Rafræn undirritun á frestun greiðslna – úrræðið virkt frá 1. apríl
Viðskiptavinir Landsbankans sem hafa orðið fyrir óvæntri tekjuskerðingu geta nú undirritað umsókn um frestun greiðslna af íbúðalánum með rafrænum hætti á vef bankans. Úrræðið getur náð til gjalddaga lána frá og með 1. apríl.
Rafrænt umsóknarferli og undirritun
Vegna efnahagslegra afleiðinga Covid-19 hafa allmargir viðskiptavinir óskað eftir að greiðslum af íbúðalánum verði frestað. Landsbankinn leggur áherslu á að geta brugðist hratt við þessum óskum og undanfarna daga hefur mikil vinna verið lögð í að gera umsóknarferlið rafrænt. Til að hægt sé að fresta greiðslum þarf að útbúa viðauka við lánið. Nú er hægt að skrifa undir viðaukann með rafrænum skilríkjum á vef bankans en áður þurfti að koma í útibú til að undirrita.
Þinglýsingargjald greiðist af lántaka
Landsbankinn innheimtir ekki gjald fyrir breytinguna en sýslumaður innheimtir þinglýsingargjald, að fjárhæð 2.500 kr., sem lántaki greiðir.
Um frestun greiðslna
Fresta má greiðslum af íbúðalánum um allt að sex mánuði. Hægt er að fresta gjalddögum frá og með 1. apríl, hafi greiðsla ekki þegar verið innt af hendi. Frestun greiðslna af íbúðalánum hentar fyrst og fremst einstaklingum og fjölskyldum sem verða fyrir óvæntri tekjuskerðingu.