Afgreiðslan í Bolungarvík sameinast útibúinu á Ísafirði
Afgreiðsla Landsbankans í Bolungarvík mun sameinast útibúinu á Ísafirði þann 1. júlí næstkomandi. Landsbankinn hefur frá árinu 2015 rekið afgreiðslu í Ráðhúsi Bolungarvíkur en samhliða aukinni notkun á stafrænni þjónustu hefur eftirspurn eftir gjaldkeraþjónustu minnkað mikið.
Landsbankinn mun áfram reka hraðbanka í Bolungarvík sem er aðgengilegur allan sólarhringinn. Útibú bankans á Ísafirði er opið frá kl. 9-16 alla virka daga en vegalengdin þangað frá Bolungarvík er um 13 km. Þá mun Landsbankinn einnig bjóða þjónustuheimsóknir fyrir eldri borgara í Bolungarvík.
Kennsla á stafrænar lausnir
Viðskiptavinum mun bjóðast aðstoð og kennsla á stafrænar lausnir bankans í Ráðhúsi Bolungarvíkur þriðjudagana 9. júní og 23. júní frá klukkan 15.00 báða dagana.