Það stytt­ist í jólin og jóla­stress­ið – eða hvað?

Jólin eiga að vera hátíð gleði og friðar en við upplifum oft að þau snúist að miklu leyti um neyslu og jólastress. Í aðdraganda jóla hættir mörgum til að sleppa sér í neyslunni og kaupa hluti sem hvorki þau sjálf, fjölskyldu eða vini vantar í raun og veru. Viljum við breyta þessu?
9. nóvember 2023

Jólin eru að koma! Þessi staðreynd fyllir sum okkar gleði og tilhlökkun en önnur kvíða. Það er svo margt sem þarf að gera: Kaupa jólagjafir, jólamatinn, fara í gegnum skrautið, búa til aðventukrans, baka allar þessar sortir af smákökum, finna réttu gjafirnar handa hverjum og einum og muna að aðstoða jólasveinana (hvenær koma þeir aftur??). Svo eru það jólaþrifin, jólatréð, jólatónleikarnir, jólaskemmtanir barnanna, jólahlaðborðið í vinnunni… Upptalningin gæti haldið áfram endalaust og mikið er heppilegt að það sé allt uppfullt af tilboðsdögum í aðdraganda jólanna. Miðnæturopnanir, dagur einhleypra, svartur föstudagur og hvað þeir heita allir. Þá er nú heldur betur hægt að kaupa nóg af öllu, jafnvel án þess að fara út úr húsi!

Hátíð allri heimsbyggð í?

Um leið dynja á okkur fréttir um loftslagsbreytingar og afleiðingar af þeirra völdum. Við höfum því miður upplifað nokkur heitustu sumur sem mælst hafa. Breytingunum fylgja hitabylgjur, flóð og manntjón. Það er kaldranaleg staðreynd að við höfum nú þegar upplifað kaldasta tímabil ævi okkar því hlýnunin mun ekki stöðvast eða ganga til baka á meðan við erum til.

Góðu fréttirnar eru þær að ef við grípum til þeirra aðgerða sem þarf til að minnka loftslagsbreytingar munu börn sem fæðast um þessar mundir eiga möguleika á að sjá þessar breytingar gangi að hluta til baka á þeirra æviskeiði. Til þess að það geti raunverulega gerst þurfum við öll að leggja okkar lóð á vogarskálarnar. Umbreytingin þarf að eiga sér stað hjá fyrirtækjum, á innviðum okkar og vera stýrt af stjórnvöldum. Þetta ferli er hafið, m.a. með innleiðingu sjálfbærniregluverks Evrópusambandsins, sem stefnir að því að ná markmiðum Parísarsamkomulagsins um að halda hlýnun jarðar að meðaltali innan við 1,5°C frá iðnvæðingu.

Til þess að hægt sé að ná árangri á stuttum tíma þurfa stjórnvöld að draga vagninn. En einstaklingar geta líka haft áhrif, ekki síst með því hvernig þeir stýra sinni neyslu og hegðun. Og þá komum við að umfjöllunarefni pistilsins, jólunum. Í öllu jólabrjálæðinu og kröfu samfélagsins um að taka þátt í neyslunni hættir okkur öllum til að gleyma þeim áhrifum sem hin mikla neysla okkar og annarra Vesturlandabúa hefur, ekki síst með tilliti til loftslagsbreytinga. Okkur langar kannski til að draga úr mengun, en við gleymum því bara í jólastressinu! Þau sem taka ekki þátt í neyslunni geta væntanlega ekki verið með í jólunum, eða hvað? Verða einhver jól hjá þeim sem kaupa ekki nýjustu skandinavísku hönnunina í jólagjöf handa vinum sínum, nýjustu afþreyinguna handa börnunum sínum, réttu upplifunina og eitthvað smá með handa foreldrum og tengdaforeldrum sínum? Endurnýja skrautið á jólatrénu og aðventukransinn?

Það ER hægt að halda jól með minni neyslu

Ef við ætlum að draga úr neyslu, hvernig getum við þá haldið jólin? Sem betur fer er hægt að gera ýmislegt og flest gefur okkur meiri tíma til að njóta aðdraganda jólanna betur. Ein leiðin er að taka þátt í hringrásarhagkerfinu og koma því sem ekki er verið að nota aftur í hringrásina með því að gefa notaðar jólagjafir. Við höfum ekki öll tíma til að leita að réttu jólagjöfunum í verslunum sem selja notaðan varning en flest eigum við lítið notaða og heillega hluti sem gætu vel nýst öðrum. Þetta gætu jafnvel verið gjafir sem við höfum fengið og aldrei notað – kannski passa þær ekki eða við áttum sama hlutinn fyrir. Slíka hluti má nefnilega gefa áfram.

Ef við höfum tíma er tilvalið að nýta sér verslanir sem selja notaðan varning. Ef við kjósum frekar að versla á netinu þá er hellingur af síðum með notaðar vörur til sölu á Facebook. Bland er líka ennþá starfandi. Mörg þekkjum við fólk sem „á allt“ og aldrei er hægt að finna neitt fyrir. Fyrir þannig fólk er tilvalið að bjóða í heimsókn – eða fara til þeirra í heimsókn – og eyða með þeim því dýrmætasta sem við eigum: tíma. Það má líka bjóða út að borða, á tónleika eða í leikhús, ef þér finnst nauðsynlegt að gefa eitthvað annað en samveru.

Samveran mikilvægust af öllu

Jólin eiga ekki að snúast um neyslu og stress. Breytum því hvernig við nálgumst þau. Gefum notaðar gjafir eða bara alls engar gjafir og eyðum frekar tíma okkar með þeim sem við viljum gleðja. Börn og unglingar eru auðvitað síst til í að sleppa jólagjöfunum og það er allt í lagi. Mörg þeirra, ekki síst þau yngstu, eru alveg til í notuð leikföng, notað snjalltæki, notuð skíði eða hvað sem það er sem hugur þeirra stendur til. Komum endilega öllum þessum heilu hlutum sem sitja í skápunum og geymslunum hjá okkur í notkun.

Megum við öll eiga gleðilega aðventu og friðsamleg jól með minni neyslu og meiri tíma með þeim sem eru okkur kærust.

Greinin birtist fyrst á visir.is 3. nóvember 2023.

Þú gætir einnig haft áhuga á
16. sept. 2024
Aðgerðir og árangur fyrirtækja í sjálfbærni
Fyrir nokkrum árum þurftu fyrirtæki sem sögðust sinna sjálfbærnimálum iðulega að útskýra hvað fælist í sjálfbærni og hvers vegna þau væru yfirleitt að leggja í þessa vinnu. Nú hefur umræðan breyst og skilningur aukist á mikilvægi þess að atvinnulífið taki fullan þátt í að stuðla að aukinni sjálfbærni og þar með áframhaldandi velsæld mannkyns.
Sjálfbærnidagur 2024
5. sept. 2024
Sjálfbærnidagur 2024 – upptökur
Sjálfbærnidagur Landsbankans var haldinn í þriðja sinn miðvikudaginn 4. september 2024 og var afar vel sóttur.
hinsegin dagar
9. ágúst 2024
„Hver þú ert á ekki að stöðva þig í að finna hreyfingu við hæfi“
Níu atriði hlutu styrk úr Gleðigöngupotti Hinsegin daga og Landsbankans fyrir Gleðigönguna sem fram fer á laugardaginn. Eitt þeirra atriða er Öðruvísi íþróttir.
Hús í Reykjavík
18. júní 2024
Snjóhengjan sem verður vonandi að skafli
Í byrjun sumars 2021 var sögulega lágt vaxtastig á Íslandi. Þetta sumar og þeir mánuðir sem á eftir komu voru annasamir í Landsbankanum. Þúsundir viðskiptavina breyttu íbúðalánum sínum í óverðtryggð íbúðalán, nafnvaxtalán, og flestir festu vextina í þrjú ár. Um þessar mundir er fastvaxtatímabilinu að ljúka hjá mörgum. Til áramóta munu fastir vextir losna á ríflega 3.200 íbúðalánum. Og það er bara hjá okkur í Landsbankanum.
Hamborgartréð tendrað í Reykjavík
29. nóv. 2023
Hamborgartréð - saga samfélagsbreytinga og þakklætis
Saga Hamborgartrésins er hógvær, en á vissan hátt bæði breytingasaga Reykjavíkur og falleg jólasaga gjafmildi og þakklætis.
Reykjastræti
16. nóv. 2023
Af hverju heitir hraðbanki ekki tölvubanki?
Hæ! Áttu eitthvað í handraðanum? Eða þarftu kannski að skreppa á Raufarhöfn? Geturðu notað kortið þitt í tölvubankanum? Vissir þú að þetta tengist allt peningum með einhverjum hætti?
Netbanki fyrirtækja
10. nóv. 2023
Bankakerfið er að opnast
Landsbankinn kynnti á dögunum nýjung í appinu sínu sem gerir fólki kleift að millifæra af reikningum í öðrum bönkum. Þessi þjónusta er alltaf háð samþykki viðskiptavina. Landsbankinn er fyrsti bankinn á Íslandi sem býður fólki að framkvæma aðgerðir í öðrum bönkum úr sínu appi.
Sjálfbærnidagur 2023
8. sept. 2023
Sjálfbærnidagur 2023 – upptökur
Sjálfbærnidagur Landsbankans var haldinn í Grósku 7. september 2023. Á fundinum beindum við sjónunum að því sem íslensk fyrirtæki hafa verið að gera til að auka sjálfbærni í sínum rekstri og hvernig gera megi enn betur.
Myndlistarsýning
17. ágúst 2023
Hringrás – innsýn í listasafn Landsbankans
Sýningin Hringrás er úrval verka úr listasafni Landsbankans. Á sýningunni er kannað hvernig áhrif og innblástur þróast með mismunandi miðlum og í meðförum ólíkra kynslóða listafólks. Verkin endurspegla áherslu á ákveðnar listrænar hreyfingar, abstraktlist og geómetríska abstraksjón, hlutbundna og hlutlæga list, grafíska list (bæði ætimyndir og teikningar) og súrrealisma. Hringrás veitir innsýn í fjölbreytileika og breidd listasafns Landsbankans, þvert á framsetningarmáta og samhengi. 
Ungmenni úr Hinsegin félagsmiðstöðinni
10. ágúst 2023
„Baráttan er ekki búin fyrr en …“
Hinsegin félagsmiðstöðin verður með einn stærsta vagninn í Gleðigöngunni en hann er 14 metra langur og rúmar meira en 100 krakka. Þótt vagninn verði litríkur og glæsilegur er undirtónninn samt alvarlegur.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur