Nokkur ráð til jólasveina frá Stekkjastaur um kaup á gjöfum
Fáir hafa jafnmikla reynslu og Stekkjastaur - bara 8 eða 12 aðrir - enda byggir hann á aldalangri reynslu sem jólasveinn og ærslabelgur. Hann kemur auk þess alltaf fyrstur og þarf því að byrja fyrr að undirbúa jólin en bræður hans. Jólaráðin fylgja hér á eftir:
Gjafirnar þurfa ekki að vera dýrar
Oft eru það smáir og nytsamir hlutir sem gleðja mest, eitthvað sem nýtist í dagsins önn og sem minnir lengi á þá gleði sem fylgir því að vakna á morgnana, kíkja í skóinn og sjá að jólasveinninn kíkti til manns um nóttina.
Ekki kaupa gjafir á síðustu stundu
Innkaup í verslunum og á bensínstöðvum sem eru opnar utan venjubundins opnunartíma eru oftar en ekki óhagstæðari en annars staðar. Það gildir um kaup í skóinn sem og önnur innkaup. Þá geta bestu bitarnir verið fljótir að fara og því gott að vera tímanlega á ferðinni. Stekkjastaur hefur alltof oft lent í þessu sjálfur.
Ekki fara svangur út í búð
Þetta gildir einnig um jólasveina.
Matur er mannsins megin
Margir jólasveinanna, líkt og Bjúgnakrækir, Ketkrókur og Askasleikir, eru miklir matgæðingar og finnst fátt betra en að borða og gefa öðrum mat þó þeir viðurkenni það seint að þeir deili með öðrum. Þeim finnst því tilvalið að gefa börnum mandarínur, heimabakstur eða annað góðgæti.
Vantar eitthvað fyrir jólin?
Sokkapör, hárskraut og annað smálegt, sem nýst getur um hátíðirnar, eru tilvaldar gjafir í skóinn.
Verslað fyrir nokkra í einu
Hagstæðara getur verið að kaupa fyrir fleiri en eitt barn í einu enda magnpakkningar oft á betra verði en einstaka hlutir. Þannig geta jólasveinar sem t.d. bindast fjölskyldu- eða vinaböndum, sameinast í innkaupum og skipt pakkningum á milli sín.
Börn bera saman bækur sínar
Að morgni segja börnin hvort öðru frá því sem beið þeirra í glugganum þegar þau vöknuðu og þar sem fjárhagur heimila er misjafn getur verið sárt fyrir sum börn að heyra af mikilli gjafmildi jólasveina á heimilum vina sinna. Því er best að stilla innkaupum í hóf og hafa hugfast að það er hugurinn og gleði barnanna sem skiptir mestu.
Nei, nei, ekki um jólin
Það borgar sig alls ekki að taka skammtímalán (hvað þá smálán) til að eiga fyrir innkaupum í skóinn. Það getur dregið dilk á eftir sér. Hugsaðu stórt en notaðu fjármuni af skynsemi.
Pistillinn birtist fyrst á Umræðunni þann 9. desember 2014.