Ný útgáfa af almennum viðskiptaskilmálum Landsbankans
Auk skilmálanna gilda, eftir atvikum, ákvæði samninga, skilmála og reglna um einstakar vörur eða þjónustu sem bankinn kann að veita viðskiptavini.
Með nýju útgáfunni eru uppfærð ákvæði um vinnslu persónuupplýsinga, aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, heimildir ófjárráða einstaklinga, umboð, netbanka fyrirtækja, greiðslureikninga og greiðslukort. Þá er orðalag ýmissa ákvæða einfaldað og skýrt.
Nýju skilmálarnir gilda frá og með 1. september 2020 gagnvart nýjum viðskiptavinum. Gagnvart núverandi viðskiptavinum gilda eldri skilmálar til 31. október 2020 en nýju skilmálarnir frá og með 1. nóvember 2020.
Almennir viðskiptaskilmálar Landsbankans 1. september 2020
Helstu efnisbreytingar á almennum viðskiptaskilmálunum eru eftirfarandi:
- Vinnsla persónuupplýsinga (grein 2.1): Vinnsla persónuupplýsinga er skýrð og aukin fræðsla veitt þar að lútandi, m.a. varðandi hljóðritun símtala.
- Aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka (greinar 2.2, 2.3, 4.3 og 4.9): Kveðið er nánar á um framkvæmd áreiðanleikakönnunar, reglubundið eftirlit og öflun upplýsinga.
- Heimildir ófjárráða einstaklinga til að stofna til viðskipta við bankann (greinar 2.5-2.6 og 5.1): Skýrt er nánar hvernig stofna má til viðskiptasambands við ófjárráða einstakling fyrir æsku sakir og hvaða hlutverk lögráðamaður gegnir í því sambandi.
- Umboð (grein 2.7): Ákvæði um umboð eru einfölduð og skýrð.
- Netbanki fyrirtækja (grein 3.2): Kveðið er á um afhendingu aðgangsupplýsinga og heimildir til að skuldbinda fyrirtæki í netbanka fyrirtækja.
- Greiðslureikningar (greinar 4.1, 4.3 og 4.9): Kveðið er á um framkvæmd við stofnun greiðslureikninga, frestun, stöðvun og synjun um framkvæmd greiðslna, upplýsingamiðlun til erlendra greiðslumiðlunarbanka og lokun reikninga.
- Útgáfa greiðslukorta (greinar 5.1 og 5.2). Gerðar eru breytingar á ákvæðum um framkvæmd við afhendingu og notkun greiðslukorts.
Ákvæði skilmálanna sem falla undir gildissvið laga um greiðsluþjónustu mynda rammasamning um greiðsluþjónustu milli viðskiptavinar og bankans í skilningi laga um greiðsluþjónustu. Núverandi viðskiptavinur hefur rétt á að tilkynna bankanum um uppsögn rammasamnings um greiðsluþjónustu fyrir 1. nóvember 2020 ef hann vill ekki samþykkja breytingarnar. Núverandi viðskiptavinur telst hafa samþykkt breytingarnar tilkynni hann bankanum ekki um annað fyrir 1. nóvember 2020.