Yfirlýsing frá fimm bankaráðsmönnum í Landsbankanum hf.
Svonefnt Borgunarmál hefur verið bankanum erfitt. Kjarni málsins eins og hann horfir við okkur er í raun einfaldur. Hagsmunir bankans voru í fyrirrúmi, eins og bankaráð mat þá besta á sínum tíma. Engar aðrar hvatir lágu þar að baki. Ásakanir um annað eru meiðandi og við höfnum þeim alfarið.
Bankasýslan sem fer með eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum hefur nú sent bankaráðinu bréf þar sem að engu eru höfð málefnaleg rök bankans fyrir því hvernig undirbúningi og framkvæmd á sölu á hlutum í Borgun var háttað. Þrátt fyrir að formaður bankaráðs hafi á aðalfundi bankans í mars 2015 sagt að bankinn hefði betur selt hlutinn í Borgun í opnu ferli og ljóst sé að fleira hefði mátt betur fara, teljum við engu að síður að það sé langur vegur frá því að í bréfinu sé gætt jafnvægis og hlutlægni. Í raun veitist Bankasýslan harkalega að bankanum af óbilgirni sem er síst til þess að fallið að auka traust.
Í bréfi Bankasýslunnar er kallað eftir aðgerðaáætlun bankaráðs sem skuli liggja fyrir innan tveggja vikna til þess að endurvekja traust á bankanum. Er nú unnið að henni innan bankans eins og komið hefur fram. Látið er í veðri vaka í bréfinu sjálfu og í viðtölum við stjórnarformann Bankasýslunnar í fjölmiðlum, að þar muni bankaráðið hafa frjálsar hendur til þess að vinna að málum eftir bestu getu. Áður en bréfið var afhent bankaráði boðaði stjórnarformaður Bankasýslunnar formann bankaráðs til fundar að forstjóra stofnunarinnar viðstöddum, með þau skilaboð að það eina sem dugi til sé að bankastjóranum verði sagt upp störfum auk þess sem formaður og varaformaður víki. Sú afstaða stjórnar Bankasýslunnar fékkst síðar staðfest. Þarna gengur Bankasýslan skrefi of langt. Það er hlutverk bankaráðs og Fjármálaeftirlitsins að meta hæfi bankastjórans. Við munum ekki taka þátt í skollaleik sem hvorki samrýmist meginreglum félagaréttar né góðum stjórnarháttum.
Steinþór Pálsson er stefnufastur og öflugur stjórnandi; hreinn og beinn. Hann er leiðtogi bankans og hefur staðið sig með afbrigðum vel. Við teljum farsælast að hann stjórni bankanum áfram til góðra verka.
Á þeim árum sem við höfum gegnt störfum í bankaráðinu hefur Landsbankinn bætt fjárhagslega stöðu sína með markvissu starfi sem hefur skilað traustari banka og veglegum arði til ríkissjóðs og annarra hluthafa. Við erum stolt af því að eiga þar hlut að máli.“
Undir tilkynninguna rita:
Tryggvi Pálsson
Eva Sóley Guðbjörnsdóttir
Jón Sigurðsson
Kristján Davíðsson
Jóhann Hjartarson