HM í Hljómskálagarðinum og á Ingólfstorgi
Útsendingar frá HM í knattspyrnu munu fara fram í Hljómskálagarðinum og á Ingólfstorgi í sumar. Leikir íslenska landsliðsins verða sýndir í Hljómskálagarðinum en allir leikir mótsins á Ingólfstorgi.
Landsbankinn, ásamt öðrum styrktaraðilum knattspyrnulandsliða Íslands, Reykjavíkurborg og KSÍ standa að HM torgunum. Þá mun RÚV verða með útsendingar frá Hljómskálagarðinum og gert er ráð fyrir leiktækjum fyrir börn og veitingaaðstöðu meðan á útsendingum stendur.
Einstök stemning myndaðist á Arnarhóli fyrir tveimur árum þegar strákarnir kepptu á Evrópumótinu í knattspyrnu en til þess að geta tekið á móti þessum fjölda fólks var talið heppilegra að vera í Hljómskálagarðinum með tilliti til stærðar og umhverfis, aðkomu og aðgengismála.
Leikir Íslands verða gegn Argentínu í Moskvu þann 16. júní, gegn Nígeríu í Volgograd 22. júní og Króatíu í Rostov 26. júní. Fari svo að Ísland komist upp úr riðlinum verða þeir leikir jafnframt sýndir í Hljómskálagarðinum. Áfram Ísland!