Breyttir skilmálar Fasteignagrunns, Framtíðargrunns og Landsbókar
Breyttir skilmálar verðtryggðra greiðslureikninga Landsbankans taka gildi 1. nóvember 2019. Nánar tiltekið er um að ræða breytingar á samningsskilmálum Fasteignagrunns, Framtíðargrunns og Landsbókar. Breytingarnar eru til komnar vegna nýrra reglna Seðlabanka Íslands nr. 877/2018, um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár, sem taka munu gildi 1. nóvember 2019, sbr. reglur nr. 109/2019.
Samkvæmt núgildandi skilmálum allra verðtryggðra greiðslureikninga er innstæða laus í einn mánuð eftir umsaminn binditíma, binst eftir það í fimm mánuði og er síðan aftur laus í einn mánuð o.s.frv. Með nýjum skilmálum verður innstæða laus í einn mánuð eftir umsaminn binditíma. Að innlausnartímabili loknu binst innstæðan á ný og verður frá því uppsegjanleg með þriggja mánaða fyrirvara.
Vakin er athygli á að með núgildandi skilmálum binst hver innborgun í umsaminn tíma, að lágmarki í 36 mánuði. Þrátt fyrir að sparað sé með reglubundnum sparnaði mun öll innstæðan þannig ekki losna eftir lágmarks binditíma frá skráningu reglubundins sparnaðar heldur losnar hver og ein innborgun fyrir sig.