Bankakerfið er að opnast
Þjónustan byggist á hugbúnaðarlausn frá Meniga sem veitir aðgang að reikningum í öllum íslensku bönkunum, Arion banka, Íslandsbanka og Kviku, í gegnum samræmd netskil (API). Þegar sparisjóðirnir verða tilbúnir bætast þeir líka við. Þjónustan er byggð á nýrri löggjöf um greiðsluþjónustu (PSD2) sem öðlaðist gildi hér á landi fyrir tveimur árum. Löggjöfin mælir fyrir um að bankar og sparisjóðir skuli opna fyrir aðgang að greiðslureikningum viðskiptavina sinna fyrir þjónustuveitendur sem hafa til þess starfsleyfi.
Samkvæmt könnunum eru viðskiptavinir mjög ánægðir með Landsbankaappið. Appið er einfalt í notkun og þar er hægt að framkvæma fleiri aðgerðir en í öðrum bankaöppum. Landsbankinn leggur mikla áherslu á að appið sé sniðið að þörfum viðskiptavina og fjölskyldan geti haft sameiginlega sýn á fjármálin. Viðskiptavinir Landsbankans geta til dæmis veitt öðrum fjölskyldumeðlimum umboð til að skoða eða millifæra af sínum reikningum og sömuleiðis getur fólk sparað saman í Landsbankaappinu. Nýja lausnin, að geta skoðað reikninga úr öðrum bönkum og millifært af þeim, er einmitt í þessum anda. Nú geta viðskiptavinir annarra banka notað Landsbankaappið, án þess að vera í beinum viðskiptum við bankann, og fjölskyldur horft saman á fjármálin sín óháð því hvar einstakir fjölskyldumeðlimir kjósa að stunda sín bankaviðskipti. Hugmyndafræðin á bak við opið bankakerfi er einmitt að fólk hafi val.
En þessi nýja virkni er aðeins brot af því sem PSD2 og opna bankakerfið hefur í för með sér. Innleiðing PSD2-löggjafarinnar hefur verið gríðarstórt verkefni hjá Landsbankanum eins og öðrum bönkum og felur í sér miklar breytingar á tæknilegum innviðum bankakerfisins. Samhliða innleiðingunni endurnýjaði Landsbankinn og nútímavæddi eldri kerfi og uppfærði þau í samræmi við evrópska samskiptastaðla. Kerfin í dag eru því hraðvirkari, skilvirkari og öruggari.
Með því að opna þessa þjónustu tökum við í Landsbankanum fyrsta skrefið en búumst við að fjártæknifyrirtækin þrói líka lausnir fyrir einstaklinga og fyrirtæki, t.d. gætu þau boðið upp á lausnir fyrir smásölumarkaðinn þar sem fólk greiðir fyrir vörur og þjónustu beint af greiðslureikningi í stað þess að nota greiðslukort. Innlend, óháð smágreiðslulausn hefur verið mikið í umræðunni undanfarin misseri og er þessi nýja þjónusta mikilvægur áfangi í þeirri vegferð.
Til að auðvelda fjártæknifyrirtækjum og öðrum fjármálastofnunum að vinna á móti Landsbankanum í anda opins bankakerfis, í gegnum samræmd netskil (API), hefur Landsbankinn jafnframt opnað markaðstorg. Markaðstorg Landsbankans notast við þjónustu kanadíska fjártæknifyrirtækisins Salt Edge. Samstarfið við Salt Edge gerir bankanum kleift að halda úti þjónustu við þá sem vilja tengjast Landsbankanum allan sólarhringinn, alla daga ársins. Landsbankinn býður þannig upp á fyrsta flokks þjónustu við þau fjármála- og fjártæknifyrirtæki sem kjósa að þróa sínar eigin greiðslulausnir eða aðrar lausnir í samstarfi við bankann.
Landsbankinn fagnar samkeppninni sem nýja PSD2-löggjöfin kann að skapa en hyggst jafnframt taka þátt í henni sjálfur af fullum krafti með því halda áfram að þróa nýjar lausnir og þjónustu fyrir viðskiptavini sína.
Á næstu misserum mun bankinn kynna ýmsa nýja virkni í Landsbankaappinu, sem mun gera fjölskyldum landsins kleift að hafa mun betri yfirsýn yfir öll sín fjármál og skipuleggja þau til skamms og langs tíma. Sömuleiðis erum við að vinna í að einfalda lykilferla bankans þannig að viðskiptavinir geti stundað öll sín bankaviðskipti, bæði einföld og flókin, gegnum appið. Eftir sem áður heldur Landsbankinn úti stærsta útibúaneti banka á Íslandi um allt land og gríðarlega öflugu þjónustuveri.
Birtist fyrst í ViðskiptaMogganum 8. nóvember 2023.