Lesið í markaðinn - ný bók um eignastýringu og fjárfestingar
Landsbankinn stendur að útgáfunni í samvinnu við bókaútgáfuna Crymogea.
Lesið í markaðinn er eitt ítarlegasta rit sem komið hefur út á íslensku um eignastýringu og fjárfestingu. Bókin er lykilrit fyrir fagfjárfesta og þá sem eru að stíga sín fyrstu skref á verðbréfamarkaði.
Aðferðir sem hafa breyst og þróast í tímans rás
Höfundarnir Svandís Rún Ríkarðsdóttir, sjóðstjóri í Eignastýringu Landsbankans, og Sigurður B. Stefánsson, framkvæmdastjóri Rose Atlantic, rannsökuðu hvernig aðferðir við fjárfestingu og eignastýringu urðu til og hvernig þær hafa mótast í tímans rás. Í bókinni er saga helstu kenninga um stefnu verðbréfamarkaðarins rakin frá 1890 og fram á 21. öld. Í ljós kemur að kenningar gömlu meistaranna eru enn í fullu gildi og mikið má læra af sögunni. Bókin er rúmlega 420 blaðsíður með fjölmörgum skýringamyndum og ljósmyndum.
Sigurður og Svandís hafa starfað saman við eignastýringu frá árinu 2004. „Allan þennan tíma höfum við velt fyrir okkur sérstaklega þeim aðferðum sem beitt er og hvers vegna þeim er beitt. Okkur langaði til að setja fram á íslensku þessa sögu hugmynda um fjárfestingu og eignastýringu og vonumst til að lesandinn fræðist eins mikið um þær og við höfum gert við vinnslu bókarinnar, “segir Svandís.
Nánar um bókina á vef Crymogea
Höfundarnir ræddu um bókina á ráðstefnu Landsbankans um tækifæri og horfur á alþjóðlegum fjármálamörkuðum í aðdraganda afnáms fjármagnshafta á Íslandi.