Nýtt hlaðvarp Hagfræðideildar Landsbankans
Í nýju hlaðvarpi Umræðunnar fjallar Hagfræðideild Landsbankans um hlutabréfamarkaðinn, viðskiptalíf og efnahagsmál. Tilgangurinn er að auka áhuga á og umræðu um hlutabréfamarkaðinn og veita innsýn í hvernig sérfræðingar í Hagfræðideild Landsbankans meta félög á hlutabréfamarkaði. Hlaðvarpið kallast Markaðsumræðan og umsjónarmenn þess eru Arnar I. Jónsson og Sveinn Þórarinsson.
„Hlaðvarpið er vettvangur fyrir okkur verðbréfagreinendur í Hagfræðideildinni að koma á framfæri greiningum á félögum á hlutabréfamarkaði og hvernig hinir ýmsu atburðir, s.s. fréttir af félögum og nýjustu vendingar á mörkuðum og í hagkerfinu, hafa áhrif á félögin og markaðinn. Megin áhersla umfjöllunarinnar verða verðbréf og þróun markaðarins hér á Íslandi en einnig verður fjallað um hagfræði og hagkerfið með víðari skírskotun til þátta á borð við ferðaþjónustu, verðbólgu, vaxtaþróun og hagvaxtarhorfur,“ segir Sveinn.
Sveinn Þórarinsson og Arnar Ingi Jónsson„Hingað til höfum við einungis gefið út ritað efni, en með hlaðvarpinu gefst okkur kostur á víðtækari umfjöllun og tækifæri til að fjalla um fleiri fyrirtæki og málefni á ítarlegri hátt. Þetta er í raun viðbót við það sem við höfum þegar verið að gera en markmiðið er að auka umræðu og áhuga á hlutabréfa- og fjármálamarkaðnum,“ segir Arnar.
Hlaðvarpið er aðgengilegt á Umræðunni og öllum helstu streymisveitum. Í fyrsta þætti Markaðsumræðunnar er fjallað um smásölumarkaðinn á Íslandi og eldsneytismarkaðinn. Rætt er um yfirvofandi orkuskipti og áhrif þeirra á skráð félög á markaði, auk þess sem fjallað er um nýlegar stýrivaxtaákvarðanir og horfur fyrir næstu misseri.