborðsumræður

Pallborðsumræður

Ætla að leggja Sundabraut og vilja fleiri jarðgöng

Fundinum lauk með áhugaverðum pallborðsumræðum sem Ólöf Skaftadóttir, ráðgjafi og hlaðvarpsstjórnandi, stýrði. Hún beindi orðum sínum fyrst að Eyjólfi Ármannssyni, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, rifjaði upp að hann hefur sagt þörf á innviðauppbyggingu og spurði hvort hann væri byrjaður. „Nei, ég er ekki byrjaður. Mig vantar meiri peninga, ég held að það sé alveg ljóst,“ sagði ráðherra. Það væri þó ljóst að ríkið ætlaði sér að leggja Sundabraut og að það yrði gert með því að nýta kosti PPP, þ.e. samvinnu opinberra aðila og einkaaðila. Veggjöld myndu standa undir kostnaði við framkvæmdirnar. Einnig væri vilji til að grafa fleiri jarðgöng. Til að fjármagna þessar framkvæmdir þyrfti að horfa til samstarfsverkefna, m.a. þeirra sem hefði verið ráðist í í Færeyjum og hefðu tekist mjög vel. Ákjósanlegast væri ef hægt yrði að ráðast í svona verkefni án þess auka skuldir ríkissjóðs, líkt og gert hefði verið í Færeyjum. Það væri umhugsunarefni hvernig Ísland væri komið í þá stöðu að fjárfestingar í innviðum hefðu verið í algjöru lágmarki. „Staðan er ekki góð og hún hefur myndast út af sinnu- og stefnuleysi.“ Hann sagði íslensku krónuna ekki vera vandamálið og ýmis tól væru til staðar til að draga úr gengisáhættu.

Krónan er Þrándur í Götu

Sigþór Sigurðsson, framkvæmdastjóri Colas Íslands, sagði ljóst að ef Íslendingar ætluðu að ráðast í innviðaverkefni með samvinnu opinberra aðila og einkaaðila, yrði að vanda mjög til verka. Jarðgangagerð væri til að mynda mjög áhættusöm og þá væru flest verkefni sem rætt hefði verið um of smá í sniðum til að ganga upp sem hreinræktuð PPP-verkefni. Mikilvægt væri að stjórnmálamenn byggju til skýran ramma og umgjörð, t.d. með því að stofna félög um einstök verkefni og leggja fram eigið fé. Eina alvöru verkefnið væri Sundabraut og það væri verkefni af þeirri stærðargráðu að alþjóðlegir risaverktakar gætu haft áhuga á því. Hann vék einnig að gengisáhættunni. „Íslenska krónan er okkur Þrándur í Götu. Það er alveg klárt að þegar erlendir aðilar koma að fjármögnun og verktöku, þá er gengisáhættan stór hluti af því sem þarf að taka tillit til. Það eru áhættur alls staðar í þessum verkefnum og það þarf að tækla þær allar á hverjum stað fyrir sig.“

Samstaðan er mikilvæg

Aðspurður sagði Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu lífeyrissjóðs, að stærsta áhættan við svona verkefni væri hin pólitíska áhætta. Það hefði átt við þegar ráðist var í gerð Hvalfjarðarganga og það ætti einnig við nú. „Ef samfélagið er ekki sammála og pólitíkin er ekki sammála um hvernig á að gera þetta, af hverju ættu lífeyrissjóðirnir þá að fara í þetta?“

Ólafur sagði að lífeyrissjóðir væru til í að taka þátt í að fjármagna ýmsa innviði en því miður hefði lítið gerst. Hann sagði mikilvægt að taka vel í hugmyndir um erlenda fjármögnun. „Fjármögnun er ekki vandinn. Metlife, Ardian … það er til haugur, ef ég leyfi mér að nota það orð, af stútfullum sjóðum í Evrópu sem skilgreina sig sem innviðasjóði. En þegar þeir koma til landsins, þá tökum við svolítið á móti þeim með boxhönskum, eins og einhverjir molbúar,“ sagði hann. Ekki væri raunhæft að lífeyrissjóðir fjármögnuðu allt, en það virtist henta erlendum fjárfestum að vinna með innlendum aðilum.

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, sagði skipta máli að það væri ljóst að stjórnvöld hefðu vilja og áhuga til að skoða fjárfestingar og samvinnu við innviðauppbyggingu. Ríkið gæti enda ekki staðið eitt í þeim framkvæmdum sem nauðsynlegt væri að ráðast í. Það væri greinilegt að fjárfestar væru áhugasamir, bæði innlendir og erlendir. „Viljann skortir sannarlega ekki en það þarf að finna réttu leiðina,“ sagði Sigurður. Það væri skýr pólitískur vilji til að ráðast í innviðaframkvæmdir. Það væri ánægjulegt að sjá hvernig viðhorf almennings til veggjalda til dæmis hefði verið að þróast. „Stóra málið er að byrja.“

Fleiri myndir frá ráðstefnunni birtast einnig á Facebook Landsbankans

Pallborðsumræður
Sigurður Hanesson
Þú gætir einnig haft áhuga á
16. sept. 2024
Aðgerðir og árangur fyrirtækja í sjálfbærni
Fyrir nokkrum árum þurftu fyrirtæki sem sögðust sinna sjálfbærnimálum iðulega að útskýra hvað fælist í sjálfbærni og hvers vegna þau væru yfirleitt að leggja í þessa vinnu. Nú hefur umræðan breyst og skilningur aukist á mikilvægi þess að atvinnulífið taki fullan þátt í að stuðla að aukinni sjálfbærni og þar með áframhaldandi velsæld mannkyns.
13. júní 2023
Líffræðilegur fjölbreytileiki lykillinn að farsæld – líka í fjármálum
Fjölbreytileiki lífríkis er ein sterkasta vörn okkar gegn frekari hlýnun, fyrst og fremst vegna þess að hin ýmsu vistkerfi binda kolefni. Vinna þarf samtímis að lausn á loftslagsvandanum og verndun fjölbreytileika lífríkisins.
Fólk með hund úti í náttúrunni
28. feb. 2023
Kröfur til upplýsinga um sjálfbærni aukast hratt
Sífellt fleiri íslensk fyrirtæki birta nú upplýsingar um hvaða áhrif starfsemi þeirra hefur á sjálfbæra þróun.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur